Hundur sem þolir ekki Útsvar í sjónvarpinu

Síðast liðinn vetur var spurningaþátturinn Útsvar vikulega á dagskrá sjónvarpsins og þar áttust fulltrúar sveitarfélaganna í landinu við og lauk vetrinum með sigri liðs Reykjavíkur.  Þetta er auðvitað alkunnugt, enda höfðu landsmenn gaman af keppninni og áhorf á þættina var mikið, gott ef þetta var ekki eitt vinsælasta sjónvarpsefni vetrarins.

Á heimili þess sem hér bloggar er hundur, blanda af Border Collie og einhverri annarri tegund, og að sjálfsögðu er farið með hann í gönguferðir daglega og hann sinnir þörfum náttúrunnar í þeim ferðum og að sjálfsögðu er það sem hann lætur frá sér í föstu formi alltaf hirt upp eftir hann samviskusamlega.  Border Collie eru taldir skynsamastir allra hunda og er það ekki dregið í efa eftir sambúð með þessum í rúm sjö ár.

Einstaka sinnum krafðist hundurinn þess í vetur að draga bloggarann út að kvöldi til og þegar á leið uppgötvaðist að slíkt gerðist eingöngu á föstudagskvöldum og þá nánast um leið og Útsvarið byrjaði í sjónvarpinu.  Þegar betur var farið að fylgjast með þessu, kom í ljós að það brást aldrei að hundurinn heimtaði að fara út þegar þátturinn byrjaði, en þetta er hundur sem kann að tjá sig á ýmsan hátt og ekki hægt að misskilja neitt þegar hann heimtar að komast út.

Aldrei kom fyrir að hundurinn brygðist eins við þegar annað efni var í sjónvarpinu, hvorki íslenskir né erlendir þættir.  Í tvær vikur gistum við með hundinn norður í landi og þá gátum við sannað þessi viðbrögð hundsins með því að tilkynna húsráðendum fyrirfram hvernig hann myndi bregðast við og auðvitað gekk það allt eftir eins og sagt hafði verið.

Eftir að Útsvari lauk í vor hafði ekkert verið um að hundurinn gæfi til kynna að hann vildi komast út að kvöldi til þangað til í gærkvöldi að aukaþáttur af Útsvari/Gettu betur var sýndur.  Þá brást hundurinn hinn versti við og lét öllum illum látum, bæði með hreyfingum og hljóðum og "heimtaði" umsvifalaust að komast út.  Þar sem nýbúið var að fara með hann í gönguferð og hann þar með nýbúinn að gera stykkin sín, var algerlega útilokað að náttúran væri að kalla á slíkt.

Hvað sem veldur, er alveg öruggt að eitthvað er við Útsvar í RÚV sem fer afar illa í þennan hund:

2015-06-27 20.52.08


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Hvernig lætur hann þegar Steingrímur J. birtist á skjánum!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 28.6.2015 kl. 18:29

2 identicon

Skiljanlegt, enda hræðilega leiðinlegt sjónvarpsefni. 

Ingvar Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 28.6.2015 kl. 20:01

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég held að hann sé algerlega ópólitískur.  A.m.k. hef ég ekki náð honum í djúpar stjórnmálaumræður.

Axel Jóhann Axelsson, 28.6.2015 kl. 20:17

4 identicon

Það þarf ekki Border Collie til að fatta að húsbóndinn er alltaf til í fara í labbitúr þegar tiltekið sjónvarpsefni hefst....

ls (IP-tala skráð) 29.6.2015 kl. 09:48

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þetta snýst alls ekki um það hvenær húsbóndinn er til í að fara í labbitúr, því í þessu tilfelli vill hann gjarnan horfa en Borderinn þolir ekki viðkomandi þátt og heimtar að fara út að ganga.   Það er nú hálfgert hundalíf að vera kominn upp á vilja hunds um val á sjónvarpsefni.

Axel Jóhann Axelsson, 29.6.2015 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband