23.2.2011 | 16:03
Er Landsbankinn orðinn gráðugt útrásargengi?
Landsbankinn á 67% í verlsunarkeðjunni Iceland í Bretlandi, eftir að hafa yfirtekið hana upp í skuldir lánakóngs Íslandssögunnar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, foringja Bónusgengisins við framgöngu þess og annarra banka- og útrásargengja í eyðileggingu íslensks efnahagslífs.
Bónusgengið, ásamt hinum, greiddi sér stjarnfræðilegar upphæðir í arð út úr þeim bönkum og fyrirtækjum sem það komst yfir, enda urðu þau flest gjaldþrota og gengin skildu eftir sig ótrúlegar upphæðir í skuldum um allar jarðir og Bónusgengið eitt og sér mun hafa skuldað a.m.k. þúsund milljarða króna, þegar loftbólan sprakk.
Verslunarkeðja Iceland er besta fyrirtækið sem Bónusgenginu tókst að sölsa undir sig og eitt fárra þeirra sem hefur verið vel rekið og skilað arði. Ekki er vitað hvernig skuldastaða fyrirtækisins er um þessar mundir, en Jón Ásgeir gumaði af því um árið, að hann hefði náð öllu kaupverði fyrirtækisins út úr því með arðgreiðslum á undra fáum árum. Til þess að greiða þann arð varð fyrirtækið að skuldsetja sig, en lifði þó af eignarhaldstíma Baugsgengisins.
Nú virðist Landsbankinn vera kominn í gamla góða útrásargírinn og ætlar að láta Iceland greiða sér og öðrum eigendum fyrirtækisins arð fyrir síðasta ár sem nemur þreföldum hagnaði félagsins fyrir skatt. Arðgreiðslan á að nema 330 milljónum punda, en hagnaðurinn var hins vegar 110 milljónir punda fyrir skatt, þannig að þegar skatturinn verður búinn að taka sitt verði endanlegur hagnaður á bilinu 60-70 milljónir punda. Sé það nálæt lagi verður arðgreiðslan fimmfaldur nettóhagnaður.
Að ganga svo freklega á eigið fé félaga var talið hafa liðið undir lok með gömlu banka- og útrásargengjunum.
Nú virðist nýji Landsbankinn vera kominn í sama gírinn og svæsnustu útrásargengin voru í áður.
Iceland Foods greiðir út arð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í pistlinum hér að framan er sú meinloka, að talað er um nýja Landsbankann, en hið rétta er að Iceland Food er í meirihlutaeigu gamla Landsbankans.
Það er því skilanefndin sem orðin er að útrásargengi, en ekki stjórnendur nýja bankans.
Að öðru leyti stendur textinn fyrir sínu.
Axel Jóhann Axelsson, 23.2.2011 kl. 18:04
Þetta er arfleifð frá útrásartímanum.
Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2011 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.