31.5.2011 | 19:37
Alltaf jafn snöggir, þingmennirnir
Þann 12. apríl 2010 skilaði Rannsóknarnefnd Alþingis skýrslu sinni um aðdraganda falls bankanna og hverjir bæru þar mesta sök, en niðurstaða nefndarinnar var að ótvírætt bæru eigendur og stjórnendur bankanna aðalábyrgðina, enda eru þeir flestir eða allir með stöðu sakborninga hjá embætti sérstaks saksóknara.
Nú hefur Allsherjarnefnd Alþingis lagt fram tillögu um að sambærileg rannsókn skuli fara fram vegna hruns sparisjóðakerfisins í landinu, eða eins og segir í greinargerð nefndarinnar með tillögunni: "Þrátt fyrir þessi miklu áföll innan sparisjóðakeðjunnar á síðustu árum er ekki fjallað sérstaklega um málefni sparisjóðanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008. Þar er þó bent á að það verðskuldi slíka rannsókn. Undir það tók síðan Alþingi með samþykkt framangreindrar þingsályktunartillögu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis."
Þingmannanefnd Atla Gíslasonar, sem vitnað er til í lokasetningunni hér að framan, skilaði sínum niðurstöðum í fyrrasumar, þannig að það hefur tekið Alsherjarnefnd Alþingis ótrúlega langan tíma að sjóða saman tillögu um rannsókn á falli sparisjóðanna og er illskiljanlegt í hverju sú töf liggur. Líklega er skýringin þó ekki flóknari en það, að allt sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi tekur sér fyrir hendur tekur ótrúlega langan tíma og niðurstöður oftast ófullnægjandi og stundum algerlega út í hött.
Rannsóknarnefnd sparisjóðanna á síðan ekki að skila niðurstöðum sínum fyrr en 1. september 2012, en þá verða liðin tæp fjögur ár frá bankahruninu og líklega allar hugsanlegar sakir fyrndar, þannig að ekki verði hægt að draga nokkurn mann fyrir dómstóla, jafnvel þó ásæða þætti til.
Röggsemi hefur aldrei verið aðalsmerki núverandi stjórnarmeirihluta á Alþingi. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum eins og skuldarar þessa þjóðfélags geta t.d. borið vitni.
Fall sparisjóðanna rannsakað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mig minnir að fyrningarfresturinn á svona glæpum sé hátt í 15 ár, ef sakir eru alvarlegar. Það var viðtal við sérstakan saksóknara í útvarpinu um daginn þar sem hann kom inná þetta. Venjulega eru það sjö ár.
Hins vegar mætti auka hraðann á þessu blessaða Alþingi sem og embættismannakerfinu öllu hér á landi. Allir starfshættir eru miðaðir við samskipti sem þóttu viðunandi fyrir 50-70 árum.
Sumarliði Einar Daðason, 31.5.2011 kl. 23:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.