24.10.2010 | 21:36
Steingrímur J. er harðasti rukkarinn
Við setningu Alþingis sagði Jóhanna Sigurðardóttir að bankarnir hefðu dregið lappirnar vegna samninga við skuldara og undir það tók Steingrímur J. og bætti um betur með stóryrðum um stjórnendur bankanna og slóðaskap þeirra við að vinna með þau úrræði sem ríkisstjórnin hefði af mannkærleik sínum skammtað skuldugustu heimilum landsins.
Á það var þá strax bent að sá innheimtumaður, sem engin grið gæfi í innheimtum og neitaði algerlega að semja um eftirgjöf, eða niðurfellingu skulda, væri Steingrímur J. sjálfur, eða umboðsmenn hans, sem gegna innheimtustörfum fyrir ríkissjóð.
Þetta staðfestir einstæð móðir, sem var í námi sem hún hrökklaðist úr vegna ósveiganleika innheimtumanna ríkissjóðs í hennar fjárhagserfiðleikum, en skatturinn og LÍN kröfðust uppboðs á íbúð hennar, en allir aðrir lánadrottnar hennar voru tilbúnir til samninga um kröfur sínar.
Í tölvubréfi konunnar til þingmanna segir m.a: Ef alþingismönnum er í raun alvara með því að koma til móts við skuldsettar fjölskyldur í stórum vanda þá má kannski byrja á að líta til eigin krafna ríkisstofnanna sem eru að nauðbeygja fólk og krefjast nauðungarsölu. Innheimtuaðgerðir ríkisins sjálfs er þær sem engan grið gefa.
Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um þessa innheimtuhörku Steingríms J. og undirmanna hans, hefur hann ekki hreift legg eða lið til að liðka til fyrir þeim sem í vanskilum eru við ríkisstofnanir. Jafnvel þeir sem leitað hafa eftir sértækri skuldaaðlögun hafa komið að algerlega harðlokuðum dyrum hjá undirmönnum Steingríms J. og á því hefur öll aðstoð strandað.
Ekki er nóg með að Steingrímur J. sé harðsvíraðasti rukkari landsins, heldur er hann einnig sá falskasti, þar sem hann reynir að kenna öllum öðrum en sjálfum sér um að ekkert skuli ganga við úrlausn þeirra skuldsettustu, sem engan veginn geta ráðið við skuldasúpu sína.
Gat ekki samið við LÍN | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Steingrímur hefur a.m.k. ekki sýnt neina viðleitni til að stöðva þessa vitleysu og ber pólitíska ábyrgð á þessu máli. Í Brelandi hefði hann verið látinn segja af sér! Hvorki framkvæmdastjóri né stjórn LÍN virðast hafa kjark til að hafa sjálfstæða skoðun á málum og án tillits til aðstæðna. Reyndar gildir þetta um fleiri stofnanir. Það er búið að svínbeygja stofnanir til að skila árangri - iðulega á kostnað þeirra sem þær eiga að þjóna!
Jónas Egilsson, 24.10.2010 kl. 22:01
þetta er mikil gleðifrétt fyrir þá sem hata ríkisstjórnina og vilja sjálfstæðissossana aftur til valda. Þegar kerfið kúkar á sig eins og þarna vegna þess að stjórnsýslan er langt á eftir þörfum almennings, þá hlakkar í andstæðingum núverandi ríkisstjórnar. En raunin er sú að trénað kerfið varð ekki til á síðustu tveimur árum heldur hefur verið að úldna árum og áratugum saman, og þá alls ekki síst hjá LÍN. Hverjir bera mesta ábyrgð á því skal ósagt látið.
En það er samt ástæða til að óska Ax J.Ax og fleirum til hamingju með að geta nýtt sér neyð annarra til áróðurs í þágu eigin skoðana.
drilli, 24.10.2010 kl. 22:59
Þetta mál snýst ekki um kerfi, sem hefur verið að úldna áratugum saman. Þetta snýst um lagasetningu ríkisstjórnarinnar, í fjórgang á undanförnu ári, til aðstoðar skuldugustu heimilunum í landinu. Aldrei hefur Steingrími J. á þessum tíma dottið í hug að láta ríkissjóð taka þátt í skuldaaðlögun þessara heimila, heldur þvert á móti látið undirmenn sína halda áfram innheimtum sínum af fullri hörku, enda er ríkissjóður helsti uppboðsbeiðandi íbúða um þessar mundir, en ekki bankarnir eða aðrir skuldheimtumenn.
En það er ástæða til að óska Drilla til hamingju með að átrúnaðargoð hans skuli standa fyllilega undir væntingum og vonum hans í innheimtuhörkunni.
Axel Jóhann Axelsson, 25.10.2010 kl. 07:56
Ef úr orðum mínum hér að ofan var lesið hrós um Skallagrím þá verður svo að vera.
En það kemur svosem ekkert á óvart að fyrir sumum sé veröldin svarthvít.
Vonandi verða þessi mál leyst farsællega, og það sem fyrst
drilli, 25.10.2010 kl. 09:33
Það slær kannski soldið skökku við að einu viðbrögðin við þessari frétt, koma í rauninni frá Menntamálanefnd Alþingis. Hvorki menntamála né fjármálaráðherra, sjá ástæðu til að kalla framkvæmdastjóra LÍN á sinn fund og er þó menntamálaráðherra æðsti yfirmaður LÍN og fjármálaráðherra er yfirmaður innheimtumanna ríkissjóðs.
Menntamálanefnd, getur í rauninni ekki gert betur, en hvatt framkvæmdastjóra LÍN til þess að beita öðrum vinnubrögðum, eða þá lagt fram frumvarp í þinginu, sem breytir vinnubrögðum LÍN. Ráðherranir tveir, geta hins vegar leyst þetta mál og önnur af sama meiði samdægurs, hafi þeir á því einhvern sérstakan áhuga.
Kristinn Karl Brynjarsson, 25.10.2010 kl. 12:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.