24.9.2010 | 09:44
Matarúthlutunaraðferðum verður að breyta
Matar- og fataúthlutanir til fátæks fólks eru ekki nýjar af nálinni á Íslandi, því Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur var upphaflega stofnuð 20. apríl 1928 og síðan var félagið endurskipulagt og gert að sjálfstæðri stofnun 1939, þannig að aðstoð félagsins við þá sem aðstoð þurfa teygir sig aftur fyrir lýðveldisstofnun. Síðan hafa fleiri félagasamtök bætst við, t.d. Hjálpræðisherinn, Hjálparstofnun kirkjunnar, Samhjálp, Fjölskylduhjálp Íslands o.fl.
Það er því alrangt, sem fram kemur frá "fræðimanninum" Hörpu Njáls, eða eins og segir í fréttinni: "Harpa Njáls félagsfræðingur segir að yfirvöld hafi búið vandamálið til á 10. áratugnum." Ekki verður séð til hvers verið er að blanda pólitískum lygaáróðri inn í þetta vandamál, sem því miður hefur verið viðvarandi í þjóðfélaginu lengi og aukist mikið eftir efnahags- og bankahrunið.
Aðferðin við úthlutanir er hins vegar gölluð og niðurlægjandi fyrir þá sem þurfa að nýta sér hana, en nokkurra tíma biðraðir í kulda og trekki eru ekki sæmandi og nýja aðferð við þessa aðstoð og aðstöðuna til hennar þarf að stórbæta. Reykjavíkurborg hlýtur að geta lagt til rúmgott húsnæði undir þessa starfsemi með rúmgóðum biðsal fyrir skjólstæðingana og góðri aðstöðu til úthlutunar þeirrar vöru, sem til afhendingar er hverju sinni.
Einnig er umhugsunarvert hvort ekki sé hægt að úthluta skjólstæðingunum ákveðnum tímum til að mæta á, þannig að hægt væri að dreifa álaginu meira og hlyti slíkt að vera bæði þeim sem að þessum málum vinna og þeim sem aðstoðar njóta til hagræðis.
Eina varanlega lausnin er hinsvegar að eyða vandamálinu og fátæktinni algerlega, en þar sem slíkt er líklega fjarlægur draumur, verður að vinna að úrbótum á núverandi aðferðum við þessa aðstoð.
Matargjafirnar einsdæmi á Norðurlöndum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef að hugmyndir þínar ganga eftir um huggulegt húsnæði þá á auðvitað að leggja niður sveitarfélögin. Það er fráleitt að almenningur sé skattlagður til sveitarfélaga ef þeir svo bara hverfa. 'A sveitarfélögum hvílir framfærsluskylda-sem þau hafa ekki sinnt-. Mæðrastyrksnefnd var stofnuð á þeim tíma þegar Ísland var samfélag en án velferðarkerfis. 1928 voru hér engar almannatryggingar.
Harpa er hér að tala um að þegar Ísland breyttist í Ræningjabæli á tíunda áratugnum og það að engin velferð er í boði og fátækt fólk þarf að treysta á matargjafir til að framfleyta sér Á TÍUNDA ÁRATUGNUM og í byrjun TUTTUGUSTUOGFYRSTUALDAR þegar þær þjóðir sem við erum í Norðurlandasamstarfi með búa við velferðarkerfi.
Einar Guðjónsson, 24.9.2010 kl. 09:56
Ég er nú orðinn það gamall að ég man vel eftir bæði matar og fataúthlutunum til fátækra alveg frá því að ég var krakki, þannig að þetta ástand skapaðist ekki á tíunda áratugnum og var ávallt í nokkuð föstum skorðum, þangað til eftir hrun að eftirspurn eftir þessari aðstoð jókst mikið.
Á lýðveldistímanum hafa verið ríkisstjórnir allra flokka við völd á Íslandi og engri þeirra hefur tekist að útrýma fátækt í landinu, þannig að það er bara til að drepa málum á dreif, að reyna að gera einhverja ákveðna flokka ábyrga fyrir þeirri fátækt sem ávallt hefur verið að finna í þjóðfélaginu.
Nær væri að taka heilsteypt á vandanum og annaðhvort fari sveitarfélögin að sinna framfærsluskyldu sinni, þó efast megi um að öll þeirra hafi til þess fjárhagslegt bolmagn, eða þau skapi a.m.k. viðunandi aðstöðu fyrir hjálparsamtökin til að sinna þessum málum.
Axel Jóhann Axelsson, 24.9.2010 kl. 10:07
En að hafa þetta bara þannig að fólk getur sótt um matarstyrk þar sem það fær inneign t.d. í Bónus og/eða Krónunni? Fólk myndi svo fá þetta í gjafakorti svona svipuð eins og þau sem verslunarmiðstöðvarnar eru að selja. Þá áttu bara þína inneign og getur valið hvað þú vilt kaupa fyrir hana.
Verslanirnar gætu meira að segja tekið þátt í þessu og sett á afslátt fyrir þessi kort, það yrði góð herferð fyrir þeirra ímynd.
Geiri (IP-tala skráð) 24.9.2010 kl. 11:21
Geiri, þessi hugmynd þín er allrar athygli verð, ekki síst vegna þess að fólki finnst niðurlægjandi að þurfa að standa í biðröðunum eftir þessari aðstoð. Gallinn á henni er kannski sá, að það eru bara ákveðin fyrirtæki sem taka þátt í því að leggja til vörurnar sem úthlutað er, þannig að fólkið hefur ekki val um þær vörur sem það fær úthlutað hverju sinni.
Best væri að sveitarfélögin tækju við þessari skyldu sinni og þá gæti hugmynd þín vafalaust komið vel til greina.
Axel Jóhann Axelsson, 24.9.2010 kl. 11:52
Ég er ekki alveg að fatta þig. Fólk myndi fá að velja þær vörur sem það kaupir fyrir einneignina og það yrði hægt að hafa samning við fleiri en eina verslunarkeðju í einu. Úrvalið yrði töluvert betra en hjá núverandi fyrirkomulagi.
Ég er ekki að tala um að fyrirtækin borgi fyrir þetta ég vil auðvitað að sveitarfélög og fleiri aðilar komi að því að leggja inn á inneignirnar.
Geiri (IP-tala skráð) 24.9.2010 kl. 14:03
Geiri, ég var einmitt að segja það, að með núverandi fyrirkomulagi gæti hugmyndin ekki gengið upp, vegna þess að ákveðin fyrirtæki leggja fram vörur til hjálparsamtakanna, en ekki beinharða peninga sem hægt væri að leggja inn á svona kort.
Ef sveitarfélögin tækju að sér að fjármagna þetta, jafnvel í samvinnu við verslanir og birgja, þá gæti þetta fyrirkomulag með kortin sennilega getað virkað vel. Kerfið á þessum málum þarf að gjörbreytast frá því sem það er núna, til að hægt væri að koma þessu fyrirkomulagi í framkvæmd.
Axel Jóhann Axelsson, 24.9.2010 kl. 14:24
Axel, þetta er í fyrsta skipti sem ég er þér sammála. Þ.e. þegar þú talar um önnur úrræði en matarbiðraðir til hjálpar þeim sem minnst mega sín í samfélaginu. Ég veit ekki hvort það er framkvæmanlegt, en er ekki betra að fólk fái bara einhverskonar innlegg, eða jafnvel ávísun sem það getur skipt, og farið síðan og keypt í matinn, sem það myndi að öllum líkum gera í þessum "lágvöruverðs verslunum".
Það er alveg jafn augljóst, að ef þú framvísar einhverkonar fátæktarkorti, hver þú ert og hvar þú ert staddur, bara á næsta hliðarsporispori við matarbiðröðina, og þar af leiðandi jafn mannskemmandi og sárt. Ég er alveg fullkomnlega sannfærð um að þetta er mannskemmandi. Fólk sem lifði sátt við sitt, með nóg fyrir sig og sína, fer að hatast út í samfélagið sem fer svona með það.
Börnin hlusta á foreldrana sem eru örmagna ð rífast út af þessu, og ef ekki verður gripið í taumana strax, fer þetta að breytast í samfélag eins og þau sem hafa risið upp í Austur Evrópu á liðnum árum og við hérna höfum ekki farið varhluta af. Þetta gæti hreinlega orðið byrjunin á smákrimmasamfélagi sem hefur engin lög, þegar þessar ómótuðu sálir halda að þær geti bjargað heimilinu.
Ég var satt að segja dálítið hissa að svona forstokkaður íhaldsseggur gæti einhversstaðar verið á sömu skoðun og ég. Mér finnst þú nefnilega alltaf gleyma hverjir voru við stjórn þegar hrunið varð og hverjir bera í raun og veru ábyrgðina. Að láta sér detta í hug að ástandið sé ráðvilltri ríkisstjórn Íslands í dag að kenna er bara út í hött. Að vísu hefur ástandið ekki batnað, en við hverju var að búast eftir sofandahátt og stjórnmálaspillingu áranna á undan? Það er ekkert sem heitir Steingrímur þetta Jóhanna hitt. Ég held að Íslendingar verði bara að koma sér saman um nýtt stjórmálakerfi, alveg frá grunni. Þetta er orðið svo rotið og spillt innanfrá allt saman að kominn er tími til að stinga upp, og sá upp á nýtt.
Bergljót Gunnarsdóttir, 24.9.2010 kl. 15:33
Bergljót, við þessir forstokkuðu íhaldsseggir höfum alltaf viljað styðja við bakið á þeim sem af einhverjum ástæðum þurfa á aðstoð að halda og jafnframt viljað stuðla að því að sem flestir væru sjálfbjarga, í eigin húsnæði og gætu verið stoltir af sér og sínum. Alltaf þarf þó að styðja við hina, sem af ýmsum ástæðum lenda í vandræðum og þá á að gera það á þann hátt að sá, sem aðstoðar nýtur geti gert það án þess að líta á það sem einhverja niðurlægingu að þurfa á slíkri aðstoð að halda, hvort sem það er tímabundið eða til lengri tíma.
Það var m.a. í anda þeirrar stefnu sem íhaldsmenn í borgarstjórn hættu að hafa heilu blokkirnar sem félagslegar íbúðir og jafnvel heilu hverfin, en dreifðu slíkum íbúðum út um borgina, þannig að þeir sem á félagslega húsnæðinu þurfa að halda búi innan um og saman við þá sem eiga, eða leigja húsnæði á almenna markaðinum og skeri sig þar með ekkert úr öðrum íbúum hverfanna. Sú þróun, sem nú er að verða, að útlendingar séu byrjaðir að safnast meira í sum hverfi en önnur gæti hins vegar orðið varasöm í framtíðinni og þyrfti með öllum ráðum að reyna að koma í veg fyrir að "gettó" t.d. fólks af asískum uppruna myndist í borginni. Slíkt væri ekki gott til framtíðar litið og reynslu annarra landa.
Ef tekin væri upp bein peningaaðstoð í stað martar- og fataúthlutananna yrði það að vera í formi innlagnar á venjulega bankareikninga, þannig að kort þeirra sem aðstoðarinnar nytu, skæru sig ekkert frá kortum annarra, sem væru að versla, því eins og þú segir væri það ákveðin niðurlæging að þurfa að framvísa einhverju "fátækrakorti" og jafnvel þurfa að hlusta á einhverjar athugasemdir annarra í kassaröðinni, því alltaf er misjafn sauður í mörgu fé.
Varðandi hrunið, þá hef ég alltaf haldið því fram að það hafi fyrst og fremst verið glæpamönnum að kenna, sem ekki frömdu glæpaverk sín í nafni neinna stjórnmálaflokka, eða samkvæmt stefnu þeirra. Glæpamenn eru örugglega ekki að hugsa um pólitík á meðan þeir undirbúa og framkvæma glæpi sína og öll fangelsi veraldar eru uppfull af fólki, sem aðhyllist hinar ýmsu stjórnmálastefnur. Engum dettur þó í hug að tengja glæpi þeirra við stjórnmálaflokka landanna sem þetta fólk býr í.
Glæparekstur er algerlega óskyldur einkarekstri.
Axel Jóhann Axelsson, 24.9.2010 kl. 16:10
Alveg sammála um að glæparekstur er óskydur einkarekstri, það er ef einkareksturinn er heiðarlegur.
En pólitíkusarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, sváfu svo sannarlega á verðinum eftir að hafa einkavætt allt sem var hægt að einkavæða, og úthluta nánast eigum þjóðarinnar, fyrir smánarpening oft og tíðum, til vildarvina, sem brugðust síðan við með því að hefja darraðadansin sem lauk á þann hátt sem öllum er kunnugt. Alveg rétt, þeir dönsuðu ekki í nafni flokkanna, bara misnotuðu þá meðan þeir sváfu á verðinum. Vegna þessa alls, er ég alltaf að reyna að segja mig úr Sjálfstæðisflokknum, en það virðist bara ekki hægt.
Þetta er samt ekki sá grundvöllur sem ég vil ræða þessi mál á, því umræðan núna snýst um hvernig má helst styðja við bakið á þeim sem minnst mega sín í samfélaginu og ég vil ekki draga hana niður á þetta þetta, fyrirgefðu, "pólitíska skítaplan".
Að öðru leyti hef ég ekkert meir um málið að segja. Eigðu góðan dag!
Bergljót Gunnarsdóttir, 24.9.2010 kl. 16:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.