Standa verður sterkan vörð um lífeyrissjóðina

Undanfarna mánuði hefur verið hart sótt að launum elli- og örorkulífeyrisþega, bæði þeirra sem nú þegar njóta lífeyris og ekki síður þeirra sem njóta eiga réttinda sinna í sjóðunum í framtíðinni.  Þessi ásókn í elli- og örorkulaun lífeyrissjóðanna hefur aðallega verið af hendi þeirra sem yfirskuldsettu sig á árunum fyrir bankahrun og ráða ekki við að greiða af lánum sínum, en finnst sjálfsagt að hluti þeirra verði felldur niður á kostnað lífeyrisþeganna.

Þessari aðför skuldara að lífeyrissjóðunum verður að verjast af hörku og ekki síður ásókn ríkisins í sjóðina til að fjármagna ýmis verkefni sem ríkinu ber að annast en hefur ekki efni á um þessar mundir, en er ekki tilbúið að greiða eðlilega vexti af þeim lánum, sem ætlast er til að sjóðirnir leggi ríkinu til, svo ráðherrarnir geti sagst vera að gera eitthvað í atvinnumálunum.

Það er ekki hlutverk lífeyrissjóða að greiða niður skuldir lánasukkara og alls ekki að halda uppi atvinnubótavinnu á vegum ríkissjóðs.  Eina hlutverk lífeyrissjóðanna er að ávaxta iðgjöld sjóðfélaganna á hagkvæmasta hátt og greiða þeim eins háan lífeyri og mögulegt er, þegar sjóðfélaginn þarf á því að halda, annað hvort vegna örorku eða aldurs.

Hjarðhugsun, sem stjórnað er af lýðskrumurum, um að sjálfsagt sé að ganga í lífeyrissjóðina og ausa úr þeim í gæluverkefni, verða sjóðirnir að hrinda af höndum sér í eitt skipti fyrir öll og halda sig við það hlutverk, sem þeim er ætlað.


mbl.is Hart sótt að lífeyrissjóðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband