20.2.2015 | 11:57
Hluta arðsins til starfsmanna
Til allrar lukku hefur fyrirtækjum í flestum greinum gengið vel undanfarin ár, hagnaður verið verulegur og arðgreiðslur háar í samræmi við það. Allt er það gott og blessað, enda á þjóðfélagið allt undir því að atvinnulífinu gangi vel og skili góðum arði.
Framundan eru kjarasamningar fyrir stærstan hluta launþega landsins og er ekki annað að sjá en stéttarfélögin séu algerlega steingeld í kröfugerðum sínum og virðast leggja aðaláherslu á að ná fram "leiðréttingu" fyrir sína félagsmenn, sem eiga að hafa dregist aftur úr einhverri óskilgreindri "viðmiðunarstétt" síðan síðast var gengið frá kjarasamningum.
Samkvæmt slíkri kröfugerð mætti ætla að stéttarfélögin hefðu komist að einhverju innbyrðis samkomulagi fyrir löngu síðan um launamismun í þjóðfélaginu sem ekki megi riðlast á nokkurn hátt, enda snúast kjarasamningar nú orðið um lítið annað en þessar "leiðréttingar" gagnvart "viðmiðunarstéttunum".
Atvinnulífið skilar miklum hagnaði og hefur því alla burði til að greiða hærri laun en nú er gert og ástæðulaust með öllu að miða alla samninga við þau fyrirtæki sem verst standa, til að þau hangi á lífi, en hin sem betur ganga raki arði í vasa fjárfesta á sama tíma og launþegarnir þurfa að sætta sig við laun sem lélegustu fyrirtækin ráða við að greiða.
Hagnaður fyrirtækja skapast af samspili fjárfestingarinnar og vinnuaflsins í fyrirtækjunum og því ætti að sjálfsögðu að meta vinnuna til jafns við fjármagnið og taka tillit til þess við úthlutun arð þegar vel gengur.
Stéttarfélögin eiga að setja fram þá kröfu að starfsmenn fyrirtækjanna fái hlutdeild í arðgreiðslum, allt að helmingi þeirra, þ.e. að arður skiptist milli fjárfestanna og starfsmannanna og mætti ná helmingaskiptunum í áföngum á nokkrum árum.
Stéttarfélögin verða að fara að temja sér nýja hugsun og koma sér upp úr hjólförunum sem þau hafa verið að spóla í undanfarna áratugi.
Sex félög greiða 8,3 milljarða í arð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki ætti að þurfa að taka það fram að arðgreiðsuhluti starfsmannanna yrði að skiptast á milli þeirra í hlutfalli við unninn tíma á árinu sem arðurinn myndast. Alls ekki mætti reikna hann út sem hlutfall af launum, því þá myndu yfirmenn auðvitað halda niðri launum allra nema sjálra sín, en eins og ástandið er orðið nú þegar hafa topparnir í raun fáránlega há laun í mörgum tilfellum.
Axel Jóhann Axelsson, 20.2.2015 kl. 17:36
Ef thad vaeri svona audvelt ad semja um hlutdeild launthega í hagnadi fyrirtaekja, sem mér finnst alls ekki galin hugmynd, hljóta starfsmenn thá líka ad taka thátt í tapinu, thegar thannig árar. Annad vaeri varla sanngjarnt, eda hvad? Hvad vardar verkalýdsforystuna á Íslandi ad stórum hluta, fer sennilega best á thví ad segja sem minnst. Hún getur varla verid upp á marga fiska, úr thví launamunur eykst jafnt og thétt, eda stendur í stad í besta falli, árum og áratugum saman, undir theirra forystu. Traudla nokkurt tilefni til ad hreykja sér af eda belgja sig út í fjölmidlum, eins og sumir ónefndir forystumenn eru gjarnir á ad gera, rétt ádur en kemur ad samningabordinu.
Halldór Egill Guðnason, 20.2.2015 kl. 17:55
Það er aldrei nema lítill (misstór) hluti hagnaðarins sem greiddur er út sem arður. Ekki minnist ég þess að hafa nokkurn tíma heyrt að þeir sem hafa fengið útborgaðan arð frá fyrirtækjum hafi verið krafðir um endurgreiðslu hans þó tap hafi orðið einstök ár.
Tap einstök ár er ekki neinn dauðadómur yfir góðum fyrirtækjum með trausta eiginfjárstöðu.
Axel Jóhann Axelsson, 20.2.2015 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.