Siglufjörður verður í forystu ferðamannabæja

Mikil uppbygging ferðaþjónustu hefur verið á Siglufirði undanfarin ár og er henni alls ekki lokið, en þegar allt verður orðið eins og fyrirhugað er verður kaupstaðurinn án nokkurs vafa einn eftirsóttasti ferðamannabær landsins.

Unnið er við nýjan og glæsilegan golfvöll, stækkun skíðasvæðisins er fyrirrhuguð og hafin er bygging nýs hótels í hjarta bæjarins gegnt glæsilegum veitingastöðum sem opnaðir hafa verið í endurnýjuðum fiskvinnsluhúsum við höfnina.

Sá, sem á heiðurinn af þessari uppbyggingu allri, er framkvæmdamaðurinn og fjárfestirinn Róbert Guðfinnsson sem með þessum framkvæmdum er að breyta svip fæðingarbæjar síns úr því að hafa áður fyrr verið einn fremsti fiskvinnslubær landsins í að verða glæsilegasti ferðamannabær landsins.

Við þetta er síðan að bætast bygging Orra Vigfússonar og Chad R. Pike á glæsihóteli í Fljótum og þyrluþjónusta við skíðafólk, sem kýs að skíða á óhefðbundnum skíðasvæðum og verður sú lúxusferðamennska til að ýta enn undir að Tröllaskaginn og Siglufjörður munu laða til sín ferðafólk úr allri tegund ferðaþjónustunnar í nánustu framtíð og raunar til  langrar framtíðar.

Ef til vill verða þetta glæsilega framtak öðrum fjársterkum aðilum til fyrirmyndar við uppbyggingu í heimabæjum sínum hringinn í kringum landið.  Þangað til a.m.k. verður Siglufjörður fremstur ferðamannastaða landsins. 

 


mbl.is Yfirmaður hjá Blackstone leggur til fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir það sem Axel Jóhann segir hér að ofan. Framtak Siglfirðinga og sér í lagi Róberts Guðfinnssonar er til hreinnar fyrirmyndar. Það var augljóst þeim sem það vildu sjá og vita að þegar Héðinsfjarðargöng opnuðust fyrir umferð, stórykist umferð til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Siglfirðingar voru viðbúnir og mikið af framanskráðum framkvæmdum voru tilbúnar þegar bylgjan reis. Fljótin eru svo bakland Siglufjarðar og verði af framkvæmdum Orra Vigfússonar, sem er vel að merkja Siglfirðingur líka það best ég veit, verður það lóð á þessa vogarskál, en þar þyrfti þó reyndar að bæta samgöngur milli Fljótanna og Ólafsfjarðar (nú eða Siglufjarðar sbr. tillögur ferðaþjónustubóndans Trausta Sveinssonar) svo það nýttist sem best. Þarna til viðbótar má svo nefna merkilegt framtak hjónanna á Vatni skammt frá Hofsósi, Guðrúnar Þorvaldsdóttur og Valgeirs Þorvaldssonar, sem hafa veitt forystu uppbyggingar á Hofsósi þar sem Vesturfarasafnið er miðpunktur. Þetta skapar ákjósanlega hringleið samfelldra viðkomustaða ferðafólks, þ.e. til eða frá Akureyri, um Dalvík og Svarfaðardal, Ólafsfjörð, Siglufjörð, Fljótin, Hofsós og Hóla. Þetta gæti orðið ekki síðri "Golden Circle" en sá fyrir sunnan og mikilvægur þáttur í að dreifa álagi á vinsæla ferðamannastaði.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 08:27

2 identicon

Gleymdi að geta um merkilegt framtak Sigurðar Hansen og félaga sem tengist Sturlungu í Akrahreppi. Það tengist þessum hring, sem hér er nefndur.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 08:29

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Einhvern tíma í framtíðinni munu verða gerð jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta. Sjálfsagt mun nú líða nokkuð langur tími þangað til, en er ekki líklegt að hlíðin munu fyrr eða síðar renna í sjó fram þar sem "jarðsigið" er núna og þá verður ekki hjá því komist lengur að gera slík göng?

Axel Jóhann Axelsson, 5.9.2013 kl. 09:27

4 Smámynd: Ellert Júlíusson

Ekki gleyma bílasafninu.

Skoðaði það í fyrra á sama tíma og vesturfarasafnið og fannst það mjög merkilegt.

Ellert Júlíusson, 5.9.2013 kl. 09:34

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Alveg rétt, Ellert, ekki má gleyma öllum söfnunum á svæðinu og þá ber t.d. að nefna Síldarminjasafnið á Siglufirði, Þjóðlagasetrið og Ljóðasetrið svo einhver séu nefnd, en allt eru þetta stórmerkileg söfn.

Axel Jóhann Axelsson, 5.9.2013 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband