Alltaf versnar ástandið á stjórnarheimilinu

Í langan tíma hafa logað illdeilur innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra, enda svo komið að stuðningur við stjórnina og flokkana sem hana skipa hefur fallið meira en hitastigið í frosthörkunum að undanförnu og styttist í að fylgið nái alkuli.

Síðustu daga hefur þó keyrt um þverbak, en a.m.k. tveir þingmenn VG krefjast þess að Ögmundur Jónasson verði rekinn úr ráðherraembætti og ekki annað að sjá en að nánast allir þingmenn flokksins séu með kutana í baki hvers annars.

Ungliðar Samfylkingarinnar hafa sent frá sér harðorða gagnrýni á nokkra félaga sína á þingi, þar með talin þau Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, og saka þau um dómgreindarskort og svik við jafnaðarstefnuna, sem ungliðarnir virðast telja að eigi að snúast um pólitískt ofstæki og hefnd á andstæðingum flokksins í stjórnmálum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, safnar undirskriftum meðal þingmanna í þeim tilgangi að ná að hrekja Ástu Ragnheiði úr forsetastólnum og aðrir þingmenn þess flokks hafa heldur ekki sparað gífuryrðin að undanförnu um þá sem varðveita vilja lýðræði og málfrelsi á Alþingi.

Jóhanna og Steingrímur J. hafa verið að vonast eftir stuðningi Hreyfingarinnar við að framlengja líf ríkisstjórnarinnar um nokkra mánuði, en takist þau hjaðningarvíg sem nú eru reynd í báðum stjórnarflokkum munu svo margir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar falla, að þrír þingmenn Hreyfingarinnar munu ekki megna að styrkja stjórnarhræið nægilega til að það komist upp af hnjánum aftur.

Kosningar hljóta óhjákvæmilega að verða í vor og í kjölfar þeirra mun þjóðin vonandi fá starfhæfa ríkisstjórn, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, sem fær verður um að leiða þjóðina út úr þeim þrengingum sem nú er við að glíma og núverandi ríkisstjórn hefur gefist upp á að glíma við.


mbl.is Lýsa vantrausti á forseta Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Manni getur ekki annað en hlýnað um hjartarætur yfir öllum klofningnum og mislyndinu, bæði á milli stjórnarflokkanna og innan þeirra. Nú fer þetta að hafast, hugsar maður! En svo hvað? Meira að segja kettir landsins eru farnir að fylgjast með í forundran, þegar ríkisstjórnin er löngu komin fram úr 9 lífunum og heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist!

Ófeigur (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 23:31

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ekki undir stjórn Sjálfstæðisflokksins minn ágæti, heldur ný öfl með nýja sýn og ekki með hrunverja á bakinu. Það er allavega mín sýn. Með fullri virðingu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 23:39

3 identicon

Sæll Axel Jóhann; sem og aðrir gestir, þínir !

Megi Almættið; forða landsmönnum frá, að yfir þá hvelfdust vellystingar og slepju drengirnir Bjarni Benediktsson, svo og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Flokka andstyggðir þeirra; þyrftu að fá 1000 ára fríið, hið minnsta.

Hins vegar; yrði það fagnaðarefni eitt, að losna við ForynjurnarJóhönnu og Steingrím; öngvu, að síður, sem allra fyrst.

Axel Jóhann síðuhafi !

Það er eins; og þú útilokir viljandi, okkar III. valkost, sem væri samstjórn : Sjómanna - Bænda - Verkamanna og Iðnaðarmanna, sem væru ómengaðir, af þeim viðbjóði, sem einkennt hefir / og einkennir, hina 4 rusl flokka, ágæti drengur.

Helzt; vil égkomast hjá, að nefna IIII. valkost, sem væri afsal Íslands, og þar með landsmanna, í góðgjarnar hendur Kanadamanna og Rússa, bæru Íslendingar ekki gæfu til, að koma vitrænu skikki, á sín mál.

Að minnsta kosti; er tómt mál að tala um, að bjóða upp á frekari búsifjar og tjón, af völdum Alþingis - og annarra draslara stofnana, Axel minn.

Munum; að kveifin og gufan, Kristján VIII. Danakonungur endurreisti Alþingi 1845 - líkt og áþekkt þing, þar heimafyrir, sökum ofurhræðslu sinnar, við Byltingaröfl þau, sem þá fóru um nágranna álfu okkar (Evrópu), í austri.

Eftirleikinn; þekkjum við öll.

Með;beztu kveðjum úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 23:50

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það þarf enginn að láta sér detta í hug að upp rísi á næstunni einn eða fleiri flokkar sem nái því að verða svo stórir að þeir geti tekið að sér stjórnarforystu í landinu. Það hafa margir flokkar verið stofnaðir á undanförnum áratugum og ekki einn einasti þeirra lifað af nema í mesta lagi tvö til þrjú kjörtímabil og enginn þeirra hefur náð því að verða annað en áhrifalitlir aukaleikarar á þingi.

Allar skoðanakannanir undanfarin misseri sýna hvert stefnir með fylgi flokkanna í næstu kosningum og það eru hreinir draumórar að láta sér detta í hug að einhverjar stórkostlegar breytingar verði á flokkaflórunni á næstunni. Meira að segja VG mun ná að koma mönnum á þing aftur þrátt fyrir frammistöðu sína í núverandi ríkisstjórn og sama má segja um Samfylkinguna.

Báðir flokkarnir munu þó verða litlir og stórlaskaðir og einhverjir nýjir smáflokkar munu sjálfsagt bætast við. Eini flokkurinn sem verður nógu burðugur til að leiða ríkisstjórn verður því Sjálfstæðisflokkurinn og nái hann ekki hreinum meirihluta skulum við a.m.k. vona að einhver annar flokkur verði nógu stór og sterkur til að verða stjórntækur í samsteypustjórn.

Axel Jóhann Axelsson, 23.1.2012 kl. 01:22

5 identicon

Er ekki akkúrat vandamálið Axel Jóhann að núna eru alltof margir aukaleikarar á þingi?

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 08:09

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Varla lagast ástandið mikið, eða að aukaleikurum muni fækka, við það að fá fulltrúa allt að tíu flokka á þingið.

Axel Jóhann Axelsson, 23.1.2012 kl. 10:11

7 identicon

Þetta verður líklega tóm kattasmölun.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 10:42

8 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Axel Jóhann !

Líkt er á komið; með þér - og vinstri manninum Hilmari Jónssyni, einum síðuhafa, hér á vef.

Öngvu Málningarfyrirtæki; né þá Olíuhreinsistöð, skal takast, að útbúa svo sterkan þynni, eða einhvers konar efnavöru, til þess að hreinsa FLOKKS litina, af ykkur, svo gagn væri að.

Flokks tignunin; minnir á ofurkapp Tóruh og Talmúd fræðarana, við Grátmúrinn í Jerúsalem - og þeirra tilbeiðslu, þar eystra.

Með fullri virðingu fyrir Gyðingunum; að sjálfsögðu.

Með; hinum sömu kveðjum - sem áður /

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 12:18

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Óskar, fólk sem hefur áhuga á stjórnmálum á annað borð hlýtur að skipa sér í flokka eftir þeirri hugmyndafræði og hugsjónum sem þeir berjast fyrir. Það hef ég gert a.m.k. og þarf ekki neina efnavöru til að þvo af mér þann stimpil, enda hreykinn af honum.

Axel Jóhann Axelsson, 23.1.2012 kl. 15:20

10 identicon

Komið þið sæl; sem jafnan !

Axel Jóhann !

Þakka þér fyrir; einarðlegt og ærlegt andsvarið.

En; svona þér að segja, vil ég halda mig, við litleysuna (transparentuna).

Þú minnir mig; á þá : Grænu - Bláu - Rauðu og Gulu, austur í Miklagarðsríki (Byzanz, Austurrómverka ríkinu), en á Paðreimnum þar, kenndu menn sig, við tiltekinn hluta litrófsins, á kappleikjum ýmsum.

Það; segi ég þér ekki, til neinnar háðungar Axel minn - heldur þvert á móti, viðurkenni ég fúslega tiltekna hluti og form, sem menn hafa tileinkað sér, gegnum aldirnar, ágæti drengur.

Með; ekki síðri kveðjum, fremur en þeim fyrri / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband