Styttist í tveggja ára afmæli hrunsins

Nú styttist í tveggja ára afmæli bankahrunsins, sem varð í októberbyrjun 2008, og ennþá hefur ekkert sakamál af stærri gráðunni komið fyrir dómstóla, en þó nokkur minni mál og nokkur skaðbótamál hafa verið höfðuð á hendur eigendum og stjórnendum bankanna.

Um þessar mundir er verið að fjölga starfsmönnum Sérstaks saksóknara og mun vera stefnt að því að þeir verði orðnir 80 á næstu mánuðum.  Þessi starfsmannafjölgun embættisins hefur gengið allt og hægt og embættið verið allt of fáliðað fram að þessu, enda hlýtur hraði rannsókna að fara eftir þeim starfsmannafjölda, sem embættið hefur á að skipa hverju sinni.

Landsmenn eru orðnir langeygir eftir því að "stóru" málin fari að skila sér frá embættinu til dómsstólanna og færi vel á því, að einhver þeirra kæmu í dagsljósið fyrir tveggja ára afmæli "bankaránanna innanfrá" og helst fyrr, því þó þetta séu flókin mál og erfið, þarf að fara að komast til botns í þeim, svo hægt verði að hreinsa upp fortíðina að þessu leyti.

Mörg ár munu hins vegar líða, áður en búið verður að koma málunum til enda í gegnum dómskerfið og því brýnt að fara að koma málum þangað sem fyrst.


mbl.is Von á fleiri ákærum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er í raun skömm að ekki skyldi hafa verið ráðnir 80 starfsmenn í upphafi til sérstakssaksóknara enda hefði verið hægt að vinna af fullum krafti í málum meðan sönnunargögn voru nýlegri.  Tíminn auðveldar mönnum að fela það sem þarf að fela auk þess sem afbrot firnast með tímanum.  Svo hefði átt að stefna að því að starfsmönnum færi fækkandi frá næsta ári þegar flesst málanna væru kominn í ákærur.

Þorsteinn Bjarki Ólafsson (IP-tala skráð) 9.8.2010 kl. 12:58

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

"Bankaræningjarnir" ættu ekki að hafa aðgang að neinum gögnum í bönkunum sjálfum, þannig að þeir eru því væntanlega ekki í aðstöðu til að skjóta undan neinum gögnum þaðan.  Afbrot fyrnast ekki, ef rannsókn þeirra hefst tímanlega og þau kærð til dómstóla innan fyriningarfrests, svo vonast verður til að ekki komi til þess að mál fyrnist vegna "bankaránanna".

Auðvitað hefði verið best, að starfsmenn embættisins hefðu verið a.m.k. 80 strax frá upphafi, en ég hugsa að kerfið hafi allt verið svo laman á fyrstu mánuðunum eftir hrun, að menn hafi hreinlega ekki gert sér grein fyrir því að það var ekki fyrst og fremst alþjóðlega bankakreppan, sem setti íslensku bankana á hliðina, heldur hafi þeir verið "rændir innanfrá" og eftir því sem menn hafa gert sér gleggri grein fyrir því, hafi viljinn til að efla embættið aukist.

Axel Jóhann Axelsson, 9.8.2010 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband