Hver gaf Höskuldi 1. sætið?

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er æfur yfir því að formaður flokksins skuli ætla að gefa kost á sér í 1. sæti listans í Norðausturkjördæmi, eða eins og segir í fréttinni: "Höskuldur hefur lýst því yfir að ekki komi til greina að gefa fyrsta sætið eftir til Sigmundar Davíðs."

Það er alveg furðulegt að nokkur maður skuli telja sig eiga ákveðin sæti á listum stjórnmálaflokkanna, því það eru stuðningsmenn flokkanna sem ákveða hverjir skipi hvaða sæti. Þannig virkar lýðræðið og ekkert er eðlilegra en að tekist sé á um sæti á listum, fari sú barátta fram á heiðarlegum og málefnalegum grunni.

Enn furðulegra við viðbrögð Höskuldar er að hann var alls ekki í fyrsta sæti á lista flokks síns í þessu kjördæmi eftir prófkjör fyrir þingkosningarnar árið 2009, heldur fékk hann aðeins um 350 atkvæði í það sæti, en Birkir Jón Jónsson fékk vel á sjöttaþúsund atkvæða í fyrsta sætið. 

Viðbrögð Höskuldar vekja þá spurningu á hvaða forsendum hann telur sig eiga fyrsta sætið og telji sig geta gefið út þá yfirlýsingu að hann ætli ekki að gefa það eftir til formannsins.

Nú, þegar Birkir Jón hefur gefið út tilkynningu um að hann ætli að hætta þátttöku í stjórnmálum í bili, verður Höskuldur að svara því hvernig stendur á því að hann telur sig sjálfskipaðan eftimann hans í fyrsta sætið.

Telur Höskuldur að lýðræði eigi ekki við þegar kemur að uppstillingu listans fyrir komandi kosningar.

 


mbl.is Hafa ekki rætt saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

það er frekar að sigmundur segist eiga heimtingu á 1.sæti vegna þess að hann er formaður

Sleggjan og Hvellurinn, 30.9.2012 kl. 14:59

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég man ekki betur en að Sigmundur segðist ætla að GEFA KOST á sér í fyrsta sætið og við það hafi Höskuldur orðið æfur og lýst því yfir að hann ætlaði ekki að GEFA SÆTIÐ eftir.

Hvaðan fékk Höskuldur einkarétt á því sæti? Er ekki ennþá möguleiki á því að fleiri en bara hann og Sigmundur vilji gefa kost á sér í þetta sæti listans?

Axel Jóhann Axelsson, 30.9.2012 kl. 16:17

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Höskuldi er fullkomlega leyfilegt að gefa kost á sér í 1. sætið á sínum heimaslóðum.

Það er hinsvegar eitthvað undarlegt við skyndiákvörðun Sigmundar Davíðs, að krefjast einkaréttar á að bjóða sig fram í 1. sætið þarna fyrir norðan.

Mér fannst líka undarlegt að heyra Sigmund Davíð segja, að þetta hefði alltaf staðið til? Er einhver sem getur útskýrt þessi orð hans?

Hverskonar svika-refskák er eiginlega í gangi?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.9.2012 kl. 16:22

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hvað er athugavert við það að fleiri en Höskuldur bjóði sig fram í þetta ákveðna sæti? Er það ekki kjósenda flokksins í kjördæminu að ákveða uppstillinguna? Hvar er lýðræðisástin hjá þeim sem finnst sjálfsagt og eðlilegt að einhver þykist eiga einkarétt á ákveðnum sætum framboðslista?

Axel Jóhann Axelsson, 30.9.2012 kl. 16:32

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Axel. Það á enginn einkarétt á að bjóða sig fram í nokkrum landshluta. Þess vegna vil ég að landið verði eitt kjördæmi.

En getur þú útskýrt fyrir mér, hvers vegna Sigmundur Davíð sagði að þetta hefði alltaf staðið til?

Hvers vegna vissi Höskuldur ekki um þessa áætlun? Var bara verið að nota Höskuld tímabundið? Og á svo að henda Höskuldi út, eins og misnotaðri tusku? Eru þetta talin eðlileg og siðmenntuð vinnubrögð hjá framkvæmdarstjórn Framsóknarflokksins?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.9.2012 kl. 17:08

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ég hef ekki hugmynd um eitt eða neitt sem gerist innan Framsóknarflokksins. Hitt veit ég að Höskuldur var ekki í fyrsta sæti listans í síðustu kosningum og sé því ekki hvers vegna hann telur sig rétthærri til að skipa það sæti fram yfir aðra.

Auðvitað er það í valdi stuðningsmanna flokksins að ákveða listann og við það hlýtur Höskuldur að þurfa að sætta sig eins og aðrir frambjóðendur.

Axel Jóhann Axelsson, 30.9.2012 kl. 18:37

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Axel. Hvað finnst þér persónulega um hvernig Sigmundur Davíð hefur hagað sér í þessu lista-kjördæmaflakks-máli, og á bak við flokksmenn að því er virðist?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.9.2012 kl. 22:25

8 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Er ekki Sigmundur bara hræddur um fylgistap flokksins, og vill því vera efstur í nærri öruggu kjördæmi? Eru þessir pólitíkusar ekki bara þannig að þeir troða hver á öðrum, til að ná inn á þing.

Annars hélt ég einhvernveginn að formaður Framsóknarflokksins myndi bjóða sig aftur fram í Reykjavík, þó ekki væri nema til að sýna að einhverskonar ótta- og æðruleysi væri ríkjandi hjá þessum flokki, sem er þó vonandi að hverfa, öllum til heilla.

Bergljót Gunnarsdóttir, 30.9.2012 kl. 22:34

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Væntanlega er það af hræðsu við að ná ekki þingsæti í Reykjavík sem veldur því að Sigmundur vill færa sig á milli kjördæma. Þó mér sé alveg sama hvar hann, eða aðrir Framsóknarmenn, bjóða sig fram, þá er það eftir sem áður mín skoðun að enginn EIGI þingsæti eða ákveðin sæti á framboðslistum.

Stuðningsmenn flokkanna eiga að raða á listana og þeir sem gefa kost á sér í framboð verða bara einfaldlega að sætta sig við þá röðun á lista sem út úr slíkum ákvörðunum kemur. Réttasta leiðin til að velja á lista er að halda prófkjör stuðningsfólks hvers flokks fyrir sig og við niðurstöðuna verða síðan allir að sætta sig, enda um lýðræðislega kosningu að ræða.

Axel Jóhann Axelsson, 30.9.2012 kl. 22:50

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þetta eru útúrsnúningar, Axel. Auðvitað á maðurinn við að hann ætli ekki að víkja baráttulaust fyrir Kögunarbarninu, heldur láta reyna á það hvað hann á mikinn stuðning innan flokksins til að leiða listann. Hitt er svo annað að þessi Kögun, fyrirgefið kúgun, SDG á Höskuldi er með ólíkindum, að fara í einhverja fjölmiðladeilu til að koma honum neðar á listann, eða jafnvel út af listanum, svo samkeppnin verði minni fyrir formanninn.

Sigmundur Davíð sýnir einfaldlega að hann hugsar fyrst og fremst um völdin, ekki almenning og hann metur ekki einu sinni sinn eigin flokk framar valdataumunum. Því auðvitað kemur það Framsókn mjög illa að þeir Höskuldur séu komnir í stríð í beinni útsendingu í fjölmiðlum, um hver leiðir listann í Norðurlandi eystra.

Ekki það að ég hafi neitt á móti því að Framsókn, hrunflokkurinn númer tvö á eftir Sjálfstæðisflokknum, reyti fylgið af sér sjálfum með fíflagangi frammi fyrir alþjóð.

Theódór Norðkvist, 1.10.2012 kl. 01:38

11 Smámynd: Bergljót Gunnarsdóttir

Hjartanlega sammála Axel.

Bergljót Gunnarsdóttir, 1.10.2012 kl. 01:40

12 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er hárrétt blogg hjá þér Axel, það á enginn neitt sæti í framboði. Stjórnmálamenn sækja sitt umoð til kjósenda, sama hvar í flokki þeir standa eða hversu ofarlega þeir telja sig í virðinarstiga síns flokks.

Framkoma Höskuldar í þessu máli er öll hin undarlegasta. Fyrst sagðist hann boðið sig fram í fyrsta sætið á undan Sigmundi og ætti því það sæti. Þetta minnir nokkuð á krakka í sandkassa. Það skiptir engu máli hvor býður sig fyrst fram í eitthvað sæti, væri svo geta þingmenn eða hverjir sem eru, boðið sig fram og átt það sæti. Hvar er lýðræðið?

Þegar Sigmundur Davíð bauð sig fram í sama sæti og Höskuldur, vissi hann af framboði hans. Reyndar átti þetta framboð Sigmundar ekki að koma neinum á óvart, allra síst Framsóknarfólki. Þetta hefur legið undir lengi. Kannski er Höskuldur Þórhallsson svona utan við flokk sinn að hann hafi ekki heyrt þessar vangaveltur, sem staðið hafa um nokkurn tíma, en frekari skýring er þó að hann hafi einmitt vitað um þær og því boðið sig fram í fyrsta sætið áður en Birkir Jón gaf út að hann myndi ekki gefa kost á sér.

Það vekur svo aftur upp aðra spurningu um heilindi Höskuldar, að hann hafi í raun boðið sig fram gegn sitjandi manni í fyrsta sæti listans í NA kjördæmi. Þar kastar Höskuldur í raun stríðshanska gegn þeim er skipar fyrsta sætið. Honum var það auðvitað fullkomlega heimilt, en í ljósi þess er framkoma hans gagnvart því að Sigmundur óski eftir þessu sæti eins og hann, undarleg. Framboð Sigmundar kom þó ekki fram fyrr en eftir að Birkir Jón hafði sagt sig frá því.

Heiðarlegasta leiðin er auðvitað að kosið skuli um hvor þeirra skipi fyrsta sæti listans. Sigmundur virðist ganga til slíkrar kosningar óhræddur, en eitthvað óttast Höskuldur lýðræðið.

Gunnar Heiðarsson, 1.10.2012 kl. 08:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband