1.3.2011 | 15:40
Enn ein ESBlygi Samfylkingar
Samfylkingin virðist ekki geta stutt áhuga sinn á inngöngu í ESB með einni einustu sannri röksemd, heldur er haldið að almenningi alls kyns hálfsannleika og í mörgum tilfellum hreinum lygum. Lengi hefur Samfylkingin klifað á því að vextir myndu lækka gríðarlega við upptöku evru og halda sér við þá lygasögu, þrátt fyrir að margsinnis hafi verið bent á að vextir eru ekki eins í öllum ESB löndum og fara algerlega eftir trausti á viðkomandi ríki og mörg ár munu líða, ef það verður þá nokkurntíma, sem Ísland mun njóta vaxtakjara eins og Þýskaland.
Þrátt fyrir að Lilja Mósesdóttir hafi sýnt fram á þessar staðreyndir með tilvísun til mismunandi vaxtakjara í Evrópu og þess að erlendar lánastofnanir lána ekki lengur til vandræðalanda, eins og Ísland sannarlega er og verður um mörg ár ennþá og ekki síst á meðan núverandi ríkisstjórn situr, en traust á henni erlendis er minna en ekkert, þá heldur Magnús Orri Schram áfram að falsa staðreyndir varðandi vaxtakjörin í Evrópu og þeirra kjara sem Íslendingum mun koma til með að bjóðast.
Endalaust er klifað á þeirri fölsun að verðtrygging íslenskra lána sé svo skelfileg, að hún ein réttlæti upptöku nýs gjaldmiðils og að verðbólga yrði úr sögunni hérlendis um leið og nýr gjaldmiðill yrði tekinn upp, þrátt fyrir að talsverð verðbólga sé einnig í ESBlöndum og fari vaxandi um þessar mundir. Mismunurinn er sá, að í Evrópu er vaxtastiginu haldið yfir verðbólgunni, þannig að fólk í þeim löndum er ekki að fá neitt gefins frá bönkunum þar, frekar en hér.
Nú er verðbólga lítil á Íslandi og ekki horfur á að hún verði mjög mikil á næstu árum, þannig að ef einhvern tíma er tækifæri til að gera breytingu á lánakerfinu, er það núna. Það verður að teljast undarlegt að andstæðingar verðtryggingarinnar skuli ekki rísa upp og krefjast afnáms verðtryggðra lána, fyrst þeir eru svona sannfærðir um að verðtryggingin sé upphaf og endir alls vanda skuldara.
Hér hefur oft verið bent á að það sé vaxtaokrið, sem sé vandamálið, en ekki verðtryggingin og því vekur það mikla furðu að engin umræða sé nú um afnám verðtryggingar og alls engin um vaxtaokrið, sem hér hefur tíðkast áratugum saman. Jafnvel hefur verðtryggingunni verið kennt um hvað dýrt sé að taka lán þegar vextirnir hafa jafnvel verið 8-10% ofan á verðtrygginguna og í sumum tilfellum ennþá hærri.
Ef einhver vilji er til þess að taka upp alvöru hagstjórn á Íslandi, þá er hægt að gera það núna með krónunni, verðtryggðri eða óverðtryggðri, en að sjálfsögðu kallar slíkt á gjörbreytta hugsun almennings og stjórnmálamanna varðandi eyðslu og lántökur.
Sú hugarfarsbreyting þarf að eiga sér stað hvort sem gengið verður í ESB eða ekki og hvort sem skipt verður um gjaldmiðil eða ekki. Óðaverðbólga með Evru myndi leiða hagkerfið í þrot á örfáum árum og skulduga einstaklinga líka, enda yrðu allir vextir breytilegir og alltaf hærri en verðbólgan.
Segir vexti lítið lækka með upptöku evru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eru Íslendingar að eilífu fastir í því að allt lífið gangi fyrir lánum? Það verði umfram allt að taka lán og því skipti öllu máli að lemja vextina niður. Það skipti engu máli hvað innlánsvextir séu? Það skipti engu að hægt dsé að varðveita sparnaðinn?
Mikið vona ég að þessi Magnús Orri finni sér eitthvað annað að gera en vera þingmaður.
Halldór Jónsson, 1.3.2011 kl. 16:02
Íslendingar hafa alltaf verið lánaóð þjóð og látið sig litlu skipta hvað lánin hafa kostað, fyrr en nú upp á síðkastið þegar farið er að hrópa niður gengistrygginguna án þess að minnast þó nokkurntíma á vextina, sem öllu máli skipta við lántöku, en ekki gengistryggingin.
Varðandi Magnús Orra er varla hægt að vera meira sammála.
Axel Jóhann Axelsson, 1.3.2011 kl. 18:27
Er ekki viss um eftir að hafa lesið þennan pistil að þú skiljir verðtryggingu. Bendi þér t.d. á að hækkun á olíu og bensíni sem við höfum enga stjórn á hækkar þar með öll verðtryggð lán á landinu. Hækkun á sykri, hveiti og raun allar innflutar vörur velta beint inn í verðtrygginuna.
Gengi evru miðað við krónu hækkar hér vöruverð ef krónan fellur eða evran hækkar. Sem og að öll lán Íslands og fyrirtæki erlendi hækka við lækkun krónunar. Vextir eru nú hér í sögulegu lágmarki en um leið og framkvæmdir komast hér verulega af stað verður Seðlabankinn að hækka vexti til að koma i veg fyrir óeðlilega þennslu og hugsanlega bólu með gervi gengishækkun krónunar eins og gerðist fyrir hrun. Hér hefur um 80 ára skeið verið reynt að hafa stjórn á krónunni m.a. með gjaldeyrisföftum í hvað um 50 ár af þessum 80. Samt hefur krónan t.d. rýrnað um 99% miðað við dönsku krónuna. Og bara síðan við tókum tvö núll af krónunni um 1980 hefur krónan rýrnað 20 fallt miðað við Dönsku krónuna. Þær voru jafnar um 1980
Magnús Helgi Björgvinsson, 1.3.2011 kl. 21:29
Magnús, ert þú að fá laun greidd með krónum sem hafa sama verðgildi og þær höfðu fyrir 80 árum?
Þessi athugasemd þín er einhver lélegasta umfjöllun um verðbólgu og verðbætur sem sést hefur lengi og í þínum sporum myndi ég lesa mér svolítið til um verðbólgu og verðbætur, áður en ég tæki að mér að segja öðrum til um þau fræði.
Axel Jóhann Axelsson, 1.3.2011 kl. 22:45
Ég tel að ef við ætlum að halda krónunni þurfum við að stefna að því að afnema verðbólguna eða setja verðtrygginguna líka á launin. Það gengur ekki að fjármálastofnanir hafi annan gjaldmiðil en almenningur. Gott væri núna að taka upp dollar eða kanadískan dollar meðan gengið er svona hagstætt. Með því munu Íslensk lán frystast í fáum dölum, eignir í bönkum munu leita út í fjárfestingu t.d. í húsnæði og smám saman mun verðlag á húsnæði og vörum leita jafnvægis við önnur svæði sama gjaldmiðils. Hvor leiðin sem verður valin er ljóst að það er efnahagsstjórnin sem þarf að verða sterk þ.e. ekki eyða meira en öflum. Styrkurinn við að taka upp stóran gjaldmiðil er að ekkert velferðartap verður vegna viðskipta milli landa með sama gjaldmiðil ef við náum að semja um tollabandalag við sömu ríki. Hver segir að það þurfi að verða Evra? Við flytjum mest út fyrir Dollar, en inn fyrir Evrur.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 2.3.2011 kl. 08:52
Það er efnahagsstjórnin sem skiptir öllu máli, hver sem gjaldmiðillinn yrði, hvort sem það væri króna, evra eða dollar. Hér á landi hafa ríkisfjármálin og efnahagsstjórnin ekki verið í lagi frá lýðveldisstofnun, ef undanskilin eru árin sem Friðrik Sophusson og Geir H. Haarde voru fjármálaráðherrar í forsætisráðherratíð Davíðs Oddsonar.
Stór hluti almennings hefur heldur ekki kunnað að stjórna sínum fjármálum, sem sannaðist endanlega þegar gjaldeyrislánaæðið greip þjóðina, bæði fyrirtækin og einstaklingana, enda hafa aldrei skapast önnur eins skuldakreppa og einmitt núna.
Bæði skuldsettu menn sig allt of mikið og vitleysan náði hámarki þegar fólk fór að skuldsetja sig í erlendum gjaleyri, þrátt fyrir að hafa allar sínar tekjur í íslenskum krónum.
Geti menn ekki stjórnað fjármálunum með sínum eigin gjaldmiðli, þá geta þeir það ekkert frekar með öðrum gjaldmiðli. Nægir að benda á Grikkland og Írland því til sönnunar.
Axel Jóhann Axelsson, 2.3.2011 kl. 09:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.