Ráðherrann sem svaf aldrei og hinn sem aldrei hefur vaknað

Sigurður Líndal, lagaprófessor, vitnar til gamals máls frá Danmörku í tilefni af afsögn Runólfs Ágústssonar úr starfi Umboðsmanns skuldara eftir að hafa gegnt starfinu í aðeins einn dag, en umrædd tilvitnun í viðtal mbl.is við Sigurð er svona:  "Hann segir málið fordæmalaust hér á landi en minnist um leið dansks ráðherra sem gegndi ráðherraembætti þar í landi í einn dag fyrir hundrað árum og gekk undir nafninu „ministren som aldrig sov" eða ráðherrann sem aldrei svaf."

Samlíkingin er bráðsnöll, því ekki verður því á móti mælt, að Runólfur svaf aldrei á meðan hann gegndi því ábyrgðarmikla starfi að vera Umboðsmaður skuldara.  Annað verður hins vegar að segjast um Árna Pál, ráðherrann sem réð hann til starfa, en hann virðist aldrei hafa vaknað eftir að hann tók við sínu starfi.

Fari svo, að Árni Páll hrökkvi upp af sínum langa og væra blundi við þá niðurlægingu, sem hann hefur bakað sjálfum sér, mun hann umsvifalaust ráða Ástu Sigrúnu Helgadóttur, fyrrverandi forstöðumann Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna, til starfans, eins og hann hefði gert strax í upphafi hefði hann verið vakandi og með fullri meðvitund.

Hins vegar skal því spáð, hér og nú, að Árni Páll mun láta auglýsa stöðuna aftur, til að losna við að þurfa að ráða Ástu, enda mun hún tæplega sækja um aftur, eftir þessa reynslu af ráðherranum sem aldrei vakir.

 


mbl.is Telur að auglýsa þurfi að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ég spái því að það verði auglýst aftur.  En til öryggis, ef Ástu Sigrúnu dytti í hug að sækja um aftur, verður "gaukað" að einhverjum "góðum og gegn" Samfylkingarmanni/vini, að þetta starf gæti hentað honum.  Hins vegar verður sá hinn sami að hafa "dauðhreinsaðan" bakgrunn.

 Svo má hugleiða hvort þetta klúður Árna, leggi ekki stóra steina í götu Yngva Arnar, fyrrverandi Landsbankamanns, á leið hans í forstjóraembætti Íbúðalánasjóðs.

Alla vega lítur svo út í augnablikinu að "Bitlingakapall" Samfylkingar sé ekki að ganga upp, nú um stundir.

Kristinn Karl Brynjarsson, 4.8.2010 kl. 14:42

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Nei, bitlingakapallinn gengur engan veginn upp hjá Samfylkingunni og nauðsynlegt að stokka spilin alveg upp á nýtt. 

Ég er alveg sammála þeirri spá, að starf umboðsmannsins verði auglýst aftur og að þá muni Ásta ekki sækja um aftur (þó ég þekki hana ekki neitt og hafi ekkert fyrir mér í því), enda mun hún varla láta bjóða sér álíka meðferð aftur af hendi sama vanhæfa ráherrans.

Það verða erfið skref fyrir Árna Pál, að koma Ynga Arnari í embætti og þá ekki bróður sínum Þórólfi í forstjórastól Íslandsstofu, eftir uppákomuna með Runólf.

Hvað sem öðru líður, verður sá sem næst verður skipaður Umboðsmaður skuldara, að hafa algerlega skotheldan bakgrunn og vera óumdeildur, því það verður ekkert grín að taka við embættinu við þessar aðstæður.

Axel Jóhann Axelsson, 4.8.2010 kl. 15:21

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Nú stendur yfir þingflokksfundur Samfylkingarinnar, þar sem fjalla á um klúður Árna Páls, félagsmálaráðherra, vegna ráðningar í embætti Umboðsmanns skuldara.  Afar fátítt er að ráðherrar séu teknir á teppið hjá þingflokkunum vegna verka sinna og því verður að áætla að mikið uppnám ríki innan Samfylkingarinnar vegna málsins.

Eina rökrétta niðurstaða fundarins væri, að út yrði send tilkynning um að Árni Páll hefði "sagt af sér" ráðherraembættinu og Jóhanna myndi sjálf fara með málaflokkinn, þangað til búið yrði að fækka ráðuneytum og endurskipuleggja stjórnsýsluna.

Afar fróðlegt verður að sjá hvernig Samfylkingin ætlar að klóra sig út úr þessari "djúpu kreppu" sem hún nú er í.

Axel Jóhann Axelsson, 4.8.2010 kl. 16:07

4 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það víst vera staðfest að Ástu var boðið starfið. Hvort hún þiggi það svo eftir það, sem á undan er gengið, er annað mál.

Samkvæmt meintum "leka" úr stjórnsýslunni, sem birtur var um helgina, þá nýtur Ásta vart trausts hjá ráðherra.  En menn sjá kannski í gegnum fingur sér það, að "lekinn" var eingöngu ætlaður til þess, að réttlæta skipun Runólfs í embættið.

Kristinn Karl Brynjarsson, 4.8.2010 kl. 16:32

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þingflokkurinn hlýtur að hafa knúið fram þessa niðurstöðu, til að reyna að bjarga andliti ráðherrans og flokksins.  Hvort það dugar, er svo annað mál.

Axel Jóhann Axelsson, 4.8.2010 kl. 16:48

6 Smámynd: Benedikta E

Það dugar ekki - þeim er ekki við bjargandi.

Benedikta E, 4.8.2010 kl. 21:33

7 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Rétt Benedikta sammála.

Eyjólfur G Svavarsson, 5.8.2010 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband