Voru bankarnir alger glæpabæli?

Kastljós sjónvarpsins fjallaði í kvöld ýtarlega um skýrslu franskra rannsakenda, sem Sérstakur saksóknari og Eva Joly fengu til að fara yfir rekstur Glitnis árin fyrir bankahrunið og samkvæmt henni er ekki annað að sjá, en að Glitnir hafi verið rekið sem hreint glæpafyrirtæki síðustu árin og hafi í raun verið orðinn gjaldþrota á árinu 2007, en líf hans verið framlengt með tómum blekkingum og svikum fram á haustmánuði 2008.

Ekki hefur verið nóg með að bankanum hafi verið haldið á floti með sviksamlegum aðferðum síðustu árin, heldur styður rannsóknin ljóslega við það sem vitað var áður, þ.e. að eigendur bankans og stjórnendur rændu hann innanfrá og komu ótrúlegum upphæðum á glæpsamlegan hátt til fyrirtækja í sinni eigu og eigin vasa.  Upphæðir sem eigendur hafa krafsað ofan í eigin vasa sýnast hafa numið milljörðum, eða tugmilljörðum króna, sem þessir stórglæpamenn hafa falið í hinum ýmsu bankaskjólum alþjóðlegra fíkniefnabaróna og annars glæpalýðs.

Kastljós boðaði jafnframt að á morgun yrði fjallað um skýrslur sem vörðuðu Landsbankann, sem sýndu að hann hafi í raun verið orðinn gjaldþrota á árinu 2007, eins og Glitnir, en verið einnig verið haldið á lífi með vafasömum hætti fram í október 2008.  Endurskoðendur virðast hafa verið samverkamenn bankanna um þessa svindlstarfsemi og ef það er á rökum reist, er það gífurlegt áfall fyrir þá sem treyst hafa á heiðarleika endurskoðenda og uppáskriftum þeirra á reikninga fyrirtækja.

Samkvæmt þessum skýrslum sem Kastljós hefur undir höndum, ásamt öðrum sönnunum sem hljóta að hafa hlaðist upp hjá Sérstökum saksóknara undanfarin tæp tvö ár, hlýtur að fara að verða grundvöllur til að taka höfuðpaurana fasta og setja í gæsluvarðhald, þar sem refsing fyrir þau glæpaverk sem þeir virðast hafa framið hlýtur að vera margra ára fangelsisvist.

Ef refsing fyrir glæpi sem til rannsóknar eru, er talin varða meira en tveggja ára fangelsi eru sakborningar nánast undantekningarlaust látnir sitja í gæsluvarðhaldi á meðan að á rannsókn máls stendur og dómur hefur verið kveðinn upp.  Má t.d. benda á morðrannsóknir sem dæmi.


mbl.is Segja að bókhald Glitnis hafi verið í molum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Í ljósi þess sem þarna kemur fram þykir manni það kaldhæðnislegt að þeir aðilar sem stöðvuðu loksins það athæfi sem þarna fór fram, skuli úthrópaðir með þjóðinni og öllu tjaldað til svo að klekkja megi á þeim.

Núna munu þeir væntanlega hugsi sem fögnuðu sérhverjum "sigri" útrásarvíkinganna og þeirra meðhlaupara. Það VAR svo gaman að pirra Davíð, eins og einhver orðaði það.

Flosi Kristjánsson, 8.12.2010 kl. 22:00

2 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Gera hefði þurft meira fyrr.  Það mátti ekki anda á þetta fólk.

http://www.visir.is/article/200770221057

Þorsteinn Sverrisson, 8.12.2010 kl. 22:16

3 identicon

Það var athyglisvert að sjá í sjónvarpinu í kvöld þar sem sýnd var upptaka með fyrrverandi forsætisráðherra Halldóri Ásgrímssyni þar sem hann í ræðustól á alþingi ásakði fjölmiðla fyrir óæskilega gagnrýni á bankana í fréttaskrifum sínum. Fyrir nokkrum dögum var sýnd samantekt á ýmsum málum er gerðust fyrir hrunið, meðal þess var viðtal við virtan erlendan prófessor í hagfræði er varaði við þenslunni í bankakerfinu hérlendis, þá kom viðtal við þáverandi menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu er sagði að sem menntamálaráðherra mælti hún með að þessi maður þyrfti að fara í endurmenntun í sinni starfsgrein. Þvílíkur var nú hrokinn í ráðamönnum okkar í aðdraganda hrunsins, hjá aðilum er áttu að stýra þjóðarskútunni.Eftirlitið brást alveg með bankakerfinu, menn vissu af slæmri stöðu bankanna2007 en gerðu ekkert. Ef skipstjórnendur hlypu fyrstir frá borði í óveðri í björgunarbátanna og segðu hinum að eiga sig, yrðu þeir sömu aðilar sagðir ábyrgarlausir og vafalítið ákærðir fyrir slóðaskap.En það er ekki sama Jón og séra Jón. 

Sigurgeir Árnason. (IP-tala skráð) 8.12.2010 kl. 22:50

4 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Góð grein Axel!

Þráinn Jökull Elísson, 9.12.2010 kl. 01:12

5 Smámynd: Edda Karlsdóttir

Held að það liggi í augum uppi að gömlu bankarnir voru glæpastofnanir. Ekki hefur mikið breyst þrátt fyrir nýjar kennitölur bankanna. Þeir sýna hagnað á kostnað þeirra sem voru rændir og það sem er ótrúlegt við þetta allt er að núverandi stjórnvöld virðast leggja blessun sína yfir þessa gjörninga og láta almenning borga brúsann.  Enginn handtekinn ennþá þrátt fyrir þau rúmlega tvö ár sem liðin eru frá hruni.

Edda Karlsdóttir, 9.12.2010 kl. 06:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband