14.3.2011 | 22:45
Glæpafyrirtæki í eigu bankanna?
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakar hvort Húsasmiðjan, Byko og Úlfsins (sem nú heitir Byggingavörur Dúdda) hafi haft með sér verðsamráð og markaðsskiptingu á ýmsum byggingavörum, sérstaklega svokallaðri grófvöru.
Eigendur fyrirtækjann eru eins og segir í fréttinni: "Húsasmiðjan er að fullu í eigu Vestia, sem er í meirihlutaeigu Framtakssjóðs Íslands. Áður átti Landsbankinn Vestia, sem tók fyrirtækið yfir vegna skuldavanda. Áður var fyrirtækið í eigu Haga. BYKO er að fullu í eigu Norvik, fjárfestingafélags Jóns Helga Guðmundssonar."
Ef einhver minnsti fótur er fyrir þessari glæpastarfsemi þessara fyrirtækja, þá er það enn grafalvarlegra en ella vegna þess hver eigandi Húsasmiðjunnar er núna og ekki síður hver hann var þar áður, þ.e. Landsbankinn. Ef bankarnir taka yfir fyrirtæki vegna skulda og reka þau svo áfram eins og hver önnur glæpafyrirtæki, verður að taka slík mál föstum tökum og draga ekki bara starfsmenn fyrirtækjanna til ábyrgðar, heldur einnig eigendurna sem hljóta að hafa umsjón og eftirlit með rekstri fyrirtækja sinna.
Sannist sakir í þessu máli hlýtur sú krafa að verða gerð, að stjórnendur Húsasmiðjunnar, Landsbankans, Vestia og Framtakssjóðs Íslands verði allir dregnir til ábyrgðar og verði einhverjir þeirra ekki dæmdir eins og aðrir lögbrjótar, þá a.m.k. hverfi þeir allir sem einn úr störfum hjá öllum hlutaðeigandi fyrirtækjum.
Mikið vantraust hefur ríkt í þjóðfélaginu vegna markaðsstöðu fyrirtækjanna sem bankarnir hafa yfirtekið, gagnvart öðrum fyrirtækjum og sögur farið af því að "bankafyrirtækin" hafi mun greiðari aðgang að rekstrarfé en keppinautarnir.
Ef hrein glæpamennska bætist þar við verður að gera þá kröfu að "bankafyrirtækin" verði seld umsvifalaust, eða verði sett í gjaldþrot ella. Allt er betra en að glæpastarfsemi fái að þrífast innan þeirra, jafnvel að selja þau á vægu verði til keppinautanna.
Öllum sleppt eftir yfirheyrslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kristinn Karl Brynjarsson, 15.3.2011 kl. 11:23
Framtakssjóður Íslands virðist aðallega hafa verið stofnaður til þess að bjarga bókhaldslegri stöðu Landsbankans, þ.e. að "kaupa" af honum Vestia, enda salan alls ekki gegnsæ og opin eins og upphaflega var boðað.
Ef þessir aðilar treysta sér ekki til að reka yfirteknu fyrirtækin nema eins og hver önnur glæpafyrirtæki með verðsamráði og markaðsskiptingu, þá verður hreinlega að loka þessum fyrirtækjum og leyfa þeim sem enn eru að basla við að reka sín fyrirtæki á heiðarlegan hátt að gera það í friði og bankarnir snúi sér að þeim verkefnum sem þeir eiga að vera að sinna, þ.e. að fjármagna uppbyggingu og rekstur atvinnulífsins í landinu.
Það er engin lausn að þykjast vera að skilja á milli bankans og fyrirtækjanna með því að setja þau undir Framtakssjóð Íslands, ef beita á ólöglegum aðgerðum til að halda þeim á floti.
Axel Jóhann Axelsson, 15.3.2011 kl. 13:01
Ég hef verið þeirrar skoðunnar lengi, að hvorki ríki né bankar eigi að reka fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Geri engan greinarmun á beinni eða óbeinni eignaraðild í gegnum dótturfélög.
Lendi fyrirtæki í fangi banka vegna gjaldþrots, þá bankinn eingöngu að meta rekstrarhæfni þess, út frá afkomutölum almenns rekstrar, þe. hvort að reksturinn skili hagnaði án tillits til afborgunnar lána. Skila eftir þær skuldir í fyrirtækinu, sem það getur staðið undir. Útbúa útboðsgögn, og setja fyrirtækið í opið söluferli og leita tilboða. Allt þetta á taka í mesta lagi 3 mánuði. Að viðlögðum dagsektum, gangi það ekki eftir. Gildir þá einu hvort að um sé að ræða, lúgusjoppu í Hlíðunum, byggingavöruverslun eða þá eitthvað annað.
Kristinn Karl Brynjarsson, 15.3.2011 kl. 14:08
Algerlega sammála þessu, Kristinn.
Axel Jóhann Axelsson, 15.3.2011 kl. 14:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.