4.5.2009 | 13:32
Stórundarlegt fréttamat fjölmiðla
Afar undarlegt hefur verið að fylgjast með fréttum af stjórnarmyndunarviðræðunum undanfarna viku, en um fátt hefur verið fjallað varðandi þær, annað en ágreining flokkanna um ESB. Til þess að beina athygli frá því sem skiptir máli í þessum viðræðum, hafa stjórnarflokkarnir ýtt undir þessa umræðu og fjölmiðlarnir hafa fallið beint í gryfjuna.
Haft er eftir Jóhönnu, ríkisverkstjóra í fréttinni að: Við ætlum okkur að starfa út þetta kjörtímabil og viljum því hafa fast land undir fótum. Þar fyrir utan vita allir að bil var á milli flokkanna að því er varðar Evrópumálin og engan skyldi undra að við þurfum að gefa okkur tíma til að ná niðurstöðu þar, sagði Jóhanna í gær.
Allri síðustu viku var sem sagt eytt í snakk um ESB og ekki fyrr en í dag, að starfshópur er skipaður til að ræða um efnahagsvandann og ríkisfjármálin (þ.e. niðurskurðinn blóðuga). Þetta eru þau mál sem alvarlegust eru og umsókn um aðild að ESB mun ekki leysa, heldur verður þjóðin að vinna sig út úr þeim sjálf. Á "nýja Íslandi með gagnsæi og upplýsingaflæði til almennings" er látið eins og þessi vandi sé eitthvert smámál, sem verði leyst um leið og búið sé að ná einhverri niðurstöðu varðandi ESB.
Það er ekki boðlegt að bjóða þjóðinni upp á svona vinnubrögð. Fjölmiðlarnir dansa með í vitleysunni og ganga nánast ekkert á flokkana um hvernig á að taka á þeim málum sem brenna á almenningi, en það eru ekki ESB mál, enda meirihluti þjóðarinnar á móti sambandsaðild.
Fjárlög fyrir næsta ár verða "neyðarfjárlög" og þurfa samþykki Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. AGS frestaði öðrum hluta lánsáætlunar sinnar til Íslands, vegna ónógs niðurskurðar í ríkisfjármálum og óvissu í stjórnmálunum. Nú mun sjóðurinn ekki sætta sig við annað en áætlunum hans verði hrundið í framkvæmd.
Nú eru í gangi stjórnarmyndunarviðræður AGS við VG og SMF og um það eiga fjölmiðlarnir að fjalla.
Stjórnarmyndunarviðræðum haldið áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.