Óáreiðanlegt matsfyrirtæki

Moody´s segir að ef kjósendur hafni lögunum um Icesave muni lánshæfismat íslenska ríkisins "að öllum líkindum fara í ruslflokk", sem er með ólíkindum vegna þess að þá væri verið að auka á skuldabyrði ríkissjóðs og miðað við allar venjulegar efnahagslegar forsendur ætti slíkt að valda lélegra lánshæfismati, en ekki bæta það.

Moody´s er eitt þeirra matsfyrirtækja sem fram á síðasta dag gaf íslenskum bönkum hæstu einkunn og taldi þá með traustustu fjármálastofnunum heimsins, en eins og allir vita var ekki mikið að marka það álit matsfyrirtækjanna.  Núna passar Moody´s sig á því að setja þessu nýja áliti sínu alls kyns fyrirvara, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Hinsvegar er skýrt tekið fram í mati Moody's að mikil óvissa ríki  um ofangreint. Forsendur um gengisþróun og endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans kunna að reynast bjartsýnar. Einnig er nefnt að niðurstöður í ýmsum dómsmálum sem nú standa yfir kunni að hafa neikvæð áhrif á stöðu íslenska ríkisins og einkageirans."

Svona "álit" gefur undir fótinn með að ekkert sé að marka þessi svokölluðu matsfyrirtæki, enda hafa þau ekki úr háum söðli að detta eftir bankahrunið á vesturlöndum, enda stóð ekki steinn yfir steini í mati þeirra á fjármálageiranum og lítið mark tekið á þeim um þessar mundir.

Moody´s telur að höfnun laganna geti dregið á langinn að afnema gjaldeyrishöftin, en verður svo tvísaga þegar sagt er að afnám gjaldeyrishaftanna geti leitt til skyndilegrar lækkunar krónunnar með öllum þeim erfiðleikum sem því myndu fylgja.

Athyglisverðust eru þær vangaveltur Moody's að verði lögin felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni, að slíkt myndi sennilega seinka greiðslum á lánum Norðurlandaþjóðanna og sýnir það enn og aftur hverjir eru helstu meðreiðarsveinar í þeirri skefjalausu og harkalegu fjárkúgun, sem beitt hefur verið af hálfu Breta, Hollendinga og ESB í þessu máli.

Þetta inngrip Moody's í umræðuna um kosti og galla þess að samþykkja eða hafna staðfestingu Icesavelaganna er vægast sagt ómerkilegt og að engu hafandi, enda með fyrirvörum í allar áttir.


mbl.is Moody's: Nei sendir ríkið í ruslflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Moody´s er í rauninni að segja: ,,Ef íslenska þjóðin hafnar Icesave, þá setjum við Ísland í ruslflokk."

Kristinn Karl Brynjarsson, 23.2.2011 kl. 13:27

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þar með er Moody's að taka afstöðu til málsins fyrirfram, án þess að nokkur áhrif af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar væru komnar fram.

Ekki traustvekjandi matsfyrirtæki það.

Axel Jóhann Axelsson, 23.2.2011 kl. 13:34

3 identicon

Þetta er bara þeirra mat enda er þetta matsfyrirtæki.

Þitt mat er að taka ekki mark á matsfyrirtæki sem metur stöðuna eins og þeir sjá hana.

Þó svo matsfyrirtæki hafa ekki allaf rétt fyrir sér, þá virðast þeir gera sér grein fyrir því með því að setja nokkra fyrirvara vegna óvissu.

Þú tekur fram í pistli þínum "og miðað við allar venjulegar efnahagslegar forsendur ætti slíkt að valda lélegra lánshæfismati" Finnst þér Icesave málið og Íslenkra efnahagsundrið eitthvað skilt við venjulegt?

Allur pistillinn er svolítið að hengja boðberan,  sem er dáltið eins og fyrir hrun.

Svona snýst allt í hringi

Símon (IP-tala skráð) 23.2.2011 kl. 13:43

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Matið frá Moody's snerist talsvert meira en svolítið í hringi.  Þegar þeir gáfu bönkum vesturlanda, þar á meðal þeim íslensku, hæstu mögulegu einkunn voru ekki settir miklir fyrirvarar við þá einkunnargjöf.  Vonandi hefur Moody's lært af þeim afdrifaríku mistökum sínum.

Með öllum fyrirvörunum verður hins vegar ekkert ákveðið lesið út úr umsögn þeirra, þar sem fyrirvararnir eru svo miklir að eins er hægt að láta kolkrabba eða kýr spá fyrir um hvað gerist eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.  Spádómar slíkra kvikinda hafa ekki reynst neitt síðri en spádómar Moody's.

Axel Jóhann Axelsson, 23.2.2011 kl. 13:51

5 identicon

Eitt er alveg á hreinu. Í síðasta lagi ef við samþykkjum Icesafe, förum við í ruslaflokk vegna ofurskulda, svo að það er engu að tapa

anna (IP-tala skráð) 23.2.2011 kl. 13:51

6 identicon

Eins og allir vita (nema börn og þroskaheftir) fær þjóð í ruslflokki hin verstu kjör, og gildir það þá jafnframt um fyrirtæki þeirrar þjóðar.

Að segja iss Moody's er jafn vitsmunalegt og að segja að maður taki ekkert mark á því hve mikið þurfi að borga fyrir það sem maður kaupir, því - sem Íslendingur! - viti maður sko að hið háa verð sé byggt á röngum forsendum!

asdis o. (IP-tala skráð) 23.2.2011 kl. 14:20

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Moody's fullyrðir ekki að Ísland myndi fara í ruslflokk.  Það eru allskyns fyrirvarar á umsögninni og meira að segja sagt að Ísland yrði sett í ruslflokk þó lögin yrðu staðfest.  Hvað er að byggja á slíkum spádómum?  Með þessari umsögn er fólk engu nær um hvað gerist með lánshæfismatið, hvernig sem þjóðaratkvæðagreiðslan fer.

Nema Moody's sé búið að ákveða niðurstöðuna fyrirfram og sé þar með að reyna að hafa bein áhrif á niðurstöðu kosninganna og sé að gefa út yfirlýsingu um harða refsingu af hálfu fyrirtækisins og það í þágu Breta og Hollendinga.

Axel Jóhann Axelsson, 23.2.2011 kl. 14:37

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Í fréttinni sem má sjá HÉRNA er athyglisverð samantekt á lánshæfiseinkunnum íslenska ríkisins hjá Moody's fyrir og eftir hrun.

Matseinkunnin hefur staðið í stað frá hausti ársins 2009 og því skýtur skökku við að hóta núna að setja landið í ruslflokk verði lögin um Icesave ekki staðfest, ekki síst í því ljósi að ríkisstjórnin þreytist ekki á að útmála fyrir þjóðinni hvað hún hefur náð miklum árangri í efnahagsmálunum og að hér sé allt á uppleið.

Af hverju ætli lánshæfismat Moody's hafi ekkert breyst við afdráttarlausa niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave II, þann 6. mars 2010?

Axel Jóhann Axelsson, 23.2.2011 kl. 14:53

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Hér birtir ,asdís, sömu athygasemd og skrifuð er hjá bloggvinkonu minni ,Önnu Björku Hjartardóttur,þar sem hún minnir á að Moodys gaf Enron toppeinkunn rétt fyrir hrun þess. Allflestir þekkja svindlsögu þessa Bandaríska félags. Hjá því vann góður vinur minn íslenskur verkfræðingur,sem getur staðfest það.

Helga Kristjánsdóttir, 23.2.2011 kl. 15:06

10 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Sömu trúðarnir og gáfu líka Enron toppeinkunn korteri áður en sú spilaborg féll, af hverju nokkur ætti að taka mark á þessum bullukollum er mér fyrirmunað að skilja eftir það sem á undan er gengið.

Georg P Sveinbjörnsson, 23.2.2011 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband