8.1.2020 | 19:01
"Það verður farið yfir alla verkferla"
Þann 5. janúar árið 2017 fór ferðaþjónustufyrirtækið Mountaineering in Iceland með hóp ferðamanna á vélsleðum upp á Langjökul þrátt fyrir að spáð væri hættu á veðurofsa á svæðinu.
Áströlsk hjón urðu viðskila við hópinn og fararstjórana í óverðinu sem á skall eins og spáð hafði verið. Skýring ferðaþjónustufyrirtækisins á því að lagt hefði verið upp í ferðina var sú að veðrið hefði skollið á fyrr en fyrirtækið hefði búist við. Í framhaldinu gáfu forráðamenn fyrirtækisins út þau loforð að þeir ætluðu sér að læra af atvikinu og að "farið verði yfir alla verkferla".
Þann 7. janúar 2020, nánast nákvæmlega þrem árum eftir fyrra atvikið, var spáð jafnvel enn meira óveðri en þegar farið var í ferðina 2015, en nú var farið með þrjátíuogníu ferðamenn í vélsleðaferð á sama jökul og enn er sagt að veðrið hafi skollið á fyrr og orðið verra en skipuleggjendur ferðarinnar reiknuðu með.
Í viðtali sagði einn forsprakka fyrirtækisins að svona ferð tæki venjulega um einn klukkutíma og kortér, en vegna ófærðar hefðu orðið tafir á ferðalaginu, en versta veðrið hefði ekki skollið á fyrr en um klukkan sextán, eða rúmum þrem tímum eftir að lagt var upp í ferðina.
Björgunarsveitir voru ekki kallaðar til fyrr en klukkan 20 um kvöldið, eða sjö tímum eftir að ferð var hafin og a.m.k. sex tímum eftir að allt var komið í óefni og fólkið orðið hrakið og hrætt.
Líklega verður af opinberum eftirlitsaðilum látið nægja að fyrirtækið gefi sömu skýringar og síðast, þ.e. að mistök hafi verið gerð sem muni verða til að læra af og að "það verði farið yfir alla verkferla".
Ef það að setja tugi ferðamanna í bráða lífshættu dugar ekki til að svipta svona fyrirtæki leyfi til ferðaþjónustustarfsemi, þá þurfa leyfisveitendur bráðnauðsynlega "að fara yfir alla verkferla"
Sumir jafna sig kannski aldrei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Enda virðist það komið í tísku að fyrirtæki rannsaki sjálft sig.
Sigurður I B Guðmundsson, 8.1.2020 kl. 19:10
Ef opinberir aðilar sinna ekki eftirlitshlutverki sínu verða þeir að "fara yfir alla verkferla".
Fyrirtæki komast auðvitað ekki upp með að rannsaka sjálf sig, en þau geta safnað saman upplýsingum sem þau nota síðar í vörnum sínum fyrir rannsóknar- og/eða eftirlitsaðilum.
Axel Jóhann Axelsson, 8.1.2020 kl. 20:13
Hann hafði kjark til að koma fram í fréttum og virtist skammast sín,en skírði vel hvað hann hélt um aðra af tveim leiðum. En mér dettur ekki í hug að það gildi sem afsökun en fyrst og fermst átti hann aldrei að leggja af stað eftir varúðar tilkynningar veðurstofunnar.
Helga Kristjánsdóttir, 10.1.2020 kl. 00:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.