Styður nýjan skatt, en ekki ríkisstjórnina

Enn einn stjórnarþingmaðurinn er að gefast upp á stuðningi við ríkisstjórnina, núna síðast lýsti Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, því yfir að honum væri skapi næst að hætta stuðningi við stjórnina vegna skattahækkanabrjálæðis hennar.

Magnús lýsti því yfir að hann vildi að stjórnin einbeitti sér að útgjaldahlið fjárlaganna og skæri niður í ríkisrekstrinum, enda væri búið að hækka alla skatta langt upp fyrir öll þolanleg mörk og ekki yrði gengið lengra í þeim efnum.  Loksins lætur stjórnarþingmaður frá sér heyra um skattabrjálæðið, sem farið er að þjaka almenning og atvinnurekstur og það svo, að allt þjóðfélagið er að kikna undan ósköpunum.

Nýjustu skattauppfinningunni er Magnús þó hrifinn af, en það er svokallaður bankaskattur og það réttlætir hann með því, að ríkið ábyrgist bankainnistæður og sjálfsagt sé að bankarnir borgi fyrir það.  Bankarnir borga auðvitað tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki og um þessar mundir er litlum, sem engum hagnaði fyrir að fara í bankakerfinu, svo varla er á þá sköttum bætandi, eins og ástandið er.

Ekki datt þingmanninum í hug að stinga bara upp á því að hinni tímabundnu ríkisábyrgð á bankainnistæðum yrði aflétt og þar með hyrfi grundvöllurinn undan þessari skattahugmynd á ríkisábyrgðina.  Skattkerfi eiga að vera einföld, réttlát, gagnsæ og helst réttlát, þannig að allir séu jafnir fyrir þeim lögum, eins og öðrum.  Því eiga svona sérskattar sér lítinn tilverurétt.

Sé hugmynd þingmannsins að festa ríkisábyrgð á bankainnistæðum í sessi til allrar framtíðar, þá er sanngjarnt að bankarnir borgi ábyrgðargjald fyrir það, en fjármálaráðherra hefur lýst því yfir, að ríkisábyrgðin sé aðeins tímabundin, á meðan verið sé að koma nýju bönkunum á koppinn og svo falli hún niður.  Hvernig ætlar þingmaðurinn þá að réttlæta sérstakan bankaskatt?

Magnús sagði í sjónvarpinu, að það liti út eins og lýðskrum, að hóta að hætta að styðja ríkisstjórnina.

Réttlæting hans á bankaskatti er ekki minna lýðskrum, enda veit hann hug almennings til bankanna um þessar mundir og reiknar því með að svona málflutningur falli í frjóan jarðveg.


mbl.is Líst vel á bankaskatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband