Björgunarafrek í bankahruni

Ríkisstjórn Geirs Haarde og Seðlabankinn unnu mikið björgunarafrek í bankahruninu með því að ná að skipta bönkunum upp í "gamla" og "nýja", breyta kröfuröð þannig að innistæður hefðu forgang á skuldabréf og halda öllu greiðsluflæði opnu, þ.m.t. greiðslukortakerfi og þrátt fyrir gjaldeyrisþurrð tókst að koma í veg fyrir vöru- og lyfjaskort í landinu.

Ekkert af þessu var einfalt eða sjálfsagt og því mikið afrek miðað við þann skamma tíma sem gafst til að bregðast við, þegar útséð varð að bönkunum yrði ekki bjargað frá hruni.  Með þessu móti var þjóðarbúinu forðað frá "erlendum skuldum óreiðumanna" að upphæð a.m.k. áttaþúsundmilljörðum króna.  Þessar aðgerðir allar ollu miklum titringi í nágrannalöndum og urðu m.a. til þess að Bretar beittu hryðjuverkalöggjöf sinni gegn íslenskum hagsmunum, en jafnvel þeirri árás, sem líkja má við hernaðarárás á þjóðin, tókst að standast og að endingu neyddust Bretar til að afturkalla þá aðgerð sína og nýlega hefur breskur ráðherra beðist afsökunar á þessari efnahagsárás á vinaþjóð.

Því miður hafði þjóðin á þessum tíma ekki skilning á því björgunarafreki sem fyrrverandi ríkisstjórn vann þarna við erfiðar aðstæður og vegna mótmælaaðgerða á Austurvelli missti Samfylkingin kjarkinn og hljóp frá stjórninni og nýtti aðstæður til að neyða VG til að samþykkja innlimun í ESB, gegn ráðherrastólum.

Eftir því sem gleggri fréttir berast frá öðrum löndum um afleiðingar bankahrunsins og þau gríðarlegu mistök sem víða voru gerð til að bjarga bönkum og þær efnahagsþrengingar sem þær aðgerðir munu hafa í för með sér, mun skilningur á íslenska björgunarafrekinu í árslok 2008 vaxa og verða metið að verðleikum.

Í þessum efnum er nóg að líta til Bandaríkjanna, Írlands, Portúgals, Spánar og Grikklands svo nokkur lönd séu nefnd til sögunnar.  Því miður hefur ríkisstjórnin sem nú situr hér á landi hvorki skilning né getu til að fást við efnahagsástandið og því mun kreppan í kjölfar bankahrunsins verða mun lengri og dýpri en hún hefði orðið með alvöru fólki við stjórnvölinn.


mbl.is Fór með síðasta gjaldeyrinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þér Axel, sumir hafa enn ekki skilning á þessu. Það er mjög auðvelt að vera eftirásófaspekingur og segja að þetta eða hitt hefði átt að gera öðru vísi. Heilt yfir þá stóðu stjórnvöld sig vel í hruninu en kannski ekki svo vel fyrir hrun.

VG með SJS í broddi fylkingar reynir hvað hann getur til að endurrita og falsa söguna. Vonandi tekst honum það ekki og ég vona að fólk sjái í gegnum sögufalsið.

Björn (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 16:53

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

furðulegasta færsla sem ég hef lesið á bloggi mbl í þau ár sem ég hef bloggað hér.

Bjargað þjóðinni? Ég spyr hvað hefði gerst ef bankarnir hefðu verið látnir fara á hausinn eins og hver önnur fyrirtæki sem fara í þrot það er að segja allt tapast bæði innistæður og hlutabréf?  Eruð þið með svar við því?

Hvað VG og Samfó varðar þá er það rétt með endurritunina sama sukkið og sama spillingin og fyrir hrun!

Sigurður Haraldsson, 23.11.2010 kl. 17:10

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Já, það var sannarlega mikið afrek að tapa gervöllum gjaldeyrissjóðnum í hendur Kaupþings banka korteri fyrir lokun hans. HÓST!

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 23.11.2010 kl. 17:36

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, þú getur nú sagt þér það sjálfur að ekki hefðu verið stofnaðir neinir nýjir bankar, ef allar innistæður hefðu tapast og ekki hefði neitt greiðslukortakerfi gengið heldur. Þá hefði öll verslun og viðskipti í þjóðfélaginu lagst niður á einu bretti og hvert einasta fyrirtæki hefði lokað og þar með hefði atvinnuleysi orðið 100%. Endilega segðu frá því hvað þér finnst svona furðulegt við færsluna, fyrst þú hefur ekki séð neitt furðulegra á blogginu frá því að þú byrjaðir að fylgjast með því.

Arinbjörn, gjaldeyrissjóðurinn sem fór til Kaupþings kortéri fyrir hrun tapaðist ekki, því FIH bankinn í Danmörku var settur að veði fyrir láninu og nú er Seðlabankinn búinn að selja hann og mun fá allt sitt til baka og vel það.

Axel Jóhann Axelsson, 23.11.2010 kl. 18:33

5 Smámynd: Björn Birgisson

Axel, ég óska þér til hamingju með þessi björgunarafrek Geirs og Davíðs. Þeirra verður lengi minnst og ekki ólíklegt að þeir félagar verði heiðraðir sérstaklega fyrir þau, kannski með orðum frá Bessastöðum. Meira að segja segir Árni Matt í bókinni sinni að kortið hans hafi virkað í USA og hann því getað skilað síðustu dollurunum í Seðlabankann aftur, eftir að hafa verið með alla vasa fulla af þeim á fundum með AGS fólkinu. Enda ekki talið viturlegt að ganga um götur Washington með vasana úttroðna af glópagullinu hans Davíðs!

Björn Birgisson, 23.11.2010 kl. 18:34

6 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Er það ekki fulllangt gengið að hrósa Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa bjargað einum lampa úr húsinu sem þeir kveiktu í?

Og þó? Jú, jú, vel gert hjá þeim.

Breytir samt ekki því að þeir kveiktu í.

Hörður Sigurðsson Diego, 23.11.2010 kl. 18:35

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Björn, kortið hans Árna virkaði nú ekki bara si svona af sjálfu sér. Það þurfti að stofna heilt bankakerfi á einni nóttu, til þess að hann þyrfti ekki að verða sér til skammar í útlöndum.

Hörður, það var til að byrja með lánaþurrð erlendra bankakerfa, hrun nokkurra erlendra banka, t.d. Lemans Brothers, sem kom bankahruninu hér á landi af stað, en við fórum sérstaklega illa út úr þessum hörmungum vegna þess að það var ekkert orðið eftir í bönkunum, því stjórnendur þeirra og eigendur voru búnir að ræna þá innanfrá. Rannsóknarnefnd Alþingis staðfestir þetta og þrátt fyrir að stjórnmálamenn hefðu getað gert ýmislegt betur og öðruvísi en gert var í aðdraganda hrunsins, þá var það ekki þeim að kenna. Þeir hefðu ekki getað gert nokkurn skapaðan hlut til að forða því, enda vissi enginn að bankarnir væru reknir af glæpamönnum. Þú verður að muna það að þetta voru ekki ríkisbankar og því hafði ríkisstjórnin ekkert með rekstur þeirra að gera.

Þú ættir að spyrja Steingrím J. hvað hann ráði miklu um nýju bankana.

Axel Jóhann Axelsson, 23.11.2010 kl. 18:53

8 identicon

Sigurður! Axel er búinn að svara þér nánast eins og ég hefði svarað þér. Ég hef spurt marga sem hafa gagnrýnt neyðarlögin sömu spurningar og þeir svara henni aldrei því þeir vita að rétta svarið er það sem Axel bendir á, þjóðargjaldþrot og næstum 100% atvinnuleysi. Þessi leið sem var farinn er örugglega eins sú besta og ódýrasta sem hægt var að fara fyrir þjóðfélagið í heild.

Í grunninn er ég samt sammála þér að auðvitað eiga bankar að getað farið í þrot eins og hvert annað fyrirtæki og þeir sem lána þeim peninga eiga að bera tapið (þar með taldir innistæðueigendur). Því miður þá varð sú heimskulega breyting á bankakerfi heimsins að þeir urðu allir meira eða minna áhættubankar og innbyrðis svo háðir og tengdir að allt kerfið varð (er) mjög fallvallt. Kerfið á Íslandi var enn viðkvæmara af ýmsum ástæðum sumar raktar af Axeli hér að ofan. Ég vona að nýtt bankakerfi verði ekki byggt upp með þessari sömu kerfislegu áhættu (er hins vegar ekki sannfærður um að það sé reyndin í dag).

Björn (IP-tala skráð) 23.11.2010 kl. 20:32

9 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

"...lýsir hann frá sínum bæjardyrum bankahruninu, aðdraganda þess og eftirmálum og tildrögum þess að hann ákvað að segja skilið við stjórnmálin".

Á maður að hlæja eða gráta!? Er hann svo blindur að halda að hann hafi átt einhverja framtíð í íslenskri pólitík?

Jón Bragi Sigurðsson, 23.11.2010 kl. 20:38

10 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Axel, í færslunni segir þú: "Með þessu móti var þjóðarbúinu forðað frá "erlendum skuldum óreiðumanna" að upphæð a.m.k. áttaþúsundmilljörðum króna. Þessar aðgerðir allar ollu miklum titringi í nágrannalöndum og urðu m.a. til þess að Bretar beittu hryðjuverkalöggjöf sinni gegn íslenskum hagsmunum,.....

Í athugasemd segir þú svo: "Þú verður að muna það að þetta voru ekki ríkisbankar og því hafði ríkisstjórnin ekkert með rekstur þeirra að gera."

Hvernig stenst þá fyrri staðhæfing þín um að þjóðarbúinu hafi verið forðað frá "erlendum skuldum óreiðumanna" upp á 8.000 milljarða? Voru þessar skuldir ekki að stórum hluta til einkabanka og einkafyrirtækja? Ekki borgar sveitarfélag skuldir einkafyrirtækis eða einstaklings sem fer á hausinn. Það er tapað fé kröfuhafans. Hvers vegna á ríkissjóður að borga lán einkabanka?

Hvers vegna var beitingu hryðjuverkalaga ekki mótmælt harðlega og stjórnmálasambandi slitið samdægurs? Vegna þess að þessir aular vissu ekkert hvað þeir áttu að gera þessa daga! Tjónið sem beiting laganna olli verður aldrei metið til fjár. Að bera þessar liðleskjur Sjálfstæðisflokksins á höndum sér sem bjargvætti tveimur árum eftir hrun finnst mér ansi grátlegt. Sömu liðleskjur og töpuðu bönkunum þar á meðal Landsbankanum því ekkert var gert til að koma Icesave úr landi. Og ekki gerir núverandi ríkisstjórn betur með því að reyna semja um Icesave við sömu Breta og ollu hér ómetanlegu tjóni.

Það sem kröfuhafar um allan heim verða læra af þessari alþjóðlegu bankakreppu 2008 er að útlán fjármagns eru áhættuviðskipti. Sú áhætta er að útlánið tapist. Reikningurinn vegna bankagjaldþrots á ekki að fara til almennings neins staðar í heiminum. Sérstaklega ekki þegar um kerfishrun er að ræða eins og varð hér vegna vanhæfs regluverks og eftirlitsaðila. Við þurfum ábyrg útlán og regluverk til að krefjast slíkrar lánastefnu.

Erlingur Alfreð Jónsson, 24.11.2010 kl. 05:29

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Erlingur, þjóðarbúinu var forðað frá þessum erlendu skuldum óreiðumanna með setningu neyðarlaganna í stað þess að fara "írsku" leiðina, þ.e. að ríkissjóður tæki alfarið á sig allar ábyrgir vegna bankanna og þeir síðan starfræktir áfram í óbreyttri mynd. Margir íslenskir hagfræðingar og ráðgjafar vildu fara "írsku" leiðina, en ef það hefði verið gert, hefðu allar skuldbindingar bankakerfisins lent á íslenskum skattgreiðendum, því bankarnir hefðu með tímanum farið á hausinn vegna "bankaránanna" og þar með hefði íslenska ríkið orðið gjaldþrota og Íslendingar orðið skattaþrælar erlendra kröfuhafa um nokkurra hundraða ára skeið.

Vegna þess að "írska" leiðin var ekki farin, en neyðarlögin sett í staðinn var áframhaldandi viðskiptum og greiðsluferlum haldið opnum, ásamt því að peningaeign landsmanna var tryggð og með þessu móti var þjóðinni bjargað frá algerri neyð, þó margt hafi óhjákvæmilega tapast í svo miklu hruni.

Bankahrun á Íslandi olli ekki miklum titringi eitt og sér í hinum risastóra fjármálaheimi, en nú þegar ríkissjóðir margra Evrópuríkja eru við það að hrynja vegna bankahrunsins munu örugglega verðar gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að óábyrgur bankarekstur verði ekki látinn falla á skattgreiðendur framvegis. Vonandi fylgja ábyrg útlán og regluverk í kjölfarið.

Eitt er a.m.k. víst og það er að "lánatökuærin" á Íslandi eru liðin og nú fara "lánagreiðsluárin" í hönd. Það á ekki síst við um einstaklinga, sem framvegis munu verða krafðir um að eiga talsvert mikið eigið fé, ætli þeir að fá lán til fjárfestinga, ekki síst í íbúðarhúsnæði.

Tími algerlega nýrrar hugsunar í fjármálum er runninn upp, bæði hér á landi og annarsstaðar.

Axel Jóhann Axelsson, 24.11.2010 kl. 08:24

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Því má einnig bæta við, að með neyðarlögunum voru skuldabréf og aðrir pappírar sem óreiðumennirnir höfðu selt til útlendinga færðir aftur fyrir bankainnistæður í kröfuröðinni á þrotabúin og því verður skaðinn sem þjóðarbúið verður fyrir þúsundum milljarða minni, en annars hefði orðið.

Svo er bara að liggja á bæn og vona að neyðarlögin haldi fyrir dómi, því annars verður þjóðin gjaldþrota, en það var nú einmitt það sem reynt var að forða með setningu laganna. 

Haldi neyðarlögin, eins og allt bendir til að þau geri, þá verður þessarar aðgerðar minnst sem eins mesta, eða mesta, björgunarafreks í efnahagssögu þjóðarinnar.

Axel Jóhann Axelsson, 24.11.2010 kl. 14:23

13 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Sammála þér Axel. þetta vita þeir lík, Björn Birgis Sig Haraldsson Jón Bragi og "ofl. En vilja bara ekki viðurkenna það, en þeir hafa auðvitað sína skoðun á því. Allir eiga rétt á því.

Eyjólfur G Svavarsson, 3.12.2010 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband