Ógeðslega ámælisvert að vera ósammála Atlanefndinni

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sparaði ekki stóru orðin í ræðu sinni á Alþingi, þar sem hún skammaðist út í Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vera ekki sammála niðurstöðu Atlanefndarinnar um að meiri líkur en minni væru á að fyrrverandi ráðherrar myndu verða sekir fundnir um ýmis lögbrot fyrir Landsdómi.  Væntanlega hafa aðrir þingmenn, sem lýst hafa sömu efasemdum átt sinn hlut í þessari vænu illindasneið.

Við stofnun Atlanefndarinnar hefur varla fylgt henni í vöggugjöf loforð hvers einasta þingmanns úr öllum flokkum um að þeir myndu samþykkja steinþegjandi og hljóðalaust allt sem frá nefndinni kæmi, án tillits til eigin skoðana á málinu og sekt eða sakleysi fyrrverandi og núverandi ráðherra.  Þetta fyrirkomulag á því, hvort stefna skuli ráðherrum fyrir Landsdóm er algerlega ótækt, þar sem allir hefðu átt að geta sagt sér fyrirfram, að afstaða til niðurstöðu nefndarinnar væri líkleg til að falla í pólitískt þref, í þeim anda sem þingmönnum einum er lagið.

Úr því sem komið er getur þingið ekki komist skammlaust frá málinu öðruvísi en að skipa fimm manna óháða nefnd sérfræðinga til að fara yfir málið og lýsa yfir fyrirfram, að þingið muni samþykkja tillögur þeirrar nefndar um að stefna, eða stefna ekki, þeim fyrrverandi og núverandi ráðherrum, sem nefndin kæmist að niðurstöðu um.  Þingmenn myndu nánast skuldbinda sig fyrirfram um að una slíkri niðurstöðu og fara eftir henni í einu og öllu.

Slík niðurstaða myndi ekki einungis róa almenning, heldur líka þingheim sjálfan.


mbl.is „Ógeðsleg“ framganga Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Algjörlega sammála þér í þessu efni.

Þingmenn og ráðherrar hljóta að hafa leyfi til að hafa sina skoðun, tjá hana og jafnvel skipta um skoðun. Taka sönsum.

Það er komið að því að Margrét Tryggvadóttir sætti sig við að við hin höfum ekki endilega sömu skoðun og við öll, bæði ég og hún og allir aðrir, þurfum að sætta okkur við að aðrir geta haft aðra skoðun á einhverju en við.

Tillaga þín, eða hugmynd um eins konar gerðardóm í þessu landsdómsmáli, finnst mér allrar athygli verð, en hún mun þó ekki ná fram að ganga, því það verður rifist um framkvæmd hennar út í eitt.

Jón Halldór Guðmundsson, 21.9.2010 kl. 15:35

2 Smámynd: corvus corax

Þetta snýst ekki um að vera ósammála Atlanefndinni, heldur um þá aðferðafræði forsætisráðherra að kasta skít í þá sem störfuðu í nefndinni að lögum og eflaust líka af fullum heilindum. Þess vegna er skítkast Jóhönnu svona alvarlegt ...það hefur ekkert að gera með að vera sammála nefndinni eða ekki. Sorglegt þegar menn skilja ekki um hvað málin snúast heldur búa sér til sinn eigin skilning sem á ekkert skylt við veruleikann. Slíkur aulamisskilningur gefur til kynna að viðkomandi hafi greindarvísitölu á við dauðan kött.

corvus corax, 21.9.2010 kl. 15:46

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Málið er greinilega komið í óleysanlegan hnút í þinginu og almenningur mun vægt sagt verða óánægður með að pólitísk hrossakaup ráði því, hvort og þá hverjum yrði stefnt fyrir Landsdóm.  Það er óásættanlegt að pólitík eigi að ráða því hvort það séu einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, eða tólf ráðherrum sem verði stefnt fyrir dóminn, eða engum.

Það næst enginn friður um málið, hvorki í þinginu eða í þjóðfélaginu, nema óháð nefnd sérfræðinga verði sett í að skera úr um þetta.  Ég er reyndar jafn svartsýnn og þú, á að svo einföld og góð lausn verði samþykkt á Alþingi.

Axel Jóhann Axelsson, 21.9.2010 kl. 15:49

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Svar í athurgasemd nr. 3 var til Jóns Halldórs.

Orðsóðinn og kjaftaskurinn corvus corax lítur svo á að það sé merki um gáfur á við dauðan kött að skilja ekki að skítkast Jóhönnu út í Atlanefndina sé stóralvarlegt mál.  Líklega skilur dauður köttur það ekki, að Jóhanna var að sjálfsögðu að reka rítíng í bak Atla Gíslasonar og nefndarinnar, en eftir sem áður lýsti hún andstöðu við niðurstöðu nefndarinnar og var á allt annarri skoðun en hún um líklega sakfellingu ráðherranna fyrrverandi.

Hvort sem nefndin vann af heilindum eða ekki, þá eru alls ekki allir sammála niðurstöðu hennar og þær skoðanir hljóta að vera fram settar af sömu heilindum, en eftir sem áður hikar fólk ekki við að lýsa þá aðila svikara og yfirhylmara að því viðbættu að þeir séu pólitískir loddarar.

Það er skítkast í allar áttir vegna þessa alls og þar sem corvus er væntanlega með meira lífsmarki og viti, en kötturinn hans, ætti jafnvel hann að geta skilið þetta.

Axel Jóhann Axelsson, 21.9.2010 kl. 15:58

5 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Það sem skiptir máli í þessari umræðu ,er líka vanhæfi alltof stórs hlutfalls þingmanna til að taka afstöðu til málsins. Jóhanna  er ein af þeim sem ættu að steinþegja og halda sig til hlés um þetta mál í ljósi þess að hún sjálf ætti að mati margra að vera með í þessum hópi sem lagt er til kalla fyrir landsdóm vegna setu í stjórninni sálugu sem brást og var þar í lykilnefnd um fjármál landsisn skilst manni.

Annars skil ég ekki þetta fráleita viðhorf margra að telja það einhverjar nornabrennur að þetta blessað fólk sem líklega svaf á verðinum meðan ræningjalýður skrapaði innan bankakerfið og lagð drög að að féfletta grandalausan fáfróðan almúgann sem taldi sig svo geta treyst gífuryrðum þessara ráðherra okkar um að ekkert væri að óttast.

Hvað er á móti að þetta blessað fólk fái að standa fyrir dómi og reyna að verja sínar gjörðir. Það er ærulaust fyrir ,en þarna fær það möguleika á að skýra frá og fá úrskurðað hvort það eigi sér málsbætur.

Kristján H Theódórsson, 21.9.2010 kl. 16:19

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Séu minnstu líkur á því að ráðherrarnir hafi brotið lög með vanrækslu, gerðum sínum eða aðgerðarleysi, á að sjálfsögðu að stefna þeim fyrir Landsdóm og til viðbótar þeim sem þingið er að fjalla um ætti að sjálfsögðu að bæta Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni og kannski einhverjum fleirum.

Ef vafi leikur á að þeir yrðu sekir fundnir og dæmdir af Landsdómi á að minnsta kosti að skipa nýja rannsóknarnefnd, sem færi yfir alla þætti stjórnsýslunnar, ráðherra og ráðuneyti og gæfi síðan út skýrslu um hvað hver vissi og hvenær, hvernig eða hvort brugðist var við upplýsingum og hvort persónuleg óvild milli manna í kerfinu hafi jafnvel valdið því, að ekki var brugðist við eins og þurft hefði.

Níðurstaða slíkrar skýrslu gæti skýrt hvort og hverjir hafi sýnt af sér vítaverða háttsemi, þó hún væri ef til vill ekki af þeim toga að refsing myndi koma til fyrir dómstólum.  Það verður að hreinsa andrúmsloftið að þessu leyti, hvort sem það verður gert fyrir Lansdómi eða með skipan rannsóknarnefndar.  Sömu upplýsingar verður að draga fram, hvor aðferðin sem valin verður, til þess að málin liggi ljós fyrir á einum stað, þar sem almenningur hafi aðgang að þeim og geti myndað sér eigin skoðanir á atburðarásinni.

Axel Jóhann Axelsson, 21.9.2010 kl. 16:38

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Sú gagnrýni sem að kemur fram á Atlanefndina, á alveg fyllilega rétt á sér.  Niðurstaða nefndarinnar eða meirihluta hennar byggir að mestu á að meirihlutinn var meira sammála sumum sérfræðingum en öðrum.  Nöfn þessara sérfræðinga eru í flestum tilfellum trúnaðarmál, þannig að ekki að hægt að skera úr um hæfni þeirra til þess að fella dóm, eða mæla með einhverju, þar sem hagsmunir þessara nafnlausu sérfræðinga, er ekki hafin yfir allan vafa.

Svo er talað um að þingið hefði samþykkt þessa málsferð.  Það er að hluta til rangt.  Þingið samþykkt jú að nefndin reyndi að komast að því, hvort að um einhver brot væri að ræða, eða ekki.  En þingið hafði kannski minnst um aðferðafræðina að ráða. Afhverju voru t.d. ráðherranir fyrrverandi kallaðir fyrir nefndina og þeir spurðir út í atburðarásinu, lið fyrir lið, sem að kærurnar  byggja á?  Var það óþarfi, af því einhverjir sérfræðingar töldu ráðherrana seka?  Var því alveg nóg að senda ráðherrunum bréf og biðja þá um að skýra sitt mál, út frá örfáum spurningum?  Þorði Atlanefndin ekki að hitta þessa ráðherra, augliti til auglits?

 Það væri í rauninni ábyrgðarhluti af þingmanni, hvar sem hann er í flokki að gagnrýna ekki málsmeðferðina, finnist honum eitthvað þar á skorta.  Það getur enginn þingmaður tekið ákvörðun vegna ósættis og hungurs í uppgjör á þeirri pólitísku stefnu, sem að var hér í gangi, árin fyrir hrun.   Þingmenn eins og hreyfingarþrennan, Ögmundur og Lilja Mós, eru bara ekki í nægilegu tilfinningalegu jafnvægi til þess að geta rætt málin með öllum þeim sjónarmiðum og röksemdum sem eru í boði, því að þau hafa fyrir lifandis löngu kveðið upp sinn dóm, ásamt pottaglömrurum búsáhaldabyltingarinnar.  Fólk sem lýsir því yfir áður en að umræðan hefst í þinginu, að þau hafi tekið ákvörðun, sem ekki verður haggað, er bara ekki hæft til þáttöku í umræðunni og því síður að ýta á atkvæðahnapp, þegar málið fer að lokum til atkvæðagreiðslu.

 Ég endurtek enn og aftur orð mín um algert dómgreindarleysi, Atla Gíslasonar nefndarformanns, að hleypa þessu máli út úr nefndinni í ágreiningi og með ótal vafaatriðum í eftirdragi.  Atli hefur starfað sem hæstaréttarlögmaður um árabil og virðist alveg hafa gleymt því sem hann hefur lært í námi og starfi.  

 Það sem er í raun að gera þinginu nánast ómögulegt að afgreiða málið, er frágangur Atlanefndarinnar á málinu.  Frágangur sem svo sannarlega býður upp á ósætti í þinginu og í rauninni gerir ekkert annað en að auka á kaosið þar innandyra.  Almenningur stendur svo þar fyrir utan sótsvartur af reiði og hefur fyrir lifandis löngu fellt sinn dóm í bræði yfir því hvernig fór haustið 2008.

Kristinn Karl Brynjarsson, 21.9.2010 kl. 16:40

8 identicon

Gengur að hafa enn eina nefndina sem segir þingmönnum til um hvort þeir ættu að sakþykkja eða fella niður ákærur á hendur ráðherrunum ef þeir hafa svarið við stjórnarskrána að fylgja sinni eigin sannfæringu?  Ég hugsa að það muni aldrei verða

Skúli (IP-tala skráð) 23.9.2010 kl. 00:09

9 identicon

samþykkja átti þetta nú að vera, ekki sakþykkja...

Skúli (IP-tala skráð) 23.9.2010 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband