Forsjárhyggjuleysi og atvinnubótavinna

Skipulagsráð Reykjavíkur hefur krafið fjármálaráðherra svara um áætlanir ríkisins varðandi nýtingu mannvirkja og lóða sem eru í eigu ríkisins og tengjast rekstri Borgarspítalans, en þar á að leggja niður allan rekstur þegar og ef nýr Landsspítali verður tekinn í notkun.

Spyrja má þeirrar spurningar, hvort nokkurt vit sé í að fara af stað með byggingu þess nýja risavaxna hátæknisjúkrahúss sem fyrirhugað er að reisa við Hringbrautina, þegar ríkið hefur ekki efni á að reka núverandi heilbrigðisþjónustu, hvorki með þeim mannafla sem til þarf, sinnir ekki viðhaldi þeirra fasteigna sem fyrir eru og getur ekki fjármagnað nauðsynlegustu tækjakaup, en þau hafa að stórum hluta verið fjármögnuð með söfnunar- og gjafafé einstaklinga og félagssamtaka.

Fyrirséð er að ríkið mun ekki hafa efni á að fjármagna þetta nýja sjúkrahús, enda er skuldastaða ríkissjóð slík, að lánshæfi hans leyfir engar frekari lántökur á næstu árum.  Ríkissjóður hefur ekki peninga til að fjármagna nauðsynlegustu vegagerð á næstu árum og er þó sú upphæð sem til þess vantar einungis brot af þeim milljarðatugum, sem í byggingu sjúkrahússins þarf.

Fjármögnunina á að leysa með stofnun sérstaks byggingar- og rekstrarfélags spítalans og síðan er ríkinu ætlað að greiða árlega leigu í nokkra áratugi til að niðurgreiða stofnkostnaðinn.  Allt er þetta gert til að fela raunverulega skuldastöðu ríkissjóðs samkvæmt grískri fyrirmynd, en undanfarin misseri hafa einmitt leitt í ljós til hvers slíkar hudakúnstir leiddu fjárhag gríska ríkisins.

Eins og ástand ríkisfjármálanna er nú og verður næstu árin a.m.k. hlýtur að vera viturlegra að endurnýja það húsnæði sem fyrir er til sjúkrahúsareksturs í Reykjavík og nágrenni og stækka það húsnæði, ef brýn nauðsyn er á því á næstunni, í stað þess að fara af stað með risabyggingu, sem vitað er að mun kosta tugi milljarða króna og auðvitað má gera ráð fyrir að sá byggingakostnaður fari langt fram úr öllum áætlunum, eins og gerst hefur í nánast öllum tilfellum með byggingaframkvæmdir opinberra aðila.

Ekki er réttlætanlegt að fara af stað í svona risaverkefni eingöngu á forsendum atvinnubóta, því vafalaust má skapa jafn mörg störf í tengslum við viðhald og endurnýjun núverandi húsakosts.

Bæði þjóðin og ríkið verða að fara að venja sig á að sníða stakk eftir vexti.  Geðtruflunartímabili fjárfestinga og eyðslu lauk á árinu 2007 og vonandi verður langt í að það gleymist.

Það er ekki nóg að segjast hafa lært af reynslunni, það þarf líka að læra að nýta sér þann lærdóm.


mbl.is Vilja vita hvað verður um Borgarspítalann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband