1.4.2011 | 09:14
Ríkistjórnin að rumska - þarf að vakna alveg
Ríkisstjórnin hefur loksins, fullseint þó, rumskað og lofar nú að hætta að mestu að berjast gegn atvinnuuppbyggingu í landinu og gefur jafnvel fyrirheit um að gera eitthvað smávegis sjálf, til að koma hreyfingu á hlutina.
Þegar allt var við að sigla í strand í kjaraviðræðunum, kallaði stjórnin aðila vinnumarkaðarins á sinn fund og sýndi þeim "drög að tillögum" sínum í þessu efni, að vísu algerlega óútfærð en mjór er stundum mikils vísir. Fyrirheit voru gefin um átak í vegagerð, byggingu fangelsis, landspítala og hjúkrunarheimila, en þær byggingingar voru svosem fyrirhugaðar hvort sem var, en þó jákvætt að ekki skuli vera hætt við allt saman.
Galli var þó á tillögunni um aukna vegagerð, þar sem með fylgdi að í þær yrði farið ef leiðir til SÉRSTAKRAR fjármögnunar fyndust, en skammt er síðan tugir þúsunda manna skrifaði undir mótmælaskjal vegna hugmynda um vegatolla til að fjármagna þessar vegaframkvæmdir. Einnig var þess getið að fangelsisbygging yrði boðin út í apríl, en sá sem hreppa myndi framkvæmdina yrði að byggja fangelsið á eigin kostnað, eiga það og leigja til fangelsisyfirvalda. Með því yrði þá tekinn upp vísir að einkarekstri í fangavistun á Íslandi og ekki hefði maður fyrirfram búist við slíkri einkavæðingu í tíð hreinræktaðrar vinstri stjórnar, eins og núverandi ríkisstjórn segist vera.
Þrátt fyrir að nánast hafi ekki verið staðið við eitt einasta atriði, sem ríkisstjórnin undirritaði og lofaði að koma í framkvæmd með Stöðugleikasáttmálanum árið 2009, verður að fagna því að stjórnin skuli nú vera að rumska og verkefni aðila vinnumarkaðarins þarf að vera að koma henni almennilega á fætur og fá viðunandi lausn í þau mál sem ennþá standa útaf í þeim efnum, sem að ríkisvaldinu snýr.
Nú er að bretta upp ermar, bæta álverinu í Helguvík á framkvæmdaplanið, komast til botns í fiskveiðistjórnarmálum og nokkrum fleiri atriðum, sem nauðsynlegt er að ljúka sem fyrst.
Atvinnumálin verða að fá allan forgang á næstunni og skal ríkisstjórnin studd til allra góðra verka á því sviði.
Tjáðu sig lítið um tillögurnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er ,,rumsk" á pari við það, þegar Jóhanna rumskaði á fleti sínu 4. okt. sl., þegar ca. 10000 manns mótmæltu fyrir utan þinghúsið, er hún flutti stefnuræðu sína.
Út úr því rumski, kom reyndar fátt annað en það, sem bankarnir voru þá þegar farnir að bjóða. Hins vegar hafði hið opinbera, á einn eða annan hátt, þvælst fyrir aðgerðum bankanna og gert ferli þeirra seinvirkara og stöðvað það í tilfellum flestra, er þangað leituðu.
Október-rumsk forsætisráðherra, leiddi þó ekki til þess að staða fólks, breyttist almennt til hins betra. Rumskið leiddi nefnilega ekki til þess að tekjur heimilana hækkuðu, vegna aukinnar atvinnu og verðmætasköpunnar. Það þarf nefnilega öruggar tekjur til að standa í skilum. Burtséð frá því hvort eitthvað sé afskrifað.
Auk þess sem nýjustu skattahækkanir stjórnvalda, tóku að stærstum hluta þann litla ábata sem þó var.
Kristinn Karl Brynjarsson, 1.4.2011 kl. 10:48
Það er alveg rétt, Kristinn Karl, að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar fram að þessu hafa verið í þá átt að tefja og stöðva allar framkvæmdir sem hugsanlega var völ á að koma í gang til atvinnusköpunar og henni hefur tekist afar vel upp í að ná niður lífskjörunum, t.d. með því að afnema lög um að perónuafsláttur skyldi hækka í takt við neysluverðsvísitölu. Nú lofar stjórnin að beita sér fyrir slíkri lagasetningu frá og með árinu 2012, en ætlar hins vegar ekki að bæta fólki þann persónuafslátt sem hún hafði af því, með ógildingu laga fyrri ríkisstjórnar þar um.
Eins er svosem með verklegu framkvæmdirnar, sem er verið að boða núna, þetta eru allt gömul mál, og þar að auki virðist ekki eiga að fara í vegaframkvæmdir, nema með vegatollum, sem þjóðin er búin að hafna á eftirminnilegan hátt. Fangelsis á að vera í einkaframkvæmd, en jákvætt engu að síður að fara í þá byggingu, sem búið er að bíða eftir áratugum saman.
Stjórnin á líka mörg ónýtt framkvæmdaloforð frá samningunum í júní 2009, t.d. álverið í Helguvík, en virðist ekki muna eftir því ennþá og því þarft mál að minna á það núna.
Einnig er furðulegt, eftir margra mánaða viðræður, að ekki skuli koma fram neinar tillögur frá ríkisstjórninni fyrr en á síðasta degi, þegar allt er að fara í baklás, og þá eingöngu "drög að áætlun", sem haldið er sem trúnaðarmáli enda algerlega óútfært. Eins og áður er boðað að "nánari útfærsla" liggi fyrir í "næstu viku", en þó er það alveg sérstakt fagnaðarefni að ríkisstjórnin virðist vera að rumska og vonandi tekst henni að vakna alveg til lífsins og ef af því verður mun ekki standa á stuðningi við þau framfaramál, sem hún hugsanlega kæmi í gang.
Strax og vaknað er upp af svefni lýkur martöðunum að minnsta kosti.
Axel Jóhann Axelsson, 1.4.2011 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.