Ég dríf hagvöxtinn áfram, en herði samt sultarólina

Hagvöxtur á tímabilinu júní-ágúst á þessu ári mældist 4.8% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Skýringin á þessu kemur að stórum hluta fram í eftirfarandi: "Munar þar miklu um 5,1% vöxt einkaneyslunnar sem vegur um helming landsframleiðslunnar. Þess að auki var 1,4% vöxtur í fjárfestingu á tímabilinu sem má einkum rekja til einkaaðila enda var samdráttur í fjárfestingu hins opinbera upp á rúm 28% á tímabilinu."

Hagvöxturinn er sem sagt drifinn áfram af einkaneyslu að stórum hluta og það leiðir hugann að eigin útgjöldum á þessum umrædda ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra.  Í fyrra eyddi ég einni milljón króna í neyslu mína, þ.e. mat, fatnað, rekstur bifreiðar og húsnæðis, læknisþjónustu, skemmtanir og ýmislegt annað tilfallandi.

Vegna verðhækkana á öllum sviðum reyndi ég að halda í við mig á þessu ári og keypti því minna af öllu, sparaði í mat og drykk, keypti engin föt, keyrði minna, fór sjaldnar til lækna og dró verulega úr skemmtunum og öðrum óþarfa.  Samt eyddi ég rúmlega einni milljón og fimmtíuþúsund krónum í þessa liði og til þess að eiga fyrir þessum auka fimmtíuþúsundkalli neyddist ég til að taka út úr séreignarlífeyrissjóði, sem ég hafði reyndar vonast til að geta notað til að njóta lífsins í ellinni.

Eins og á þessu einfalda reikningsdæmi sést, var það í raun ég sem dreif áfram hagvöxtinn á þessu ári og það þrátt fyrir að geta veitt mér mun minna en á síðasta ári.

Þetta kallar Steingrímur J. stórkostlegan árangur og í raun fjármálasnilli og um leið og ég herði enn sultarólina, klóra ég mér í höfðinu yfir því hvort mér muni einnig takast að auka hagvöxtinn á næsta ársfjórðungi með því að draga enn saman seglin í neyslunni. 


mbl.is Mesti vöxtur frá byrjun árs 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Tja, þegar menn þúsundum saman hætta að  borga af skuldum þá skapast náttúrlega svigrúm fyrir neyslu, allavega í bili.

Þetta er spilaborg, stór hluti landslýðsins er vita fallít og reksturinn á ríkissjóði er hlægilegur skrípaleikur og verður áfram. 

Vitleysan hangir enn uppi að  mestu á óskiljanlegri húsnæðisbólu. Hér hefur aldrei verið neitt viðskipta/fjármálaeftirlit og mafían því fengið að leika lausum hala, með alvarlegum afleiðingum. Ég er ekki í minnsta vafa um að mafían missi allt niður um sig á þessum makaði rétt eins og í hlutabréfunum. Bara spurning um tíma.

Baldur Fjölnisson, 8.12.2011 kl. 00:11

2 identicon

Steingrímur er iðinn við kolann að segja að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Vissulega þurfa pólitíkusar að temja sér ákveðinn óheiðarleika og má þar nefna nafna hanns Hermannsson sem oft var loðinn í svörum og "mundi" ekki alltaf hvað var hvað.  En á meðan Steingrímur Hermannsson nýtti sína pólitísku "hæfni" til að möndla þjóðarsáttinga þá virðist Steingrímur J. blekkja blekkingarinnar vegna,án nokkurs sérstaks takmarks,nema að halda völdum, manni dettur það a.m.k. stundum í hug.

Gangi þér vel á næsta ársfjórðungi!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 8.12.2011 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband