Refskák eða fjöltefli innan VG

Björn Valur Gíslason, sérstök málpípa Steingríms J., ræðst harkalega að samflokkskonu sinni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrir þá afstöðu hennar að eðlilegt sé að þingmál fái eðlilega umræðu og afgreiðslu á Alþingi, hvert sem málefnið er og hvaða þingmaður flytur það.

Í útvarpsþætti í morgun lýsti Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, því yfir að vegna sömu afstöðu ætti Ögmundur Jónasson að víkja úr ráðherrastóli og gaf í skyn að þingflokkur VG myndi reka hann úr embættinu fljótlega.

Á undanförnum mánuðum hefur kvarnast verulega úr þingmannaliði VG, en þrír hafa sagt sig úr þingflokknum nú þegar og óvíst er orðið um stuðning Jóns Bjarnasonar við ríkisstjórnina eftir að hann var hrakinn úr ráðherraembætti og Þráinn Bertelsson hefur lýst því yfir að hann muni ekki framar ábyrgjast ríkisstjórn með Össur og Ögmund innanborðs.

Björn Valur segir að Guðfríður Lilja tefli refskák, sem hann telur ekki víst að hún nái að tefla til sigurs, enda þurfi meira til en venjulega skáksnilli svo vel fari í slíku tafli.

Ekki verður annað séð en að innan VG sé verið að tefla pólitískt og persónulegt hatursfjöltefli, þar sem allir tefla við alla og enginn sé annars bróðir í þeim leik.


mbl.is Varasamt að tefla refskák
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er verulega skítlegt að  mínu mati og illa vegið að konu sem fylgir sinni sannfæringu, eitthvað annað en Björn Valur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 13:13

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er í raun stórfurðulegt að mál sem á að vera sakamál skuli þurfa að verða svona stórpólitískt. Ef virkilega á að "gera upp hrunið" af einhverju viti, umfram rannsóknir Sérstaks saksóknara, þá er hugmynd Guðfríðar Lilju um óháða "sannleiksnefnd" sem myndi fara yfir allar athafnir og athafnaleysi stjórnsýslunnar í heild sinni miklu betri en að draga einn mann fyrir Landsdóm vegna fáeinna tiltölulega "léttvægra" atriða.

Ef einhver raunverulegur vilji væri til að læra eitthvað af hruninu og gera úrbætur í samræmi við þann lærdóm, þá væri rannsókn óháðrar nefndar á stjórnsýslunni í landinu það besta sem gert væri í málinu, enda gaf Rannsóknarnefnd Alþingis í skin að stjórnsýslan í heild sinni væri hálfónýt og er þá átt við allt stjórnkerfið, allt frá Alþingi og ráðherrum til ráðuneyta, stofnana og starfsmanna þeirra.

Allt þetta þyrfti að skoða í heild sinni án alls pólitísks ofstækis og hrossakaupa.

Axel Jóhann Axelsson, 22.1.2012 kl. 14:53

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið rétt Axel.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.1.2012 kl. 16:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband