5.6.2010 | 11:23
Guðlaugur Þór gerir EKKI hreint fyrir sínum dyrum
Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður, hefur gert marga góða hluti á sínum stjórnmálaferli og stóð sig afar vel sem heilbrigðisráðherra á meðan hann gegndi þeirri stöðu. Hann hefur verið duglegur og málefnalegur þingmaður og hafa verið bundnar miklar vonir við hann sem hluta af framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur háði mikla kosningabaráttu í prófkjöri árið 2006 og tjaldaði þar öllu til og þáði 24,8 milljónir í styrki frá ýmsum aðilum til að kosta þá baráttu og var það allt í samræmi við venjur og reglur þess tíma og væri ekkert út á það að setja, ef allt væri uppi á borðum varðandi þessi fjárframlög og ekki væri verið að pukra með styrktaraðilana.
Á þessari síðu hefur verið haldið uppi vörnum fyrir þá frambjóðendur sem þessa styrki þáðu, hvar í flokki sem þeir standa, enda engar reglur eða lög brotin svo vitað sé, í tengslum við þessi styrkjamál. Sá, sem hér skrifar hefur alltaf verið mikill stuðningsmaður Guðlaugs Þórs og talið hann í hópi bestu þingmanna þjóðarinnar og stutt hann bæði í prófkjörum og á öðrum vettvangi.
Nú, að öllum þessum tíma liðnum og eftir háværar kröfur úr öllum áttum, hefur Guðlaugur Þór loksins birt lista yfir þá, sem styrktu prófkjörsbaráttu hans árið 2006 og eins og hjá öðrum voru það bankarnir og helstu útrásargarkarnir sem framlögin veittu, enda fjársterkustu aðilar þjóðfélagsins á þeim tíma, en eftir sem áður getur Guðlaugur ekki, eða vill ekki, upplýsa um greiðendur tæplega 40% allra styrkjanna, þ.e. leynd hvílir yfir hverjir greiddu 9 milljónir af 24,8 milljónum samtals.
Þetta er algerlega óviðunandi af hálfu Guðlaugs Þórs og ýtir undir þær grunsemdir að hann hafi eitthvað að fela og að ekki þoli allt í sambandi við prófkjörsbaráttu hans að koma fram í dagsljósið og þá fer gamanið að kárna og styrkirnir fá á sig allt aðra mynd en áður.
Styrkirnir á þessum tíma voru samkvæmt öllum lögum og reglum, en lágmarkskrafa er, að í sambandi við þá sé allt opið og gegnsætt, grein gerð fyrir hverri krónu og hverjir fjármögnuðu. Allt annað er algerlega óviðunandi.
Geri Guðlaugur Þór ekki betri og skýrari grein fyrir prófkjörsbaráttu sinni og hverjir styrktu hana, þá á hann engan annan kost en að yfirgefa völlinn og segja af sér þingmennsku og lýsi því yfir eigi síðar en á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok júnímánaðar.
Guðlaugur fékk hæstu styrkina frá Baugi, Fons og FL Group | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Æ sér gjöf til gjalda". Segir máltækið. Þó er öldungis óvíst að nokkur greiði hafi verið mótfærður þessum styrkjum eða það hafi staðið til, hvorki hjá Guðlaugi eða öðrum styrkþegum. En það það lítur ekki þannig út og ekki hafa verið lögð fram rök eða gögn sem hrekja þær grunsemdir.
Hér er öfug sönnunarbyrði, hér gildir ekki "saklaus uns sekt er sönnuð". Frambjóðandi með slíkar grunsemdir á bakinu nýtur ekki trausts og er verðlaus og verri en enginn.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 5.6.2010 kl. 12:18
Nafni, ég hef talið þessi styrkjamál í lagi vegna þess að þetta var það form, sem var á starfi flokka og frambjóðenda áratugum saman. Þegar þetta var farið að ganga úr hófi fram, tóku menn sig saman um að takmarka þetta og settu sérstök lög um framlög til stjórnmálastarfsemi. Þess vegna ætti ekki núna að fordæma þetta, mörgum árum eftir breytingarnar, en hins vegar er sjálfsögð krafa að þessi mál séu öllum ljós og ekkert pukur og leynimakk í kringum þetta.
Engar sannanir hafa verið færðar fram um óeðlileg tengsl við styrkveitendur, eða sérstaka greiða þeim til handa, en það réttlætir ekki leynd um hverjir veittu styrkina, enda ekki hægt að gera sér grein fyrir sambandi aðila, ef vitneskjan um málin er ekki uppi á borðinu.
Með því að upplýsa ekki um svo stóran hluta styrkjanna, "verndar" Guðlaugur Þór stryktaraðila sína, en fórnar trausti kjósenda sinna í staðinn.
Það er hans val og verður því að taka afleiðingum þeirrar ákvörðunar sinnar.
Axel Jóhann Axelsson, 5.6.2010 kl. 12:30
Bottomleinið er það að Bauglaugur er dragbítur á flokknum sem þingmaður. Hann hefur þann valkost að sitja og skemma eða víkja og byggja upp.
Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 5.6.2010 kl. 22:54
Axel Jóhann ég kaus einu sinni sjálfstæðisflokkinn og nú skammast ég mín fyrir það
Sigurður Haraldsson, 7.6.2010 kl. 01:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.