24.11.2012 | 08:37
Prófkjör eru hið eina og sanna persónukjör
Prófkjör stjórnmálaflokkanna, sem reyndar heita ýmsum nöfnum eftir flokkum, er rétt leið til að uppfylla síauknar kröfur um persónukjör því í þeim gefst almenningi kostur á að velja frambjóðendur og þar með þá sem líklegastir verða til að komast á þing eða í sveitastjórnir við næstu kosningar.
Undanfarið hefur mikið verið rætt um persónukjör og því vekur það undrun að ekki skuli hafa verið meiri áhugi en raun ber vitni í þeim prófkjörum flokkanna sem þegar hafa farið fram. Vekur það upp þá spurningu hvort áhuginn á persónukjöri sé minni en af er látið og mest heyrist í þeim sem lítinn eða engan áhuga hafa á stjórnmálum, en telja sig eftir sem áður þurfa og eiga að ráða uppröðun á lista allra flokka og framboða sem í boði eru hverju sinni.
Eðlilegast er að stuðningsfólk hvers lista velji sér frambjóðendur sem þeir eru svo tilbúnir til að berjast fyrir þegar að kosningum kemur og láti vera að skipta sér af uppröðun annarra flokka og framboða, enda óeðlilegt að Vinstri grænir raði á lista Samfylkingar, Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokks, eða yfirleitt að andstæðingar stjórnmálahreyfinga skipti sér af framboðum þeirra sem þeir munu svo berjast gegn síðar.
Vonandi mun stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fjölmenna í prófkjör dagsins og stilla upp sterkum og öflugum lista fyrir þingkosningarnar í vor. Í raun er nánast sama hvernig á listann mun raðast, þar sem úrvalsfólk er í framboði og listinn mun verða feykisterkur, nánast sama í hvaða röð frambjóðendurnir raðast á hann.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stöðugri sókn undanfarin misseri og því áríðandi að stuðningsfólkið sýni baráttuhug sinn í verki með því að fjölmenna í prófkjörin.
Prófkjör, forval og uppstilling | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er ekki áhugaleysið á prófkjörum bein afleiðing af því að flokkarnir hafa tilhneygingu til að "leiðrétta" niðurstöðuna ef hún þykir ekki skila nógu "sterkum" lista?
Gulli (IP-tala skráð) 24.11.2012 kl. 09:42
Vonandi áttar fólk sig á því að skifta út fólki á framboðslistum sem hefur ekki hreint mjöl í pokahorninu.
Það er eini möguleikinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að komast nokkurn veginn heill frá fyrri glappaskotum. Annars held ég nú að Hægri Grænir komi nú að plokka dálítið frá Sjöllunum, í hinum raunverlegu kosningum á næsta ári. þetta er nú mín skoðun.
jóhanna (IP-tala skráð) 24.11.2012 kl. 12:48
Ég er ósammála þér.Frambjóðendur eru alltaf tengdir við flokkana.Persónukjör til alþingis er í mínum skilningi það þegar einstaklingur bíður sig fram á eigin vegum óháður og óstuddur af flokki.Eins og framboðsmálum í dag er háttað er það ekki hægt nema fara bakdyramegin.Stofna samtök sem stuðla að einstaklingsframboðum sem auglýsir eftir frambjóðendum í prófkjör.Sá sem fær flest atkvæði fær fyrsta sæti.næstflest annað sæti og svo framvegis.Þessi listi er síðan borinn fram í kosningunum,en frambjóðendur eru óháðir hver öðrum og framboðsmaskínunni.
josef asmundsson (IP-tala skráð) 24.11.2012 kl. 16:41
Josef, hvernig heldur þú að muni ganga að mynda starfhæfan meirihluta á Alþingi og ríkisstjórn í þessu draumaríki þínu?
Axel Jóhann Axelsson, 24.11.2012 kl. 20:23
En af hverju að vera að burðast með þessi prófkjör. Stilla bara upp óröðuðum framboðslista og þú raðar í kjörklefanum, þá hafa flokkarnir ekki möguleika á að "lagfæra" neitt. Kjósandinn ræður. Er það ekki eina sanna lýðræðið, við þessa skipan er einnig hægt að bjóða fram ópólitískan lista.
larus (IP-tala skráð) 24.11.2012 kl. 21:57
Það er mjög einfalt Axel.Ráðherrar yrðu bara ráðnir af fulltrúum þjóðarinnar.Gerðar yrðu ákveðnar hæfniskröfur til umsækjenda um stöðuna hvað varðar menntun og reynslu í sambærilegum störfum.Meirihluti á alþingi er óþarfur.Einstaklingarnir sem kosnir eru til alþingis eiga að vera með sjálfstæðar skoðanir í öllum málum.þú veist það að það er í raun bannað samkvæmt stjórnarskrá að láta aðra þingmenn eða kjósendur hafa áhrif á starfið heldur eiga menn að láta eigin sannfæringu ráða.Allir nýir þingmenn skrifa undir yfirlysingu þar sem þeir lofa að halda þessu í heiðri.Flestir svíkja það vegna þrystings frá flokknum.Þetta er ekkert draumaríki Axel.Ég geri mér fulla grein fyrir einstaklingsframboðin yrðu ekki 63.En það er sama hvort um 1 eða 10 til 15 þingmenn yrðu að ræða myndi þetta ganga .Það er ekkert sem segir það að þeir geti ekki sameinast um það að mynda meirihluta með flokkum,fengju ákveðnar ráðherrastöður og myndu síðan bara ráða í þær stöður.Þú heyrir það að ég legg áherslu á að ráða fagfólk í stjórnunarstöðurnar enda skil ég það ekki að í öllum störfum í þjóðfélaginu er krafist ákveðnar þekkingar en ekki þegar kemur að því að stjórna landinu.Það gengur ekki að flugfreyjur eða Jarðfræðingar stjórni landinu.Það fólk á að sjálfsögðu bara að vera í þeim störfum sem það hefur hæfi til.Ég tel að þingmenn eigi aðeins að sjá um lagasetningar og ráða stjórnendur ríkisins.Ekkert annað.Og fólk á að fá að ráða því hvort það kýs einstaklinga eða flokka til alþingis.Um það snýst kosningarétturinn.
josef asmundsson (IP-tala skráð) 24.11.2012 kl. 22:00
Ég er sammála því að skerpa þurfi skilin á milli framkvæmda- og löggjafavalds. Það yrði líklega best gert með því að meirihluti þingsins skipaði ráðherrana utan sinna raða og þeir hefðu ekki setu- eða atkvæðarétt á þinginu, sem myndi þá alfarið sjá um lagasetninguna að eigin frumkvæði.
Hitt eru draumórar, sérstaklega ef draumurinn snýst um að fólk kjósi einstaklinga af listum pólitískra andstæðinga sinna. Til hvers væri það hugsað eiginlega? Að gefa fólki kost á að velja þá af listum andstæðinganna sem minnstur bógur væri í, eða hvað?
Axel Jóhann Axelsson, 24.11.2012 kl. 23:05
J gott við erum sammála um fyrra atriðið.En varðandi draumórana:1.það á að vera réttur fólks að geta kosið fólk en ekki flokka.2. "ef draumurinn snýst um að fólk kjósi einstaklinga af listum pólitískra andstæðinga sinna".Kannski ekki.Fólk sem nú er á listum pólitiskra flokka verður að sjálfsögðu kosið af sínum kjósendum síns flokks.En Munurinn er náttúrulega sá að þeir sem bjóða sig fram sem einstakling á eigin vegum fer eftir sinni eigin sannfæringu þegar á alþingi er komið.3."Að gefa fólki kost á að velja þá af listum andstæðinganna sem minnstur bógur væri í, eða hvað?"Auðvitað á að gefa fólki kost á að kjósa það sem það vill.Ertu á móti því?Mér finnst nú reyndar ekki alltaf mestu bógarnir sem raðast í efstu sætin hjá flokkunum.Oftast mestu kjaftaskarnir.En það er líka til fólk úti í þjóðfélaginu sem vill gjarna bjóða sig fram til þingsetu án þess að vera hápólitiskt.Þetta þurfa ekki endilega að vera einhverjir fyrrverandi minnipokar flokkanna.Fyrir mitt leiti vil ég kjósa einstakling óbundinn við flokk(einstakling sem ég treysti til góðra verka og er hæfur) en ekki pólitískan flokk .Á ég og aðrir ópólitiskir ekki að hafa rétt á því sem notendur kosningaréttar.Eða eigum við bara að sitja heima og gleyma þessum"DRAUMÓRUM"
josef asmundsson (IP-tala skráð) 24.11.2012 kl. 23:54
Það er alltaf gott að dreyma, sérstaklega ef draumarnir eru fallegir. Þeir rætast bara sjaldnast.
Axel Jóhann Axelsson, 25.11.2012 kl. 01:43
Af hverju ekki að taka upp það kosningafyrirkomulag sem er nú í sveitarstjórnar og fylkisþingskosningum í Noregi. Þar eru óraðaðir listar en flokkarnir mega tilnefna 2 frambjóðendur sem þeir "mæla með". Ath, það er misjafnt eftir kommúnum hversu marga frambjóðendur kjósandi má velja, það fer eftir stærð (fjölda) sveitarstjórnarmanna. Þetta kerfi gerir það að verkum að frambjóðendurnir verða að vinna vinnuna sína en geta ekki fengið örugg sæti frá flokksforystunni eða flokkseigendum.
Norðmenn eru ánægðir með þetta, kerfið er ótrúlega einfalt (þó að það hljómi ekki þannig :) og eftir 5 eða 9 ár á að nota þetta líka í Stórþingskosningum þar.
larus (IP-tala skráð) 25.11.2012 kl. 06:51
Sjálfum finnst mér þetta ansi notalegar draumfarir,og aldrei að vita nema ég freisti þess að gera alvöru úr draumnum.En þakka þér fyrir samtalið og gangi þér og þínum mönnum sem best í rimmunni sem framundan er.Kveðja.
josef asmundsson (IP-tala skráð) 25.11.2012 kl. 15:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.