4.10.2010 | 14:01
Björgunarsveit fyrir heimilin
Steingrímur J. talar tungum tveim, eftir því hvort hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu og það er neyðarlegt að hlutst á orð hans og fleiri þingmanna, sem þeir létu falla á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu, miðað við hvernig talað er þegar stjórnarseta tekur við og má t.d. benda á hvernig Steingrímur talaði um AGS og Icesave á meðan hann var í minnihluta og svo hvernig hann talar um sömu hlutina núna.
Ríkisstjórnin virðist hafa þurft tæp tvö ár til að skilja, að gífurlegur fjöldi heimila í landinu er í verulegum kröggum og íbúðir þeirra munu verða seld á uppboðum á næstu mánuðum og fólk á öllum aldri mun lenda á götunni, eða upp á náð og miskunn ættingja, sem hugsanlega gætu hýst einhverja í svefnpokum á dýnum á stofugólfunum hjá sér um einhvern tíma. Slíkt er þó auðvitað algerlega óásættanlegt og engin lausn fyrir fólk, sem lendir í þeirri ógæfu að missa heimili sitt ofan á aðra erfiðleika, t.d. atvinnuleysi.
Þegar fólk villist í óbyggðum, skip lenda í sjávarháska eða önnur óhöpp verða, er alltaf kallað á björgunarsveitir til aðstoðar og hafa þær unnið mikið og óeigingjarnt starf í gegnum tíðina og bjargað ótal mannslífum. Nú þegar fjöldi manns lendir í ógæfu vegna skuldsetninga, sem engu máli skiptir í raun hvernig til eru komnar, og er að missa heimili sín, er ekki hægt að ætlast til að björgunarsveitir sjálfboðaliða geti komið þar til bjargar, heldur verður að ætlast til þess að ríkisvaldið og sveitarfélögin hafi frumkvæði að slíku, enda ber þeim lagaleg skylda til þess.
Íbúðalánasjóður hefur eignast mörg hundruð íbúðir á undanförnum mánuðum, en hefur ekki lagaheimild til að leigja þær út, enda lánastofnun og einbeitir sér að fjármögnun íbúðarkaupa. Hins vegar gæti ríkið og ætti, að stofan leigufélag um þessar íbúðir, þannig að nýtt félag keypti þessar íbúðir af Íbúðalánasjóði og leigði þær síðan út til fólks, sem hefur misst eignir sínar og er á vergangi með börn sín. Leigan yrði að vera í takt við leigu á almennum markaði, sem reiknast út frá þeim kosnaði, sem húseigandinn leggur út vegna hins leigða og nýtt ríkisfélag ætti að vera hrein viðbót við leigumarkaðinn, en ekki sett til höfuðs einkaaðilum á þeim markaði.
Þegar neyð ríður yfir, verður að grípa til neyðarráðstafana og ekki hika í mörg ár, eins og því miður er staðreyndin með núverandi ríkisstjórn.
Líta mótmælin öðrum augum nú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ágæt grein hjá þér Axel, en ég verð að leiðrétta eina smávillu. Íbúðalánasjóður hefur heimild til útleigu á húsnæði í hans eigu og er að leigja út allt það húsnæði sem hann getur.
Íbúðalánasjóður fékk þessa heimild í fyrra og hefur leigt allt það húsnæði sem hann hefur eignast og hægt hefur verið að leigja út. Hins vegar er allt húsnæðið sem hann hefur eignast ekki enn komið til enda í uppboðsferlinu og getur sjóðurinn því ekki boðið það til sölu eða til leigu strax. Einnig eru sum af þessum íbúðum bara alls ekki tilbúin og þar af leiðandi ekki hægt að leigja þau út. Hins vegar er sjóðurinn ekki að bjóða húsnæði sem hann á til leigu á stöðum þar sem nægt leiguhúsnæði er fyrir sem stendur tómt, enda ekki hlutverk hans að eyðileggja þann leiguhúsamarkað sem þó er enn starfandi.
Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 4.10.2010 kl. 14:45
Sælir berjumst til réttlætis! Lifi lýðræðið!
Sigurður Haraldsson, 4.10.2010 kl. 14:52
Sigurður Geirsson, þessi heimild til Íbúðalánasjóðs hefur greinilega farið fram hjá mér og finnst endilega að það sé stutt síðan ég heyrði eða sá, að hann sæti uppi með fjölda íbúða og mætti ekki leigja þær. Hins vegar væri sennilega betra að koma þessum íbúðum yfir í sérstakt leigufélag, sem keypti íbúðirnar á fullu verði (markaðsverði) og leigði þær síðan út á sömu kjörum og gildir á frjálsum markaði. Þegar ástandið færi að skána aftur í þjóðfélaginu gæti þetta félag selt íbúðirnar smátt og smátt, annað hvort til leigjendanna eða á frjálsum markaði.
Svona leigufélag gæti líka keypt íbúðir sem aðrar lánastofnanir eru að láta bjóða upp, því ekki eru öll fasteignauppboðin vegna krafna frá Íbúðalánasjóði. Einhvers staðar verður þær fjölskyldur, sem missa húsnæði sitt að búa og frjálsi leigumarkaðurinn tekur ekki við öllum þeim fjölda, sem verður heimilislaus á næstunni.
Fyrirsjáanleg er alger neyð í þessu efni og hún kallar á neyðaraðgerðir og það strax.
Axel Jóhann Axelsson, 4.10.2010 kl. 15:01
Það er nú reyndar spurning hvort Íbúðalánasjóður, sé hæfur til annars eða gera ekkert. Alla vega gekk ekki betur en svo að ráða framkvæmdastjóra sjóðins, að búið er að auglýsa stöðuna aftur, því að stjórn sjóðsins var ekki sammála þáverandi félagsmálaráðherra.
Það er reyndar leiguúrræði í boði fyrir fólk sem missir húsnæði sitt. Þegar mál Magnúsar Magnússonar var í hámæli, þá var þess þó getið, að aðeins 47 af einhverjum hundruðum, hefðu ekki séð sér hag í að nýta það úrræði. Í þessu úrræði þá er leiguverðið reiknað út frá fasteingamati eignarinnar. Stuðullinn fyrir þá leigu er ca 45000 kr fyrir hverjar tíu milljónir í fasteignamati eignarinnar. Þannig að fyrir íbúð sem metin er á 20 milljónir, þá er leigan ca. 90 þús kr.
Ekki veit ég hvað venjuleg fjölskylda í greiðsluvanda, sé að sligast undan miklum afborgunum á lánum frá Íls. að meðaltali, eða hver sé meðaltals greiðslugeta slíkrar fjölskyldu. En ef að við gefum okkur það að talan sé nálægt 100.000 kr. í báðum tilfellum, þá eru íbúðir metnar á rúmlega 20 milljónir orðnar of dýrar í leigu fyrir þá hópa, enda leigan, annað hvort í námunda við þá upphæð, sem lántaki réð ekki við og varð til þess að hann missti íbúðina, eða þá hærri. Einhvers staðar heyrði ég þau rök fyrir láta fasteignamat ráða leiguverði, væri beiting jafnræðisreglunnar, en hvort sem að það sé þess vegna eða ekki, þá hefðu stjórnvöld mátt úthugsa þetta úrræði sitt betur. Það kostar líka offjár fyrir Íbúðalánasjóð, að láta íbúðir standa auðar.
Líklegast væri þá auðveldasta leiðin, ef ekki má víkja frá fastaeignamatinu, að komið væri til móts við fólk með einhverjum skattalegum úrræðum. Metið hvort húsnæði það sem fólk missir, sé of stórt miðað við eðlilegt "norm". Sé svo að fólk sé í "of stóru" húsnæði, þá beina því í annað ( helst í sama hverfi, sé um barnafólk að ræða), annars leyfa fólki að leigja það sem það átti í x- tíma með forkaupsréttarákvæði. Reiknuð yrði þá út, út frá tekjum fólks hversu mikið fólk gæti borgað, t.d. 30-50 þús, fyrir hverjar 100 þús kr. í tekjum, þannig að barnlaus einstaklingur án atvinnu myndi greiða á bilinu 45- 75 þús í leigu. Ríkið gæti svo tekið á sig, mismuninn ef einhver er miðað við fasteignamatsviðmiðið. Eins þyrfti að útfæra þetta á annan hátt fyrir hjón og barnafólk.
Kristinn Karl Brynjarsson, 4.10.2010 kl. 16:16
Er ekki hæpið að margar fjölskyldur séu að fara á vonarvöl vegna 80-100 þúsund króna afborgana af lánum frá Íbúðalánasjóði? Er ekki líklegra að skuldavandinn sé stærri og meiri en það, t.d. lán frá bönkunum, sem lánuðu nánast ótakmarkaðar upphæðir til íbúðakaupa og fólk ráði svo ekki við lánin lengur vegna atvinnuleysis eða tekjuskerðingar? Svo eru auðvitað margir sem hafa skuldsett sig fyrir fleiru en íbúðinni og lent í vanskilum, sem síðan hafa verið að hlaða á sig kostnaði, sem fólk ræður ekkert við.
Þetta húsaleiguviðmið, 45 þús. fyrir hverjar 10 milljónir virðist ekki vera sanngjörn leiga, miðað við það sem gengur og gerist á frjálsa markaðinum, en mér skilst að úrræðið um að leigja þá íbúð, sem viðkomandi var að missa, sé aðeins til eins árs, en öruggt er að fæst af þessu fólki verður komið í nokkur færi til að kaupa sér íbúð aftur innan þess tíma og því verður að finna önnur og varanlegri úrræði.
Það mun taka að minnsta kosti 10 ár að koma þjóðfélaginu á eðlilegt skrið aftur eftir að þjóðin losnar við núverandi ríkisstjórn.
Axel Jóhann Axelsson, 4.10.2010 kl. 16:33
Nei fólk er auðvitað að borga af öðrum lánum en Íls lánum. En ég tók bara dæmi, jafnvel oraunhæft, en markmiðið með dæminu var líka fyrst og fremst það, að benda á þá nauðsyn að þolandinn (sá sem missir eignina), sé boðið eitthvað raunhæft til lausnar.
En svo eru auðvitað önnur lán, bílalán t.d. Þegar tekið er bílalán, þá er í rauninni ekki talað um annað en að lánið sé lánað gegn veði í bílnum. Bílinn er ekki húsið þitt eða einhver önnur eign sem þú kannt að eiga. Það þarf að slíta á þennan "veðvef" sem að fjármálafyrirtækin virðast geta komið sér upp. Ef að bankinn er nógu vitlaus til þess að lána fyrir bíl 100%, þar sem afföll á bílverðum eru löngu orðin ljós, þá verður bankinn bara sjálfur að taka afleiðingum gjörða (heimsku) sinnar.
Kristinn Karl Brynjarsson, 4.10.2010 kl. 16:53
Auðvitað ætti ekkert að vera til tryggingar láni, annað en það sem keypt er fyrir það, þannig að ef keyptur er bíll gegn láni, þá ætti ekkert annað en bíllinn að vera veð fyrir því. Sama ætti að gilda um íbúðir og hvað annað.
Þetta fyrirkomulag myndi að vísu verða til þess að lánshlutfall af kaupverði myndi lækka mikið og færi sjálfsagt aldrei upp fyrir 50-60% af verði hins keypta, en gerði á móti kröfu um miklu meiri sparnað einstaklinga upp í kaupverð hlutanna, en áður hefur tíðkast hér á landi.
Axel Jóhann Axelsson, 4.10.2010 kl. 17:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.