Ríkisstjórn og þing skilningslaus á atvinnuleysisvandann

Atvinnuleysi mælist nú 6,4%, þar sem 11.400 manns eru á atvinnuleysisskrá, en það segir reyndar ekki nema hluta sögunnar, þar sem margir eru fallnir út af skránni vegna atvinnuleysis í meira en þrjú ár og a.m.k. 10.000 manns, sem voru á vinnumarkaði hafa snúið sér að námi eða eru flutt úr landi í atvinnuleit.  Því er þessi uppgefna tala um atvinnuleysi ekki upplýsingar um raunverulega töpuð störf, heldur aðeins frásögn af því hve margir eru að fá greiddar atvinnuleysisbætur um þessar mundir.

Ríkisstjórnin og þingmeirihluti hennar hefur ekki nokkurn skilning á því, að atvinnumálin eru undirstaða allrar uppbyggingar og framfara í landinu og ekki síst verður ekkert velferðarþjóðfélag byggt upp nema kröftugt atvinnulíf dafni í landinu.  Eina ráð ríkisstjórnarinnar í kreppunni er ítrekað skattahækkanabrjálæði á fyrirtæki og einstaklinga, sem þegar eru að kikna undan ástandinu og geta engum álögum á sig bætt, enda fækkar raungreiðendum stöðugt vegna gjaldþrota fyrirtækja og upplausnar heimila.

Alþingi, eins og ríkisstjórnin,  hefur greinilega öðrum hnöppum að hneppa en að hafa áhyggjur af atvinnumálunum, því ekki má gleyma stórmálum sem afgreidd hafa verið undanfarna mánuði, svo sem bann við ljósabekkjanotkun unglinga og súludans á nektarbúllum.

Og nú er þingið upptekið við að ræða tillögu nokkurra þingmanna um kjarorkulaust Ísland.  Eins og gefur að skilja, komast ómerkilegri mál ekki á dagskrá á meðan slík stórmál eru óafgreidd.


mbl.is 6,4% atvinnuleysi í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

kjornorkuvopn og geymsla þeirra hefur verið til stórvandræða hér á landi og löngu komin tími til að leysa þetta stærsta vandamál Íslands.Ef ekkert verður gert endar með því að menn detta um svoleiðis ófögnuð á almannafæri

Sigurbjörn Kjartansson (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 10:14

2 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Þetta er atvinnuleysi mælt á tímabilinu frá 1. júlí til 30. september.  Hætt er við því að lækkunina megi þá af einhverjum hluta rekja til þess að fyrirtæki hafi ráðið til sín fólk í afleysingar, vegna sumarleyfa.  Í september var t.d. 7,1% atvinnuleysi, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar.  Í dag þiggja 13250 manns atvinnuleysisbætur.  Af þeim fjölda eru 2600 ca. sem eru í hlutastarfi og þiggja bara hluta bótana.  En það breytir því ekki að það eru 13250 sem vantar fulla atvinnu hér landi, fyrir utan þá sem dottið hafa út af bótum, vegna langvarandi atvinnuleysis.

Það er alveg rétt Axel að mestur tími og orka stjórnvalda hefur farið í það að þvælast fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu og helst að gera fyrirtækjum það erfitt, að þau þurfi frekar að segja upp fólki, en að ráða nýtt.

Það virðist hins vegar gersamlega fara framhjá stjórnvöldum, að það skiptir engu máli hvað reiknimeistarar þeirra reikna í sambandi við skuldavanda heimilana, ef að ekki er næg atvinna í landinu.  Hvort sem að fólk á vandræðum með sínar skuldir eða ekki, þá er það að hafa vinnu og mannsæmandi tekjur, lykilforsenda þess að geta borgað af sínum lánum. Það er í sjálfu sér afskaplega lítill munur á því að geta alls ekki og geta hér um bil borgað sínar skuldir.

Kristinn Karl Brynjarsson, 26.10.2010 kl. 10:58

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Aðrar ríkisstjórnir en sú íslenska hafa skilning á því að atvinnumálin eru brýnustu úrlausnarefnin eftir allar kreppur og t.d. hafa írska ríkisstjórnin haft atvinnumál í algerum forgangi frá efnahagshruninu og veit sem er að þau eru brýnasta úrlausnarefnið.  Á Spáni eys ríkisstjórnin öllu því fjármagni sem hún getur í verklegar framkvæmdir og reynir þannig að koma lífi í framkvæmdir, enda atvinnuleysi hvergi meira en þar og ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því, að atvinna og verðmætasköpun er undirstaða alls annars í þjóðfélaginu.

Íslenska ríkisstjórnin hefur hins vegar beitt öllum sínum kröftum til að koma í veg fyrir þá atvinnuuppbyggingu sem þó hefur verið möguleg, enda skilningsleysið á grunnþörfum þjóðfélagsins algert.  Eins og þú segir Kristinn Karl, er lítill munur á því að geta alls ekki og geta hér um bil borgað skuldir sínar.  Á meðan þessi ríkisstjórn verður við völd mun færslan úr hópnum sem getur hér um bil borgað skuldir sínar yfir í hinn hópinn verða sívaxandi, sama hvaða "skuldaaðlögunarúrræði" stjórnin kemur með.  Þau munu aldrei gagnast á meðan atvinnuleysið helst svona mikið, en nýjustu spár segja að það verði nánast óbreytt a.m.k. fram á árið 2014.

Ekki er það glæsileg framtíðarsýn.

Axel Jóhann Axelsson, 26.10.2010 kl. 11:12

4 Smámynd: Jón Óskarsson

Hvað sem segja má um það að Ísland lenti á lista hinna viljugu þjóða varðandi Íraksstríðið þá get ég ekki séð hvernig það bjargar heimilunum í landinu né kemur hjólum atvinnulífsins af stað að eyða tíma Alþingis í að rannsaka orsakir þess að Ísland lenti á þessum lista.  Svona er Alþingi hvað eftir annað að eyða dýrmætum tíma í það sem ég hef kosið að kalla einu nafni "gæluverkefni" og á meðan er "Róm að brenna" fyrir utan glugga þinghússins.

Jón Óskarsson, 26.10.2010 kl. 14:58

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Allur aðdragandi samþykktarinnar um að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða liggur fyrir í skýrslum inni í Utanríkisráðuneyti, svo auðvelt ætti að vera að birta allt um málið ef vilji er fyrir hendi.  Skipun rannsóknarnefndar er eingöngu pólitísk sýndarmennska og hrein tímaeyðsla og meira en nóg annað fyrir þingið að gera, en að vera að sinna svona "gæluverkefnum".

Axel Jóhann Axelsson, 26.10.2010 kl. 15:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband