23.4.2011 | 19:40
Besti flokkurinn í leikstjórn Gauks Úlfarssonar
Í tilefni þess að verið er að frumsýna myndina um Jón Gnarr og Besta flokkinn vestanhafs, er ekki úr vegi að rifja upp kafla úr viðtali við handritshöfund, leikstjóra og framleiðanda Besta flokksins og myndarinnar, sem birt var í Mogganum þann 12. nóvember s.l., þegar myndin var frumsýnd hér á landi:
"Kvikmyndagerðarmaðurinn Gaukur Úlfarsson er höfundur heimildarmyndarinnar og hann var önnum kafinn í gær þegar blaðamaður ræddi við hann, enda stutt í forsýningu á myndinni í Sambíóinu nýja í Egilshöll. Gaukur segist hafa kynnst Jóni fyrir um hálfu öðru ári, þeir hafi verið að velta því fyrir sér að skrifa saman sjónvarpsþætti.
Hann var alltaf með þessa Besta flokks pælingu í rassvasanum og mér fannst hún ekkert sérstaklega góð, var ekki alveg að tengja en svo eina nóttina, þegar ég gat ekki sofnað, kviknaði á einhverri peru í hausnum á mér og ég uppgötvaði að þetta gæti verið algjör snilld, segir Gaukur. Hann hafi byrjað að mynda Jón í byrjun desember í fyrra, þegar Jón var að reyna að finna sinn pólitíska karakter, eins og Gaukur orðar það, og hætt tökum eftir kosningasigurinn.
..........
Nú áttir þú þátt í því að búa til persónuna Silvíu Nótt á sínum tíma. Er Jón Gnarr að einhverju leyti að leika persónu í þessari mynd eftir þínu höfði, ef svo mætti að orði komast? Er hann að leika hlutverk?
Já, já, hann er að leika fullt af hlutverkum og ég var beggja vegna borðsins, ég var fjölmiðlafulltrúi flokksins og inni í skrípladeildinni líka, eins og við kölluðum það. Að því leytinu var ég með fullt af athugasemdum og hugmyndum sem við ræddum fram og til baka og oft áður en hann fór í stór viðtöl ræddum við afturábak og áfram hvernig við vildum gera það. En á endanum fór hann yfirleitt algjörlega eftir sínu innsæi.
Talið berst að stefnu Besta flokksins. Gaukur segir flokksmenn hafa sagt það margoft að þeir væru anarkistar og tekur því undir að stefna flokksins sé stjórnleysisstefna.
Nú hlýtur að hafa verið rædd önnur og alvarlegri stefna á bakvið tjöldin, eða hvað? Það er varla hægt að stýra borg með anarkisma?
Það er alveg merkilegt, það eru búnar að koma fréttir alls staðar, um allan heim, í stórum blöðum, stórfréttir um að anarkistar hafi unnið stórsigur í Reykjavík en það hefur aldrei verið rætt um það hérna. Það eru náttúrlega anarkistar við völd í Reykjavík.
Er nýju ljósi varpað á stefnu flokksins í þessari mynd?
Já, já, fólk sem er kannski eitthvað ringlað yfir því hvað það kaus yfir sig eða hverjir eru að stjórna hérna, það mun alveg fá öllum þeim spurningum svarað."
Um þetta þarf ekki að hafa nein fleiri orð. Af þessu viðtali sést að handritið að gríninu var skrifað af Jóni Gnarr og Gauki Úlfarssyni í sameiningu, leiksýningunni stjórnað af Gauki og kjósendur blekktir til að kjósa anarkista í felubúningum yfir sig.
Helmingur kjósenda flokksins hefur nú þegar séð villur síns vegar og samkvæmt síðustu skoðanakönnunum fengi Jón Gnarr og Besti flokkurinn aðeins 18% atkvæða, væri kosið nú.
Þau 18% verða væntanlega horfin frá flokknum í næstu borgarstjórnarkosningum, sem þó verða því miður ekki fyrr en eftir þrjú ár.
Gnarr vekur mikla athygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Upp úr hvaða skúffu dróst þú þetta 18% atkvæða fylgi? Kannski frá Capasent galdra-upp sem ljúga þjóðina fulla í hverri svikakönnuninni á fætur annarri? Farðu nú varlega í að trúa fjölmiðla-mafíustýrðum "skoðanakönnunum" hér á landinu fjölmiðla-hertekna!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.4.2011 kl. 13:29
Anna, það má vel vera að skoðanakannanir gefi ekki rétta mynd af afstöðu fólks, þannig að þessi hafi sýnt Besta flokkinn með miklu meira fylgi en hann hefur í raun.
Það kemur hins vegar ekki endanlega í ljós fyrr en í kosningum eftir þrjú ár og þá skulum við bæði vona að fylgið verði endanlega horfið.
Axel Jóhann Axelsson, 24.4.2011 kl. 13:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.