Þarf ekki þak á Píratahúmorinn?

Birgitta Jónsdóttir, Píratasjóliðsforingi, segist ætla að flytja tillögu á Alþingi í haust um að sett verði þak á öll lán, þ.e. hve mikið þau megi hækka á lánstímanum vegna verðbóta og vaxta, en er þó ekki búin að "hanna" þakhæðina endanlega og segist ætla að setja sérfræðinga í málið til þess að koma einhverju viti í tillöguna.

Pírataforinginn hefði átt að tala við sérfræðingana áður en hún varpaði fram þessari undarlegu tillögu, því þeir hefðu kannski getað velt upp við hana þeirri spurningu hvort hún ætlaði þá líka að flytja frumvarp til laga um hámarkshækkun þeirra eigna sem veðsettar eru fyrir "þaklánunum", því í verðbólgu hafa t.d. fasteignir tilhneigingu til þess að hækka álíka mikið og lánin sem á þeim hvíla.

Á líftíma langtímalána hafa stéttarfélög margsinnis krafist og náð fram launahækkunum fyrir hönd sinna félagsmanna og þegar til langs tíma hefur verið litið hafa launin jafnvel hækkað meira hlutfallslega en verðtryggðu lánin sem launþegarnir hafa verið að greiða niður.

Sérfræðingum Pírataleiðtogans hefði jafnvel getað dottið í hug að koma því á framfæri að líklega væri einfaldara að bera fram frumvarp til laga um afnám verðtryggingar lána og heimila einungis óverðtryggð lán eftirleiðis, en óvíst er að "þak" á slík lán stæðist eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar eða alþjóðlega mannréttindasáttmála.  Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að sérfræðingarnir myndu benda á að frelsi varðandi fjármagnsflutninga milli landa gæti þvælst talsvert fyrir slíkri lagasetningu.

Jafnvel er líklegt að sérfræðingar Pírataflokksforingjans hefðu bent á þá staðreynd að langbest væri að beita sér fyrir því að framvegis myndu þingmenn, ráðherrar og aðrir sem að máli koma, berjast gegn verðbólgunni með öllum ráðum og koma á meiri stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar en verið hefur lengstum frá lýðveldisstofnun.

Ynnist baráttan við verðbólguna þyrfti ekki að eyða tíma í allskonar óraunhæfar þakbyggingar.

 

 


mbl.is Vill þak á hækkun lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Kjartansson

Píratar voru ekkert að finna þetta upp, frumvarp um þak á verðtryggingu var áður lagt fram af eftirtöldum þigmönnum.

Eygló Harðardóttir,

Ásmundur Einar Daðason,

Birkir Jón Jónsson, 

Gunnar Bragi Sveinsson,

Höskuldur Þórhallsson,

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,

Sigurður Ingi Jóhannsson,

Siv Friðleifsdóttir,

Vigdís Hauksdóttir.

Kanski þau séu með sama húmorinn.

Sigurður Ingi Kjartansson, 25.8.2015 kl. 16:28

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Var þá tillögunni rænt, að sjóræningjasið, frá Framsóknarþingmönnum?  Ekki batnar hún við það.  Þar að auki talar Píratakafteinninn einnig um vaxtaþak á óverðtryggð lán, en segist bara ekki hafa hugmynd um hvernig eigi að fara að þessu og ætlar að láta "sérfræðinga" um að útfæra það.

Eftir sem áður þarf að taka öll þau álitamál til umræðu sem nefnd voru í upphaflega pistlinum og þá dugar ekki að benda á eitthvað sem einstaka Framsóknarmenn hafa sagt um málin.  Álit sérfræðinga væri meira virði, a.m.k. málefnaleg umræða án upphrópana og skítkasts, sem því miður einkennir allt of mikið umræður á samfélagsmiðlunum, svokölluðu.

Axel Jóhann Axelsson, 26.8.2015 kl. 11:04

3 identicon

Um leið og komið er fyrirfram skilgreint þak á hvað lán mega hækka vegna vísitölu, er um leið hægt að áætla og reikna áhættuaukninguna fyrir þann sem lánar og hann tekið tillit til þess þegar hann ákveður á hvaða vöxtum hann til tilbúinn að lána (það á við hvort sem lánsalinn er lifeyrissjóður, banki eða einstaklingur).

Sem leiðir væntanlega til hærri vaxta.

ls (IP-tala skráð) 27.8.2015 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband