5.6.2011 | 17:12
Íslendingar, til hamingju með daginn
Íslendingum öllum er óskað til hamingju með sjómannadaginn og þá auðvitað sjómönnum og fjölskyldum þeirra alveg sérstaklega.
Fiskveiðar og vinnsla afla a.m.k. þriðjungs þjóðarteknanna og u.þ.b. helmings gjaldeyristeknanna og því mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar, en því miður vanmetinn af mörgum sem halda jafnvel að þjóðarauðurinn verði til í tuskubúðum og leikfangaverslunum fyrir börn og fullorðna.
Það eina sem skyggir á ánægju og gleði vegna sjómannadagsins núna, eru illa undirbúin og vanhugsuð frumvörp ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnunina, enda ekki einu sinni samstaða um þau innan og milli stjórnarflokkanna og flest, ef ekki öll, hagsmunasamtök útgerðarmanna og sjómanna hafa mótmælt þeim harðlega.
Samkvæmt hugmyndum stjórnarinnar á að færa sjávarútveginn áratugi aftur í tímann með því að gera a.m.k. hluta fiskveiða og vinnslu að félagslegu úrræði fyrir íbúa á landsbyggðinni með þeim falsrökum að kvótakerfið hafi stuðlað að fólksfækkun utan höfuðborgarsvæðisins, þrátt fyrir þá staðreynd að sú fækkun á sér rætur langt aftur fyrir kvótasetningu og á sér miklu dýpri rætur en atvinnumálin á viðkomandi stöðum.
Verði þessi frumvörp að lögum óbreytt munu þau verða til verulegrar tekjuskerðingar fyrir þá sjómenn, sem starfa nú innan kerfisins, en munu hinsvegar líklega fjölga skipum og sjómönnum sem keppast við að veiða þann takmarkaða afla, sem í boði er og valda þannig mikilli óhagræðingu í sjávarútvegi, bæði fyrir fyrirtækin og starfsfólkið.
Sátt mun ekki nást um fiskveiðistjórnunina, fyrr en vankantar verða sniðnir af þessum frumvörpum, framsal aflaheimilda verði að mestu bannað og einhver leið verði til að hleypa nýjum aðilum inn í greinina, án þess að fórna hagkvæminni í leiðinni.
Hverning sem fer um stjórnun fiskveiðanna, verða sjómenn áfram hetjur hafsins og þjóðarinnar.
Látum ekki fiskimiðin af hendi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir góðar óskir til sjómanna og fjölskyldna þeirra.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.6.2011 kl. 17:42
http://www.visir.is/hagfraedingur-asi-gefur-kvotafrumvorpum-falleinkunn/article/2011110609520
Þetta er svolítið skrítið, hafandi í huga að þessi VG-liði er kvæntur systurdóttur Jóns Bjarnasonar, ráðherra!
Belgingur (IP-tala skráð) 5.6.2011 kl. 19:32
Hér er tilvitnun í ágæta grein Jón Steinssonar hagfræðiprófesors en það útskyrir betur hið rótgróna vandamál sem kallar á að fiskveiðikerfið verði tekið úr höndunum á LÍÚ og Sjálfstæðisflokknum:
"Trójuhestur frá SA í sjávarútvegsmálum
Eggert Sigurbergsson, 5.6.2011 kl. 22:26
Margt gott hefur komið frá Jóni Steinssyni, þó ekki sé það nú allt stórisannleikur, enda alltaf hægt að takast á um skoðanir manna, hans ekki síður en annarra.
Alveg er rétt hjá honum að engin ástæða er til þess að láta SA/LÍÚ ákveða einhliða hvernig fiskveiðistjórnunarkerfið eigi að vera í framtíðinni, né hvernig gjaldtöku fyrir veiðiheimildirnar verði háttað.
Því má velta upp hvort ekki væri eðlilegast að innheimta ákveðið gjald á hvert veitt kíló af fiski, þannig að það teljist einfaldlega til útgerðarkostnaðarins, eins og annar rekstrarkostnaður, þ.e. að auðlindagjaldið væri algerlega óháð afkomu fyrirtækjanna og þau sem ekki stæðu undir því, ásamt öðrum kostnaði, færu einfaldlega á hausinn og hættu útgerð. Með því móti yrðu einungis hagkvæmustu útgerðirnar eftir og hinir yrðu að snúa sér að öðru.
Uppboð á öllum aflaheimildum væri auðvitað draumur allra sannra kapítalista og í slíku kerfi yrðu þeir minni og veikburðari umsvifalaust þurrkaðir út úr greininni og þeir stóru og sterku myndu fljótlega ná undir sig öllum aflaheimildunum. Á meðan að takmarka þarf aðganginn að veiðunum verður að finna eitthvert "réttlátt" kerfi til að úthluta kvótunum, en frumvörp ríkisstjórnarinnar uppfylla alls ekki þau skilyrði og verði þau að lögum, mun þeim örugglega verða breytt af næstu ríkisstjórn og rifrildið og óánægjan héldi áfram út í það óendanlega.
Axel Jóhann Axelsson, 5.6.2011 kl. 23:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.