29.6.2015 | 20:02
Skuldir fylgja tekjum skuldarans
Fjármálaráðherra lagði í dag fram skýrslu um framkvæmd lækkunar höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána, sem framkvæmd var samkvæmt stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.
Skuldaleiðréttingin var hlutfallsleg miðað við húsnæðisskuldir og komu tekjur og eignir skuldarans á engan hátt inn í þá útreikninga.
Þrátt fyrir það virðist úttekt fjármálaráðuneytisins skipta skuldurunum niður í tekjuhópa, enda slá fréttamiðlar því upp eins og einhverju aðalatriði að eignamikið fólk hafi fengið skuldalækkun eins og aðrir skuldarar. Tekjurnar komu málinu alls ekkert við og þó segja megi að tekjuháa fólkið hefði haft efni á því að sleppa því að taka við þessari c.a. einu og hálfu milljón í skuldalækkun, þá hefur þetta fólk margt hvert einmitt orðið ríkt á því að passa vel upp á að fá allt sem það hefur átt rétt á og sumir jafnvel krækt í eitthvað umfram það.
Burtséð frá því er orðalagið á skýrslunni sem greinilega er samin af grónum og gegnum embættismönnum ráðuneytisins stórfyndin vegna orðskrúðs og málalenginga sem engu bæta við fyrir lesandann öðru en því að vera lengur að kemba í gegn um torfið. Eftirfarandi málsgrein er gott dæmi um þetta:
Tvær meginskýringar eru á mismun á upphæð lækkunar höfuðstóls eftir þjóðfélagshópum, fjölskyldustærð, búsetu, aldri og tekjum. Annars vegar er íbúðaskuld mismunandi eftir þessum þáttum, hinir tekjuhærri skulda að jafnaði meira en fjölskyldur með lægri tekjur, hinir eldri minna en þeir sem yngri eru, stórar fjölskyldur skulda meira en hinar minni og íbúar landsbyggðarinnar skulda lægri upphæðir en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu vegna lægra íbúðaverðs. Hins vegar er lækkun höfuðstóls mismunandi eftir því hvaða fyrri úrræði íbúðareigendur höfðu nýtt sér. Að þessu slepptu er eðli höfuðstólslækkunarinnar það að sama upphæð skuldar fékk sömu lækkun höfuðstóls.
Af allri þessari langloku segir síðasta setningin það sem segja þarf og allt hitt málskrúðið algerlega óþarft.
Tekjuhæstu fengu 1,5 milljarðs lækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stjórnmálamenn eru snillingar í því að ger einfalda hluti flókna.
ingibjartur G. Þórjónsson (IP-tala skráð) 29.6.2015 kl. 23:19
Þessi leiðrétting gufar upp í skítalykt í komandi verðbólgubáli af því að stjórnarflokkarnir og þá sérstaklega Framsókn hafa ekki staðið við kosningaloforðið að afnema verðtrygginguna á lánum landsmanna.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 29.6.2015 kl. 23:35
Sæll Axel,
Hef ekki fylgst mikið með þessu dæmi, en ef fólk á milljarð í eign þá þarf það ekki á skuldaleiðréttingu að halda. Sama ef það skuldar 10 milljónir og er með 100 milljónir í tekjur, þá þarf það ekki skuldaleiðréttingu. Hef grun um að hér hafi fjármagn runnið til fólks sem hafði lítið með það að gera, meðan aðrir sem minna mega sín missa húsnæði ofan af sér. Það er nú einhvern veginn þannig að fjármagn, sem er útdeilt af stjórnmálamönnum leitar aftur í heimahagana.
Kveðja
Arnór Baldvinsson, 30.6.2015 kl. 17:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.