Fjármálaráðherra beygður í duftið á mettíma

Fáránlegasta hugmynd sem komið hefur frá ráðherra í manna minnum var kveðin í kútinn á mettíma og traustið á fjármálaráðherranum, sem ekki var sérstaklega mikið, hvarf eins og dögg fyrir sólu.  Eftir þessa útreið verður erfitt fyrir hann að endurvinna það traust og verða tekinn alvarlega framvegis.

Hugmyndin arfavitlausa gekk út á að taka alla tíuþúsund króna seðla úr umferð og síðan fimmþúsund króna seðlana í framhaldinu.  Hefði það komist í framkvæmd yrði eittþúsund króna seðillinn sá verðmesti sem í umferð yrði, þó einhversstaðar í kerfinu sé líklega til tvöþúsund króna seðill sem sjaldan sést.  Fyrir þá sem ekki hafa greiðslukort, annaðhvort vilja þau ekki eða af öðrum ástæðum, hefði þá eina ráðið verið að nota mynt með þúsundkallinum og líklega hefðu einhverjir valið að reiða fram hestburði af hundaðköllum í öllum stærri viðskiptum.

Aðrar hugmyndir, sem sumar hverjar virðast ágætar, til að sporna við skattsvikum, falla algerlega í skuggann fyrir þessari ótrúlega vitlausu um seðlaafnámið og verða síður teknar alvarlega eftir rassskellingu fjármálaráðherrans með tíuþúsundkallavendinum.

Með tilliti til þess að þessi sami fjármálaráðherra berst fyrir því að Ísland verði hjáleiga í ESB og tekin verði upp evra sem gjaldmiðill hér á landi gerir hugmyndina um seðlaafnámið enn undarlegra, þar sem til eru fimmhundruð evru seðlar, sem jafngilda tæpum sextíu þúsund íslenskum krónum og því erfitt að sjá hvernig Benedikt myndi afnema stóru seðlana frá ESB, enda eru þar notaðir 500, 200, 100 og 10 evru seðlar sem yrðu íslenskum skattsvikurum til frjálsra afnota í sínum svörtu viðskiptum, eins og skattsvikurum og öðrum glæpamönnum innan ESB.

Gönuhlaup Benedikts fjármálaráðherra verður lengi í minnum haft og spurning hvort honum verður hreinlega sætt í embættinu áfram eftir þessa sneypuför.


mbl.is Tíu þúsund kallinn ekki á förum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrossabrestur

Það er svo spurning hvað honum hefur raunverulega gengið til, ekki má gleyma tengslum Engeyinga við kortafyrirtæki.

Hrossabrestur, 23.6.2017 kl. 13:21

2 identicon

Það er einungis eitt sem fjármálaráðherra getur gert núna til að fá almenning aftur á sitt band: biðja Seðlabankann um að ganga tafarlaust í það verk að búa til nýja 10.000.000, 5.000.000, 1.000.000, 500.000, 100.000 og 50.000 kr. seðla.

Íslendingar eiga rétt á sínu persónufrelsi, hvort sem það er við kaup eða sölu á kaffibolla, tölvu, bíl, húsnæði, verksmiðju eða fiskitogara.

Gunnar (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 13:51

3 identicon

Hvernig getur Benedikt verið sætt í ráðherraembættinu sem "Sjálfstæðis"flokkurinn leiddi hann til?

Nánast allur þigflokkurinn var á móti því að fara í stjórn með Viðreisn og BF,

samt lúffaði hann allur fyrir sérhagsmunum formannsins, frænda Benedikts og plastkorta manna og ESB hjáleigumanna.  

Því stendur val "Sjálfstæðis"flokksins eingöngu um það hvort þeir vilji láta Bjarna eyðileggja endanlega flokkinn, eða segja skilið við Bensa og brusselsku viðrinin í Viðreisn og BF sem ráðast ítrekað -og að því er virðist í skipulagðri aðför- að lögeyri landsins.  Mikil er ábyrgð Valhallar mannna í dag, þeir veittu "gönuhlaupamönnum" kraft til að höggva ítrekað í sama knérunninn í aðförinni að sjálfstæði lands og þjóðar, engir aðrir bera þá þungu ábyrgð en þeir.  Er þeim þá sætt í embættum?  Þessi stjórn er orðin óvinsælli en Jókustjórnin, Icesavestjórnin.  Segir það Valhallar mönnum ekkert?  Hollráð mitt er að Valhallarmenn byrji á að sprengja þessa stjórn hjáleigumanna, en feli sig ekki á bakvið Bensa eins og vesalingar og gungur.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 13:53

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ekki lít ég svo á Pétur Örn að núverandi stjórn sé orðin óvinsælli en "Norræna velferðarstjórn" Jóhönnu Sigurðardóttur, mönnum getur reynst örðugt að ná svo lágt, en rétt er það að hún stefnir þangað óðfluga.

Fyrir nokkrum vikum eða mánuðum heyrði ég af því að Svíþjóð muni verða fyrsta landið þar sem peningar (seðlar og mynt) verða afnumin og eingöngu notast verður við rafrænan gjaldmiðil s.s. plastkort. New World Order (NWO), en þar er AGS innanborðs, leggur áherslu á þessa leið, því þá geta þeir í fyrsta lagi fylgst með öllum greiðslum til og frá sérhverjum einstaklingi og fyrirtæki, öllum. Í öðru lagi geta þeir, af hvaða ástæðu sem er, lokað á allar færslur einstakra manna eða fyrirtækja ef þeim sýnist svo.

Málið er að þetta snýst ekki bara um Benedikt fjármálaráðherra heldur geri ég ráð fyrir því að embættismenn innan ráðuneytisins og sennilega ráðherrann einnig eru undir þrístingi frá NWO. Það sama á við um Parísarsamkomulag Al Gors og félaga, en það "samkomulag" er fyrst og fremst ætlað að hafa stjórn á ríkjum, fyrirtækjum og einstaklingum. Þetta "samkomulag" snýst minna um hlýnun jarðar, en það er notað í áróðursskini.

Tómas Ibsen Halldórsson, 23.6.2017 kl. 14:34

5 identicon

Bitamunur en ekki fjár hvað fylgishrunið varða Tómas.  Það ætti a.m.k. að vera Valhallar mönnum umhugunarefni og ekki hvað síst hvernig útkoma kosninganna 2013 varð, afhroð helferðarstjórnarflokkanna.  Undarlegt að Valhöll telji sig hafa efni á því að fórna sjálfri sér fyrir Viðreisn og Proppé.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 15:02

6 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ég geri ekki lítið úr því Pétur Örn, haustkosningarnar voru feigðarflan hjá Sjálfstæðisflokknum, hann er ekki að ná vopnum sínum og mun líklega ekki gera það meðan hann styðst við Viðreisn og Bjarta framtíð. Í þessu samstarfi flokksins er framtíð hans fremur dökk.

Tómas Ibsen Halldórsson, 23.6.2017 kl. 16:29

7 identicon

Mér segir svo hugur Tómas, að flokkurinn muni klofna haldi svo áfram sem undanfarin ár.  Annars vegar í frjálshyggjuarm pilsfaldakapítalista og Brusselsinnaðra (þar vill Bjarni eiga heima) og hins vegar í þjóðlega íhaldsmenn.  Þannig var stofnað til flokksins í upphafi, frjálshyggjumenn og íhaldsmenn.  Nú líður hratt að því að á milli myndist hyldýpi sem aldrei verði aftur brúað.  Hið gagnkvæma traust er horfið.  Vargur hefur valsað nógu lengi í véum.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 23.6.2017 kl. 17:29

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta frumhlaup fjármálaráðherrans er óskiljanlegt og virðist hafa verið sett fram án þess að svo mikið sem ympra á henni fyrirfram við samráðherra sína og hvað þá þingmennina sem eiga að bakka ríkisstjórnina upp.  Þingmenn Sjálfstæðisflokks voru sumir fljótir að lýsa algerri andstöðu við þennan fáránleika og um leið og forsætisráðherrann lýsti sinni andstöðu, var Benedikt fljótur að draga allt til baka og segjast vera hættur við vitleysuna, a.m.k. í bili.

Það eina sem hugsanlega gæti skýrt þetta er að nú eru engin fjármagnshöft lengur og hver sem er getur keypt sér gjaldeyri að vild og því gæti almenningur farið að nota t.d. evrur í viðskiptum sín á milli og þá allt upp í fimmhundruð evru seðla í stærri viðskiptum.

Þegar evrunotkunin yrði orðin almenn kæmi Benedikt með þá tillögu, að úr því að evruseðlar væru orðnir aðalgjaldmiðillinn á Íslandi væri einfaldlega sjálfsagt og eðlilegt að landið gengi í ESB og tæki evruna formlega upp sem gjaldmiðil.

Ekki er þó víst að plottið hafi verið svona djúphugsað, heldur hafi það bara verið einfaldlega það sem það lítur út fyrir að vera, þ.e. gönuhlaup.

Axel Jóhann Axelsson, 23.6.2017 kl. 18:24

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Mikið er ég sammála Pétri Erni Björnssinni,að hugsa sér Valhallarmenn hleypa gönuhlaupurum án viðnáms í aðför að sjálfstæði lands og þjóðar og það í sjálfu musteri sjálfstæðisstefnunnar.

Jóhönnustjórn heldur óvinsældametinu ennþá,en munurinn er ekki mikill,fjarlægðin gerir Jógrímu fölari.

Helga Kristjánsdóttir, 24.6.2017 kl. 01:36

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður var pistill þinn og snarpur, Axel Jóhann, og fróðleg umræðan.

En vertu ekki viss nema hann hafi einmitt hugsað sér að venja okkur við Evrópusambandið, freista manna til þeirrar fráleitu ályktunar, að úr því að þeir væru farnir að nota evruna í stórum stíl, væru skrefin ekki löng til þess að Ísland gengi hreinlega í ESB og málið ekki svo alvarlegt í raun.

En ekkert er fjær sanni. Þar fengjum við yfir okkur alla allsherjarlöggjöf þessa risaveldis (nokkuð sem þyrfti 250 menn í fullri vinnu til að þýða sleitulaust á íslenzku, ár eftir ár og áratug eftir áratug! Og þar fengjum við t.d. alla sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu og -löggjöf ESB, sem við sleppum nánast við nú í EES-ferlinu. Við værum ekki sjálfstætt ríki lengur og ættum margfalt erfiðara heldur en Bretar með að losa okkur aftur úr hnappeldunni eða öllu heldur: hremmingunni.

Jón Valur Jensson, 24.6.2017 kl. 01:52

11 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Reyndar kom þessi tillaga um afnám peningaseðlana frá nefnd. En mér finnst áhugaverð hugmynd sem ríkisskattstjóri viðraði um að ríkið gæfi út greiðslukort sem innihéldu engin færslugjöld. Þessa hugmynd fyndist mér að mætti útfæra nánar. T.D að þetta séu jafnframt persónuskilríki eins og nafnskírteinin væru í gamla daga. Með þessu væri verið að sjá " margar flugur í nokkrum höggum", afnema peningaprentun, gera fólki erfitt fyrir með skattsvik og peningaþvætti og afnema mafíugreiðslurnar til banka og fjármálafyrirtækja.

Jósef Smári Ásmundsson, 24.6.2017 kl. 06:27

12 identicon

Þykir myndarlegt af þér Helga að þþú takir undir orð mín, takk fyrir það.  Eitt annað vil ég nefna núna að nefndin til að vinna þessa skýrslu var skipuð að undirlagi og beiðni Benedikts sjálfs, hún var handvalin af honum.  Þorsteinn Sigurlaugsson, einn þekktasti ESB sinni hér á landi sat þar í stafni.  Hvað gangi "Sjálfstæðis"mönnum til að leyfa slíkan fjáraustur í nefnd sem allir máttu vita að skilaði einhliða trúboði skil ég ekki, en finnst illa farið þar með almannafé, en það er svo sem ekkert nýtt þeir Engeyjar frændur eigi í basli með að gera greinarmun á þvi hvað er almanna og hvað er sérhagsmuna.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.6.2017 kl. 08:10

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ráðherrann skipaði nefndina og lagði henni línur um verkefni hennar.  Því verður ekki trúað að nefndin hafi ekki verið búin að ráðfæra sig við ráðherrann áður en niðurstaða hennar var kynnt opinberlega.  Það var síðan ráðherrann sjálfur sem kynnti hugmyndirnar og greinilegt var að hann var þeim algerlega sammála.

Eftir öll þau mótmæli sem riðu yfir þjóðfélagið eftir kynninguna og strax og forsætisráðherra hafði lýst andstöðu sinni við ruglið, bakkaði Benedikt umsvifalaust og sagði að vegna undirtektanna ætlaði hann að setja hugmyndina "á ís".

Hvort sá ís bráðnar svo áður en Benedikt hrökklast úr embætti á eftir að koma í ljós.

Axel Jóhann Axelsson, 24.6.2017 kl. 11:09

15 identicon

Hárrétt athugað Axel

"Ráðherrann skipaði nefndina og lagði henni línur um verkefni hennar.  Því verður ekki trúað að nefndin hafi ekki verið búin að ráðfæra sig við ráðherrann áður en niðurstaða hennar var kynnt opinberlega.  Það var síðan ráðherrann sjálfur sem kynnti hugmyndirnar og greinilegt var að hann var þeim algerlega sammála."

Enn spyr ég því hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli að fórna sér fyrir völdin með Viðreisn og Proppé?

Fylgið hrynur, það gildir jafnt um alla flokkana þrjá og mun svo verða áfram, því viðlíka "gönuhlaup" munu endurtaka sig.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.6.2017 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband