Ómetanlegar björgunarsveitir

Björgunarsveitirnar hafa enn og aftur sannað gildi sitt og hvílík gæfa það er fyrir land og þjóð að eiga svo fórnfúsa sjáfboðaliða, sem alltaf eru til taks þegar erfiðleikar og hætta steðja að, hvort heldur er í borgum, bæjum, á sjó eða uppi á öræfum.

Síðustu daga hefur fjöldi félaga úr björgunarsveitunum verið til aðstoðar vegna hamfaranna í Múlakvísl og bæði verið ferðamönnum til halds og trausts við fljótið sjálft og á hálendisvegunum sem notaðir hafa verið sem hjáleiðir, sérstaklega á Fjallabaksleið nyrðri.

Í dag hafa síðan sjötíu manns leitað að erlendum göngumanni í nágrenni við Eyjafjallajökul og á jöklinum sjálfum og til allrar lukku fannst hann að lokum á lífi, en þrekaður og slæptur eins og gefur að skilja eftir slíka svaðilför.

Almenningur verður að halda áfram að styðja vel við bakið á björgunarsveitunum, því fórnfýsi þeirra er ótrúleg, því allt þeirra starf er unnið í sjálfboðavinnu, en kostnaður við tækjakaup og rekstur þeirra er mikill.


mbl.is Maðurinn er fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Nöturlegt er að björgunarsveitir skuli þurfa svo mikinn stuðning almennings, en þannig er það og það er undir okkur komið að þær rekist vel og farsællega.  Verum dugleg að skjóta upp flugeldum þeirra um áramót ---- og klárum pakkana okkar í hvelli svo að tíkin mín hætti að fara á taugum fram í febrúar ár hvert  En það er nú önnur saga...

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 13.7.2011 kl. 21:13

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það má þakka fyrir á meðan þessi starfsemi er rekin af sjálfboðaliðum, með góðum stuðningi almennings.

Ef ríkið hefði haft þetta starf á sinni könnu, væri löngu búið að skera það allt niður við trog og líklega búið að sameina það landhelgisgæslunni, eða almannavörnum.

Það þarf ekki annað en líta til niðurskurðarins á gæslunni, lögreglunni og Varnarmálastofnun til að sjá hvernig hefði farið fyrir ríkisreknum björgunarsveitum.

Axel Jóhann Axelsson, 13.7.2011 kl. 22:13

3 Smámynd: Anna Dóra Gunnarsdóttir

Ríkisrekið er illa rekið.

Anna Dóra Gunnarsdóttir, 14.7.2011 kl. 01:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband