Greiðslu(verk)fall

Orðið "greiðsluverkfall" er í raun alveg ótrúlegt orðskrýpi.  Ef skuldari greiðir ekki af skuldum sínum, flokkast það ekki undir að hann hafi lagt niður eitthvert verk, heldur verður einfaldlega greiðslufall hjá honum og skuldin fer af háum vöxtum yfir á enn hærri dráttarvexti.  Að ákveðnum tíma liðnum frá greiðslufallinu fer skuldin í lögfræðiinnheimtu, með tilheyrandi viðbótarkostnaði, og að lokum verður eignin, sem veðsett var fyrir skuldinni, sett á uppboð og seld hæstbjóðanda.

Skuldabréf er samningseyðublað, sem lánveitandi og lántakandi undirrita báðið í votta viðurvist og á eyðublaðinu kemur allt fram um upphæð skuldarinnar, tryggingar fyrir henni og hvernig hún skuli endurgreidd.  Standi lántakandi ekki við sinn hluta samningsins og greiðir ekki afborganir á réttum tíma, þýðir ekkert fyrir hann að segjast bara vera í verkfalli og ætli kannski að borga þegar honum dettur í hug að aflýsa verkfallinu. 

Ef skuldari getur ekki staðið við upphaflega skilmála samningsins, þá fer hann auðvitað til síns lánveitanda og gerir nýjan samning um eftirstöðvarnar.  Geti hann staðið við samninginn, þá ber honum auðvitað að gera það möglunarlaust.

Það þýðir ekkert að segjast ekki borga "af því bara".


mbl.is Greiðsluverkföll ekki mikið nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar bankarnir með góðri hjálp útrásarvíkinga og fleiri "góðmenna" í þjóðfélaginu höfðu blásið upp þvílíka "loftbóluborg" í þjóðfélaginu að ekki varð blásið mikið lengur tóku þeir uppá því að "misnota gengið" til að fela ósómann.  Gengismunur lántakenda og verbótaþáttur lána varð eins og "útblásið skrímsli".  Að lokum sprakk loftbólan með afleiðingum sem allir vita hverjar eru en færri vita hvernig koma til með að þróast.  Samningar sem lántakandinn hafði skrifað undir og allar þær "öruggu og góðu" áætlanir sem bankinn hafði lagt fyrir lántakanda sprungu með loftbólunni.  Þau lán sem fólk fékk byggðust á "greiðsluáætlun" sem bankinn vann fyrir lántakanda og voru í takt við það sem greiðslugeta lántakanda bauð uppá.  Öll greiðslugeta er brostin vegna aðgerða og "blekkinga" lánveitanda.  Höfuðstóll lána hefur stórhækkað vegna "loftbólusprengjunnar" sem bankarnir sköpuðu sjálfir.  Er svo hægt að fara fram á að lántakandinn taki á sig skellinn, ef svo er hefðu þá ekki sparifjáreigendur átt að taka sinn skell líka svo "jafnræði" héldist í þjóðfélaginu.  Margir sparifjáreigendur hafa "hagnast" á þessu loftbóluævintýri og ríkið tryggt þeim hagnaðinn uppí topp. 

Þú einfaldar málið full mikið, en það er mjög algengt hjá fólki í þjóðfélaginu sem ekki hefur dregist inní þessa klikkun, svo ég nú ekki tali um þá sem hafa hagnast á henni.  Því miður er hætta á því að mun fleiri dragist inní þessi ósköp ef ekkert verður að gert fyrir þær þúsundir af fjölskyldum sem í súpunni sitja í dag.  Hver á þá að tryggja sparifjáreigendum sparnaðinn, sem reyndar varð langt umfram þær 3 milljónir sem upphaflega var gert ráð fyrir.  Flestir hafa örugglega vilja til að greiða sínar skuldir en þeir hafa einfaldlega ekki greiðslugetu og  það má að "öllu" kenna lánveitanda um.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband