Eir sólundar eyri ekkjunnar

Í Biblíunni er sagan um eyri ekkjunnar, þ.e. að sá eyrir er ekkjan gaf í fjárhirsluna hafi verið miklu meira virði en há framlög auðmannanna, því þeir gáfu aðeins lítinn hlut af eigum sínum en ekkjan aleiguna, alla björg sína.

Húsrekstrarsjóður Eirar hefur í mörgum tilfellum tekið við "eyri ekkjunnar", þ.e. aleigu ýmissa eldri borgara, gegn loforði um ævilanga búsetu í þjónustuíbúðum og endurgreiðslu "eyrisins" þegar viðkomandi nýtti ekki íbúðina lengur.

Nú er komið í ljós að húsrekstrarsjóðurinn er nánast á hausnum og hefur verið um tíma, en haldið eftir sem áður áfram að taka við "eyri ekkjunnar" vitandi að ekki yrði hægt að standa við endurgreiðsluna, ef og þegar til ætti að taka.

Stjórn húsrekstrarsjóðsins hlýtur að segja af sér umsvifalaust og rannsaka verður hvort lögbrot hafi verið framin á því fólki sem í góðri trú afhenti þessu fólki umsjón "eyris ekkjunnar", sem í mörgum tilfellum var aleiga þessa fólks, öll björg þess.

Vonandi tekst að bjarga þessum húsrekstrarsjóði frá gjaldþroti, en þó svo fari er gjörð ráðamanna félagsins söm og hlýtur að kalla á rannsókn málsins alls.


mbl.is Áritun í umboði Ríkisendurskoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Hvað varð um "gamla góða Villa"

Sigurður I B Guðmundsson, 7.11.2012 kl. 21:44

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

"Gamli góði Villi" hefur alltaf verið öðlingsmaður og hvers manns hugljúfi, en hafi honum orðið eitthvað á verður hann að standa fyrir máli sínu eins og aðrir.

Axel Jóhann Axelsson, 7.11.2012 kl. 22:04

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Er ,,gamli góði Villi" bara ekki of góður í sér  til að standa í einhverskonar rekstri?

Þórir Kjartansson, 8.11.2012 kl. 07:56

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Axel. Ekki skil ég samhengið á milli Eirar og ekkna. Það væri nauðsynlegra að athuga frekar lífeyrissjóðina í sambandi við sviknar ekkjur og ekkla.

Ég veit um einhleypan mann sem sagðist hafa verið svikinn af Eir. Það er sorgleg staðreynd. Og sárt að hugsa til þess að einstaklingar, einhleypir jafnt sem sambúðarfólk og giftir, hafi verið og eru jafnvel enn sviknir af þessari stofnun.

Aðalatriðið er að komast til botns í svikum af öllu tagi, sem hafa átt sér stað frá upphafi, gagnvart einstaklingum sem hafa búið á Eir. Það er ó-afsakanlegt að slík rannsókn fari ekki fram. Hvað þarf að fela? Hvað er að óttast? Það þarf að rannsaka reksturinn, en ekki dæma einstaklinga út frá ó-rannsökuðum og ó-sönnuðum sögusögnum.

Nornaveiðar miðalda er ekki ásættanleg réttar-ríkis-aðferð á 21 öldinni, í hinum svokallaða "siðmenntaða" heimi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.11.2012 kl. 13:07

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Anna, með "eyri ekkjunnar" er verið að vitna í dæmisögu úr biblíunni, þannig að samhengið milli eyrisins og Eirar er aðeins samlíking vegna aleigu þeirra sem eiga í hlut, hvort sem um ekkjur, ekkla, eða sambúðarfólk er að ræða.

Nornaveiðar eru auðvitað aldrei réttlætanlegar og allir eru saklausir þangað til sök er sönnuð. Í þessu tilfelli þarf að rannsaka málið til hlítar og hreinsa nafn stjórnarinnar, eða láta hana sæta ábyrgð hafi gerðir hennar verið andstæðar lögum í einhverju tilliti.

Axel Jóhann Axelsson, 8.11.2012 kl. 18:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband