Eru 18 þúsund manns að mótmæla atvinnuuppbyggingu?

Nú hafa rúmlega átján þúsund manns skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðareignarhald og nýtingu orkuauðlindanna, án þess að nánar komi fram um hvað verði spurt í atkvæðagreiðslunni, t.d. hvort ríkið skuli eiga og nýta allar orkuauðlindir, bæði ár og jarðhita, eða hvort sveitarfélög teljist til opinberra aðila í þessu sambandi og enn síður er útskýrt hvað átt er við með nýtingu orkuauðlindanna.

Skyldi hópurinn sem stendur fyrir þessari undirskriftasöfnun vera á sömu skoðun og núverandi stjórnendur OR, að orkuauðlindir skuli einungis nota til að framleiða rafmagn og hita til heimilisnota, eða á ef til vill að leyfa orkusölu til smáfyrirtækja, svo sem prjónastofa og gróðurhúsa, en heyrst hafa raddir um að stórátak megi gera í atvinnumálum þjóðarinnar með rósarækt í gróðurhúsum og þannig megi jafnvel skáka Hollendingum út af blómamarkaði heimsins.

 

Það sem græningjum virðist vera lífsins ómögulegt að skilja, er að þegar rætt er um atvinnumál, þá er verið að tala um fasta vinnu til margra ára fyrir tugþúsundir manna og kvenna, en ekki útgáfu bókar, uppsetningu málverkasýningar eða skipulagningu á tónleikaferðum.  Næsta vetur munu a.m.k. 16.000 manns vera atvinnulaus hér á landi, fyrir utan þá sem þegar hafa flutt erlendis, en nú stefnir í að fólksflutningar frá landinu verði þeir mestu í Íslandssögunni.  Árlega bætast 3 - 5000 manns á atvinnumarkaðinn og þarf að skapa fasta varanlega vinnu fyrir allt þetta fólk sem og þá sem bætast á vinnumarkaðinn á hverju ári í framtíðinni og þetta fólk skapar sér ekki allt framtíðarstörf með eigin listagáfu og ekki tekur ferðamannaiðnaðurinn við þeim öllum og ekki vinna við tilraunir með græna orku heldur.

Það þarf að efla allar greinar atvinnulífsins og fjölga störfum í öllum geirum, ekki bara fyrir mennta- og listaklíkur, heldur ekki síður (og miklu frekar) fyrir verkafólk, iðnaðar- og tæknimenntað fólk, menntafólk á öllum sviðum, sem sagt almenning í landinu, en ekki eingöngu þá, sem geta skapað sér eitthvað sjálfir og staðið undir sér, með eða án listamannalauna.

Þegar vinstri sinnað menntafólk kemst í samband við þann veruleika sem þjóðin lifir í og fer að gera sér grein fyrir þörum annarra en sjálfs sín, færist umræðan vonandi á vitrænna plan varðandi atvinnu- og efnahagsmálin, sem og önnur brýn hagsmunamál almennings í landinu.

Skyldu mörg nöfn vera bæði á þessum undirskriftarlista og á lista yfir atvinnulausa?


mbl.is 18 þúsund undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

haha, "á móti atvinnuuppbygingu" rökin urðu þreytt árið 2006. Allir sem ekki styðja endalausa uppbyggingu álvera og annarar stóryðju eru sjálfkrafa á móti atvinnu, hata landsbyggðina og vilja að allt leggist í eyði. Inte satt?

brynjar (IP-tala skráð) 23.8.2010 kl. 13:47

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Brynjar, fyrst þú ert á móti uppbyggingu álvera og annarrar stóriðju, vilt þú þá ekki nefna aðra kosti, sem skapað geta atvinnu fyrir fjölda manns á skömmum tíma?  Það liggur nefninlega á að höggva verulega í atvinnuleysið og helst útrýma því með öllu.

Axel Jóhann Axelsson, 23.8.2010 kl. 13:58

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Axel, það er búið að reyna "uppbyggingu álvera og annarrar stóriðju" til þess að skapa "atvinnu fyrir fjölda manns á skömmum tíma". Sú tilraun olli ofþenslu og endaði með efnahagshruni, sem er vel að merkja meginorsök núverandi atvinnuleysis. Heldur þú því fram að meinið muni læknast með því að drekka meira af eitrinu? Það er eins og að ráðleggja alkóhólista að drekka frá sér sjúkdóminn!

Hvernig væri að byggja upp atvinnustarfsemi sem gengur út á að þjóna þörfum Íslendinga, í stað þess að þjóna þörfum útlenskra stórfyrirtækja? Við þurfum öll að borða = byggja skal upp matvælaframleiðslu. Við höfum þörf fyrir eldsneyti = byggjum upp innlenda framleiðslu eldsneytis, t.d. heimaræktaða lífolíu í stað innfluttrar jarðolíu, og svona mætti lengi telja. Allt sem við framleiðum ekki sjálf þurfum við flytja inn, en því meira sem við spörum í innflutningi þeim mun meira framleiðum við sjálf, handa okkur sjálfum og sköpum okkur sjálfum atvinnu með því. Þó sumir vilja láta það hljóma þannig þá er þetta ekkert flókið. Alþjóðavæðingin svokallaða er dauðvona, en sjálfbærni og sjálfsþurftabúskapur er framtíðin!

Guðmundur Ásgeirsson, 23.8.2010 kl. 15:03

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

P.S. Þegar alkóhólisti reynir að drekka frá sér sjúkdóminn endar það aðeins á einn veg: með dauða sjúklingsins.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.8.2010 kl. 15:06

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Guðmundur, það er alger firra að uppbyggingin fyrir austan hafi valdið efnahagshruninu hér á landi.  Það var gendarlaus lántaka erlendis, sem ausið var í algerlega óarbærar fjárfestingar útrásargengisins, ásamt byggingum á alls kyns húsnæði, sem nú stendur autt og ónotað, sérstaklega á suðvesturhorninu.  Ég veit ekki betur en allir helstu hagfræðingar séu sammála um það, að þenslan sem Kárahnjúkavirkjun og bygging álversins á Reyðarfirði hafi verið eins og krækiber í Helvíti í samanburði við óráðsíuna, sem bankakerfið stóð fyrir á árunum fyrir hrun og það var hreint ekki vegna fjármögnunar verkefnanna fyrir austan.

Það sem þú nefnir til atvinnuuppbyggingar er gott og blessað og auðvitað á ekki að einblína á orkuframkvæmdir og stóriðju, en nú þarf fyrst og fremst að fjárfesta í verkefnum, sem skila erlendum gjaldeyri í þjóðarbúið og það verður ekki gert á fljótvirkan hátt, nema með stóriðju, auknum fiskveiðum og eflingu ferðamannaiðnaðarins.  Greinar sem spara gjaldeyri eru líka góðra gjalda verðar, en nýsköpun á þeim sviðum mun ekki skila tugþúsundum starfa á næstu árum, sem er nauðsynlegt, ef ekki á að verða stórkostleg fólksfækkun í landinu.

Þarfir útlenskra stórfyrirtækja, eins og smáfyrirtækja, líka íslenskra, fara yfirleitt saman við hagsmuni neytenda, því ekki eru fyrirtækin að framleiða vörur að gamni sínu, heldur er markaður fyrir þær og þar með viðskiptavinir sem kaupa þær og nota. 

Ætli sérhæfing á þeim sviðum, sem henta hverju svæði og landi fyrir sig verði ekki frekar ofan á í framtíðinni en sjálfsþurftarbúskapur.  Ekki er ég viss um að almenningur vilji snúa ótilneyddur aftur fyrir tuttugustu öldina í lífsháttum.

Axel Jóhann Axelsson, 23.8.2010 kl. 15:41

6 Smámynd: Landfari

Axel, hvaða atvinnuuppbygging felst í því að erlendir aðilar eigi orkufyrirtæki hér. Það er búið að byggja upp þetta fyrirtæki sem er í blómlegum rekstri. Þeir sem eru að kaupa þetta fyrirtæki eru ekki að reka neina góðgerðarstofnun. Þeir ætla sér að ná kaupverðinu aftur og gott betur. Það er eitthvað lítið af gjaldeyri sem kemur inn því þetta er að stórum hluta lánað.

Núna þegar Orkuveita Reykjavíkur hækkar gjaldskrá sína um tugi prósenta verður ekki langt að bíða eftir hækkun frá HS orku. Sú hækkun léttir ekki skuldastöðu heimilanna og er ekki líkleg til að minnka atvinnuleysi. Líklegra að fyrr en seinna lendi sá aukni arður sem fyrirtækið fær í vösum erlendra eigenda. Þá hefði nú verið heppilegra að sveitafélögin á Reykjanesi ættu mjólkurkúna.

Að setja málið svona upp að þeir sem skrifa undir séu á móti atvinnuuppbyggingu er annað hvort hrein heimska eða lævís áróður og útúrsnúningur.

Landfari, 23.8.2010 kl. 15:52

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Landfari, vonandi verður HS orka mjólkurkýr fyrir sveitarfélögin á Reykjanesi, enda var ekki verið að selja hana, en það fyrirtæki var hins vegar að leigja út nýtingarrétt á þeim hitasvæðum, sem það fyrirtæki hefur yfirráð yfir og mun hafa áfram.  Hinsvegar var verið að selja HS veitur vegna gífurlegrar skuldsetningar fyrirtækisins og þess, að vöntun var á nýju fé inn í reksturinn, til frekari orkuvinnslu og uppbyggingar fyrirtækisins.

Auðvitað verður það til að minnka atvinnuleysi, ef nokkur þúsund manns fá störf við orkuvinnslu og byggingu stóriðju og síðan munu nokkur hundruð manns fá varanlega vinnu í fyrirtækjunum og þar til viðbótar myndu koma einhverjar þúsundir afleiddra starfa.

Það er ekki þar með sagt, að einblína eigi á orkufrekan iðnað, heldur á auðvitað að huga að atvinnuuppbyggingu á öllum sviðum og ekki útiloka neitt í þeim efnum.  Því fjölbreyttari vinnumöguleikar, því betra.

Útlend fyrirtæki eru ekki rekin í góðgerðarskyni, frekar en íslensk og því enginn munur þar á.  Allir vilja hagnast á sínum rekstri og það ætlar HS orka líka að gera með því að leigja út nýtingu á hitaréttinum.

Axel Jóhann Axelsson, 23.8.2010 kl. 16:22

8 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ég er alls ekki á móti atvinnuuppbyggingu, en mér finnst hins vegar allt of margt í þessu Magmamáli, vera á "gráu svæði", svo ekki sé meira sagt.

Í upphafi máls, þá fara fulltrúar Magma Energy Iceland ehf. á fund starfsmanna Iðnaðarráðuneytis og skýra þeim frá áformum móðurfyrirtækisins, kanadíska, um kaup á HS-Orku í gegnum íslenska móðurfélagsins.  Siðan hafi menn farið út í það að ræða fjármögnun þessarar fjárfestingar.  Eins og menn kannski muna, þá sögðu fulltrúar Magma það, að starfsmenn Iðnaðarráðuneytis, hafi beinlínis bannað það, að íslenska dótturfyrirtæki Magma keypti HS-Orku.

 Ætla má að þegar fjármögniun fjárfestingarinnar hafi verið rædd, þá hafi meðal annars komið fram að Magma ætlaði að nota aflandskrónur til kaupana á HS-Orku, að hluta til. Hér á landi gilda lög um gjaldeyrishöft, sem banna íslenskum fyrirtækjum að höndla með aflandskrónur, án þess að til komi undanþága, með "sérlögum".  Starfsmenn Iðnaðarráðuneytis, hafi semsagt á þessum tímapunkti, sagt fulltrúum Magma, að Magma Iceland, mætti ekki fjármagna kaup sín á HS-Orku með þessum hætti.  Síðan hafi starfsmenn ráðuneytisins, bent Magmamönnum á það, að í lögum um erlenda fjárfestingu, stendur að fyrirtæki á EES-svæðinu, mættu fjárfesta í íslenskum orkufyrirtækjum og "leiðbeint", þar með Magmamönnum, að "sænsku skúffunni".  Vissulega allt löglegt, í fljótu bragði séð, í það minnsta, en samt í annan stað vafasamt að fulltrúar stjórnvalda, séu að "leiðbeina", fulltrúum fyrirtækja innlendra jafn sem erlendra, hvernig hægt sé að smeygja sér fram hjá þeim lögum er stjórnvöld þau er þeir vinna fyrir hafa sett.

 Svo má týna til atriði í meðferð nefndar um erlenda fjárfestingu í Magmamálinu, eða öllu heldur á þeim vinnubrögðum að efnahags viðskiptaráðuneytið, "skaffaði" nefndinni, þá lögfræðinga er meirihluti nefndarinnar fór eftir álitum frá.  Þarna handvaldi ráðherra, lögfræðinga ofan í nefnd sem átti að taka óháða afstöðu til málsins.  Fulltrúar minnihlutans í nefndinni, vildu hins vegar fara að álitum lögfræðinga "utan úr bæ", er kváðu upp annar úrskurð en álit þeirra "handvöldu" lögfræðinga kváðu á um. 

 Þetta er svona það helsta sem að ég sé að þessu ferli.  En það hefur komið fram í fréttum að þessar erlendu fjárfestingar hér, sem menn hafi verið að velta fyrir sér, séu ca. tíu verkefni, þar af er eitt álver, það sem rísa á í Helguvík. Allar hinar hugmyndirnar, séu eitthvað annað en álver, þó svo flestar þeirra séu tengdar orkufrekum iðnaði. 

Stjórnvöldum hefur hins vegar mistekist algjörlega að laða hingað að erlenda fjárfesta í flest þau verkefni sem að menn hafa skoðað.  Er þar helst um að kenna stefnu annars stjórnarflokksins um að allt sem kemur að utan sé vont. Að ekki sé treystandi því að hleypa útlendingum inn í rekstur fyrirtækja á Íslandi.  

Nægir þar að nefna fyrirþvæling Vinstri grænna, vegna þotuþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli, einkaspítala á sama stað, einkaspítala í Mosfellsbæ,

Auk þess sem að umhverfisráðherra, hefur sveiflað valdasprota sínum í allar áttir og bannað allar undirbúningsframkvæmdir, er aukin atvnnuuppbygging krefst. Hefur í þeim aðgerðum umhverfisráðherra, engu skipt hvort farið sé að lögum eða ekki.  Heldur hafa persónulegar skoðanir ráðherrans, verið lögum æðri í úrskurði hans. 

 Það er því fyrir lifandis löngu orðið ljóst, hvort sem Magmamálið sé inn í dæminu eða ekki, að stjórnvöld eru gersamlega óhæf til þess að stuðla að atvinnuuppbyggingu hér á landi og gera því landi og þjóð, meira ógagn en gagn, með hverjum degi sem þau hanga hér við völd í óþökk þjóðar sinnar.

Kristinn Karl Brynjarsson, 23.8.2010 kl. 17:16

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"það er alger firra að uppbyggingin fyrir austan hafi valdið efnahagshruninu hér á landi"

Annað segja niðurstöður sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ekki það að ég telji þá alltaf hafa réttu svörin...

"nú þarf fyrst og fremst að fjárfesta í verkefnum, sem skila erlendum gjaldeyri í þjóðarbúið og það verður ekki gert á fljótvirkan hátt, nema með stóriðju, auknum fiskveiðum og eflingu ferðamannaiðnaðarins."

Verkefni sem spara gjaldeyrisútgjöld hafa sömu nettóáhrif og verkefni sem afla gjaldeyristekna. Og það er vel hægt að gera á fljótvirkan hátt, t.d. með stóraukinni ræktun lífeldsneytis sem gæti knúið fiskiskipaflotann, lækkað þannig eldsneytiskostnað hjá útgerðum, sem myndi minnka rekstrarvanda þeirra og skapa þannig möguleika á nýjum störfum. Einnig gætum við notað jarðvarmann til að byggja upp gróðurhúsaræktun, þannig að í staðinn fyrir að skapa störf í útlöndum þegar þú kaupir í matinn þá skaparðu störf á Íslandi. Auk þess nýtir það jarðvarmann betur því gróðurhús nota allar þrjár afurðir virkjunar: rafmagn, koltvísýring og afgangshita. Á Hellisheiði, svo dæmi tekið, er aðeins verið að nýta einn þessara þátta í dag. Þetta eru bara tvö dæmi af ótalmörgum um hvernig við getum hagrætt af skynsemi.

"Ekki er ég viss um að almenningur vilji snúa ótilneyddur aftur fyrir tuttugustu öldina í lífsháttum."

Og það er engin ástæða til þess þó við einbeitum okkur að því að uppfylla grunnþarfir þjóðfélagsins, heldur þvert á móti! Umframkaupmáttur (fyrir ónauðsynjar) er ekki forsenda hagvaxtar, heldur afleiðing hans, og getur aðeins verið til staðar þegar grunnstoðir samfélagsins eru traustar. Við getum nefninlega ekki borðað flatskjái eða annan lúxusvarning.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.8.2010 kl. 17:17

10 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ég er nú ekki að fatta þetta AXEL hefir ekki verið atvinnuuppbygging á Íslandi hingað til???.

Við erum að tala um eitt eða tvö ár sem hefir verið niðursveifla hér sem annarstaðar. Við byggjum sjálfir upp landið okkar og hefðum t.d. átt að gera með kárahnjóksvirkjunni ofl. Eigum við ekki að eiga fyrirtæki sem mala gull í hundruðir ára s.s. Orkuverin ofl.

Valdimar Samúelsson, 23.8.2010 kl. 17:59

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Í dag með interneti og slíku þá er auðvelt að skapa einhverja hysteríu og OMG umræðu etc. = Undirskriptir í hrönnum.

Meina, var ekki fjölda manna að skrifa undir það hérna fyrir stuttu að ísland ætti ekki að borga skuldir sínar?  Ætti ekki að standa við alþjóðlegar skuldbindingar landsins?  Einhver? 

Halda enn að það hafi verið einhver heil hugsun á bak við það annað en OMG samt hystería plús ,,vondir útlendingar" effektinn?  Auðvitað ekki!  Fólk er bara að skrifa útí bláinn nafnið sitt og engin hugsun á bakvið það nema sem að ofan er lýst.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.8.2010 kl. 18:05

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

"viltu þá ekki nefna aðra kosti sem skapað geta atvinnu fyrir fjölda manns á stuttum tíma?"

Þessi spurning segir mesta söguna um orkubrjálæðið og álsturlunina sem samanlagt er búið að skapa heimskari umræðu á Íslandi en jafnvel Evróvísjón.

Áttarðu þig ekki á því að þessi spurning opinberar þá sannfæringu þína og þinna skoðanabræðra - og systra að Ísland verði óbyggilegt þegar ekkert verður eftir til að virkja?

Veistu að langt yfir 95% vinnandi fólks á Íslandi starfar við "eitthvað annað?"

Þú ert búinn að játa það að þú hefur engar lausnir sjálfur aðrar en virkjanir og stóriðju.

Til hvers erum við að eyða öllum milljörðunum í Háskólana ef kandidatarnir þurfa að lifa á álbræðslu?

Árni Gunnarsson, 23.8.2010 kl. 18:10

13 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þú skalt nú ekki vanmeta hugsunin ahjá fólki hver heldur þú að loggi sig inn og opni síðu hjá Orkulindir is og skrifi inn nafn og kennitölu án þess að hugsa Hmmmm skrítin hugsun hjá þér en samt held ég ekki að þú sért vitlaus.

Valdimar Samúelsson, 23.8.2010 kl. 18:11

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristinn Karl, þó ég sé hlynntur einkavæðingu yfirleitt og þar með að einkafyrirtæki komi að nýtingu (leigu) orkuauðlinda, þá er ég ekki að mæla bót einhverjum hundakúnstum við að koma erlendum fyrirtækjum inn í landið.  Sé eitthvað athugavert við hvernig Magma fékk heimild til að kaupa sig inn í greinina, þá á að sjálfsögðu að ógilda það og þeir ráðherrar sem aðstoðuðu við það verða þá að segja af sér umsvifalaust.

Reyndar er full ástæða til að vantreysta aðkomu ríkisstjórnarinnar að þessu máli, eins og nánast öllum öðrum, sem hún kemur nálægt, ekki síst í atvinnumálum, en þar hefur hún unnið hvert skemmdarverkið á eftir öðru og því hægt að taka heilshugar undir allt sem þú segir um þau mál.

Axel Jóhann Axelsson, 23.8.2010 kl. 19:20

15 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Guðmundur, ekki held ég að þú gætir fundið marga íslenska hagfræðinga, sem taka undir þá skoðun AGS, að framkvæmdirnar fyrir austan hafi valdið mikilli þenslu í landinu, hvað þá hruninu.  Allar vélar og tæki voru innflutt og mest af vinnuaflinu var erlent og sendi öll sín laun úr landi, þannig að ekki olli sá hlutinn mikilli þenslu hérlendis.  Auðvitað skapaðist ákveðin þensla vegna framkvæmdanna, en það voru smámunir miðað við allt annað, sem gekk á í þjóðfélaginu.

Bygging Kárahnjúkavirkjunar kostaði nokkur hundruð milljónir króna, en heildarskuldir bankakerfisins við hrunið námu tólf þúsund milljörðum króna og nú er talið að erlendir lánadrottnar þeirra tapi þar af að minnsta kosti sjöþúsund milljörðum króna.  Þá er meira að segja reiknað með genginu eins og það var við hrun bankanna og má nánast tvöfalda upphæðina miðað við núverandi gengi, enda allar þessar skuldir í erlendum gjaldeyri.

Eins og ég hef áður sagt á að sjálfsögðu að ýta undir atvinnuuppbyggingu á öllum sviðum, ekki bara í stóriðju og auðvitað í gjaldeyrissparandi verkefnum, eins og þeim gjaldeyrisaflandi.  Um það erum við alveg sammála.

Axel Jóhann Axelsson, 23.8.2010 kl. 19:30

16 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, þú ert nú ekki málefnalegur frekar en fyrri daginn og leggur ekkert til umræðunnar annað en fúkyrði.

Mér er vel kunnugt að stór hluti þjóðarinnar vinnur við "eitthvað annað" en stóriðju, t.d. ég sjálfur og tugþúsundir vinna hjá hinu opinbera og skapa hvorki gjaldeyri né spara.  Það eru hins vegar nokkur þúsund manns, sem vinna við fiskveiðar og vinnslu, stóriðju og ferðamannaiðnað og þær greinar eru að skapa þann gjaldeyri sem ég og þú erum að eyða í innfluttar vörur og þessar greinar þarf að efla að miklum mun, svo við getum haldið áfram okkar eyðslu, að ekki sé talað um þann gjaldeyri sem þarf til að greiða erlendar skuldir einstaklinga, fyrirtækja og ríkisins.

Þær skuldir verða ekki greiddar með störfum í Háskólunum og ekki vantaði heldur menntafólk í bankana og útrásarfyrirtækin, því nánast allt menntaðasta fólk landsins í viðskiptagreinum, lögfræði og endurskoðun voru þar við störf.  Samt hrundi allt kerfið og spillingin og óheiðarleikinn var þar grasserandi.  Háskólaliðið hefði betur unnið í álbræðslunum, a.m.k. hefði það valdið minni skaða þar.

Ef þú hefðir lesið pistilinn áður en þú hófst skítkastið, þá hefðir þú séð að ég var að hvetja til atvinnuuppbyggingar á öllum sviðum, ekki eingöngu í orkugeiranum.  Það á ekki að útiloka neitt, allra síst á krepputímum þegar 15.000 manns eru á atvinnuleysisskrá.

Axel Jóhann Axelsson, 23.8.2010 kl. 19:41

17 Smámynd: Árni Gunnarsson

Fúkyrðin eru þín Axel Jóhann. Þú sakar okkur sem viljum hafa fullt forræði yfir auðlindum landsins um að við séum að mótmæla atvinnuuppbyggingu.

Það er hárrétt að það þarf að skapa atvinnu og það verður best gert með því að efla nýsköpunarsjóði í einhverri mynd. Frumkvæðið kafnar oftast í fjármagnsskorti og ef t.d. þeir fjármunir sem lagðir voru í stóriðjuna á Austfjörðum hefðu verið nýttir af skynsemi hefði mátt margfalda arðsemi þess fjár.

Mesta skömmin er kannski sú að hafa ekki hafist handa við að reisa ylræktarver á Suðurlandi í samvinnu við t.d. Hollendinga sem hafa oftar en einu sinni þreifað fyrir sér með orkusamninga við íslensk stjórnvöld.

En fjölmörg smærri atvinnustarfsemi og dreifð um landið hlýtur að vera framkvæmanleg ef stjórnvöld tryggja þolinmótt fjármagn á meðan uppbygging og markaðssetning þróast.

Ísland er drefbýlt og fámennt og þjóðin þarf að sameinast í uppbyggingu hins nýja Íslands.

Árni Gunnarsson, 23.8.2010 kl. 23:44

18 Smámynd: Kommentarinn

Axel ég get ekki séð annað en að Árni hafi skrifað þér mjög málefnalega og án fúkyrða. Og að gefa í skyn að fjármagn sem fari í háskólana fari fyrst og fremst í að skapa vinnu í þeim er barnalegt. Ég get fullyrt að mest allar gjaldeyristekjur íslendinga síðustu 15-20 árin hafi orðið fyrir tilstilli þekkingar sem skapaðist innan háskólanna.

Kommentarinn, 24.8.2010 kl. 10:23

19 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kommentari, í hvaða gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar hefur þekkingin sem skapast hefur í háskólunum farið, aðrar en sjávarútveg, stóriðju og ferðamannaiðnað.  Auðvitað eru eitt og eitt fyrirtæki utan þessarar greina að skapa og spara gjaldeyri, en það eru hreinir smámunir miðað við þessar greinar.

Ég geri ekki lítið úr menntun og allra síst háskólamenntun, en það þarf líka að skapa atvinnu fyrir þá, sem af einhverjum ástæðum geta ekki, eða vilja ekki, sækja langskólanám.  Það gefa ekki allir út hljómplötur, skrifa bækur, mála málverk eða leika í leikhúsum, þó allt sé það nauðsynlegt líka.

Það hefur margsannað sig að vinstri menn hafa engan skilning á þörfum almennings, hvorki hvað varðar atvinnumöguleika eða annað sem þarf, til að skapa sér mannsæmandi líf.

Axel Jóhann Axelsson, 24.8.2010 kl. 10:53

20 identicon

Ég veit ekki betur en að CCP sé að hala inn heilum ósköpum af gjaldeyristekjum inní þetta land okkar.

Nú er t.d. Háskólinn í Reykjavík að byrja loksins fyrst á því núna með braut sem einblínir á tölvuleikjaframleiðslu.

Mun "grænni" leið til gjaldeyristekna en álframleiðsla.

Einnig væri kannski hægt að bjóða fyrirtækjum sem eru að framleiða tölvueliki og hugbúnað einhvern skattafslátt og draga þá til okkar fleiri fyrirtæki sem starfa í þessum geira og skapa fullt af atvinnu fyrir fólk.

Nema fólk vilji bara fleiri álver?

Það virðist vera það eina sem íslendingar kunna að gera til að skapa atvinnu.

Snjokaggl (IP-tala skráð) 24.8.2010 kl. 11:29

21 Smámynd: Kommentarinn

Það er gjaldeyrisskapandi bæði beint og óbeint að skrifa bækur, gefa út plötur, mála málverk og leika í leikhúsum þó að stóriðjusinnar noti gjarnan listgreinar sem einhverskonar skotmark og gefi í skyn að þau störf séu ekki eins gagnleg og störf í frumframleiðslugreinum eins og málmvinnslu.

En fyrst þú spyrð þá er hátækniiðnaður sú sneið gjaldeyriskökunnar sem vex hraðast ásamt ferðamannaiðnaði og reiknað er með að hátækniiðnaður skili  14% gjaldeyristekna árið 2010 en þessar tekjur hafa vaxið ört undanfarin 10 ár með fyrirtækjum eins og CCP, Marel, Actavis og Össuri og þetta tókst þeim þrátt fyrir mjög óhagstæða hágengisstefnu stjórnvalda fram að hruni og án allra stjórnvaldsgreiða sem stóriðjan hefur þrifist á.

Ég spái því að hátæknigreinar verði komnar langt fram úr stóriðjunni hvað varðar gjaldeyrissköpun fyrir 2020.

Kommentarinn, 24.8.2010 kl. 15:41

22 Smámynd: Kommentarinn

Stóriðjan verður vonandi komin amk niður í 4. sæti þá...

Kommentarinn, 24.8.2010 kl. 15:44

23 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Að sjálfsögðu á að hlúa að öllum atvinnugreinum og stuðla að sem mestri fjölbreytni atvinnulífsins og skiptir þar allt máli, stórt og smátt.

Rétt til upplýsingar er hérna skipting milli útflutningsgreina árið 2009, samkvæmt Hagstofunni:  Sjávarafurðir 41,9%, Iðnaðarvörur 45,3% (orkufrekur iðnaður 35,3%), landbúnaðarafurðir 1,6% og aðrar vörur 11,3%.

Samkvæmt þessu, mun líða talsverður tími þangað til sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði verður skákað úr tveim efstu sætum gjaldeyrisskapandi atvinnugreina landsins.  Rétt er að hafa í huga, að á árinu 2009 voru einungis starfandi þrjár álverksmiðjur á landinu, að meðtalinni Reyðarfjarðarverksmiðjunni, sem var líklega ekki farin að framleiða á fullum afköstum, fyrr en þá seint á árinu.

Það er ekki þar með sagt, að álverksmiðjur séu lausn á öllum vandamálum þjóðarinnar, en þær eru drjúg búbót, eins og sést á þessu.

Axel Jóhann Axelsson, 24.8.2010 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband