2.12.2010 | 11:18
Bjöggi og banki til rannsóknar
Lítið hefur farið fyrir fréttum af rannsóknum á Landsbankanum, eigendum hans og stjórnendum upp á síðkastið og var það farið að þykja nokkuð undarlegt hversu hljótt var orðið um þennan banka og gengið sem átti hann og rak.
Björgólfur Thor hefur, að því er fregnir herma, samið um allar sínar skuldbindingar svo ekkert þurfi að afskrifa eða lækka af hans skuldum og ef það gengi upp yrði það einsdæmi með þá "snillinga" sem öllu réðu í íslensku viðskiptalífi á tímum lántöku og eyðslurugls, sem að lokum leiddi til hruns bankanna og allra helstu atvinnufyrirtækja landsins.
Nú bregður hins vegar svo við að fréttir berast af því að Sérstakur saksóknari hefur nú til rannsóknar kaup Landsbréfa á skuldabréfi af Björgólfi Guðmundssyni á árinu 2005, að upphæð 400 milljóna króna, þrátt fyrir að sjóðnum væri óheimilt að kaupa slík bréf af einstaklingum. Þetta hlýtur að flokkast undir alvarlegt brot, þar sem Björgólfur var aðaleigandi Landsbankans og stjórnarformaður hans. Undarlegast er, hve seint þetta mál virðist koma á borð þess sérstaka, en fimm ár eru liðin frá þessum viðskiptum og tvö ár frá hruni.
Einnig hefur skilanefnd Landsbankans stefnt fyrrverandi bankastjórum vegna vanrækslu í starfi og krefur þá um 38 milljarða í skaðabætur, sem telja verður afar lága upphæð í ljósi þess tjóns sem þeir ollu bankanum og þjóðfélaginu með starfsháttum sínum. Ef til vill er þetta þó aðeins krafa vegna örlítils hluta skaðans sem hlaust af gerðum þeirra og að á næstunni komi fram hrina slíkra skaðabótakrafna.
Gott er til þess að vita, að rannsóknir á þeim gengjum sem þjóðfélagshruninu ollu skuli vera í fullum gangi og það eina sem skyggir á, er hvað þetta tekur allt langan tíma og að á meðan skuli meðlimir gengjanna ganga lausir og allt að því hæðast að rannsakendum og raunar þjóðinni allri.
Skuldabréf Björgólfs til sérstaks saksóknara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.