25.11.2010 | 15:29
Eru einhverjar framkvæmdir umhverfisvænar?
Skipulagsstofnun hefur birt niðurstöðu sína um umhverfisáhrif framkvæmda við Kröfluvirkjun II, Þeistareykjavirkjunar og Álvers á Bakka ásamt tilheyrandi háspennulínum og er niðurstaðan að sjálfsögðu sú, að framkvæmdirnar hafi mikil umhverfisáhrif og sum óafturkræf.
Varla er nokkur maður undrandi á þeirri niðurstöðu, því naumast er til sú framkvæmd sem ekki hefur áhrif á umhverfið og í flestum tilfellum varanleg og óafturkræf. Varanlegustu og mestu lýti á umhverfi sitt og flest hver óafturkræf, hefur uppbygging Reykjavíkur vafalaust haft og standa þau landsspjöll yfir enn þann dag í dag og sér alls ekki fyrir endann á þeim. Svipað má segja um alla aðra þéttbýlisstaði landsins og einnig á þetta við um hvern einasta sveitabæ og raunar hvert einasta atriði, sem skert hefur svo mikið sem eitt grasstrá í náttúrunni.
Úrskurður Skipulagsstofnunar setur þessar umhverfismetnu framkvæmdir alls ekki sjálfkrafa út af borðinu, heldur þarf að meta út frá öllum hliðum málsins hvort ásættanlegt sé, miðað við þann hag sem af framkvæmdunum má hafa, að ráðast í þær og koma þá atvinnumál á svæðinu til skoðunar ásamt öðru sem arðsamt gæti orðið vegna þessara framkvæmda. Einnig verður að meta hvort aðrir atvinnukostir, sem kalla á minna jarðrask séu í stöðunni, en hver sem verksmiðjan á Bakka yrði, þyrfti væntanlega að fara í virkjanirnar og línulagnirnar, annað hvort óbreyttar eða í eitthvað minna formi.
Ekkert mannanna verk sem hreyfir stein í náttúrunni er eða verður óumdeilt. Stundum þarf að meta mannlíf á móti gróðurlífi og meta hvort þeirra á meira tilkall til ákveðinna landssvæða og aldrei verða allir á eitt sáttir um hvort lífsformið á meiri rétt til lífssvæðanna.
Austur á Héraði hefur verið plantað ógrynni af barrtrjám, sem skerða munu allt útsýni á þessu fagra landssvæði í framtíðinni og mun því vafalaust verða þeim ferðamönnum til ama, sem hefðu viljað njóta náttúrunnar þarna óspjallaðrar áfram.
Hefur slík gróðursetning ekki varanleg landsspjöll í för með sér og fór sú ákvörðun um landbreytingu í umhverfismat?
Umtalsverð umhverfisáhrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vá, þú ert ekki í alvöru að meina þetta? Bera saman allt brambolt í sambandi við risavaxið álver við einhverjar gróðursetningar sem bæta landið okkar.
Úrsúla Jünemann, 25.11.2010 kl. 17:52
Það er nú alveg spurnig hvort þessi gróðursetning á Héraði flokkast undir landbætingu eða landspjöll. Í mínum augum er verið að skemma fallegt landslag með barrtrjám, sem alls ekki eru einu sinni íslenskar plöntur.
Fór þessi ákvörðun um landbreytingu í umhverfismat?
Axel Jóhann Axelsson, 25.11.2010 kl. 18:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.