Verður Fréttastofa Útvarps Sögu hlutlaus?

Útvarp Saga hefur aukið hlutstun sína mikið á undanförnum mánuðum, en þar hefur þrifist einhver óþverralegasta fjölmiðlun, sem sögur fara af í bland við ágæta þætti Stigurðar G. Tómassonar, sem reyndar getur ekki talist hlutlaus, og spjallþáttar sem stjórnað hefur verið af Höskuldi Höskuldssyni, með þátttöku ritstjóra Viðskiptablaðsins og forstjóra Brimborgar.

Einstaka aðrir þættir eru hæfir til útsendingar, en þættir sem stjórnað er af eigendum stöðvarinnar, þeim Arnþrúði og Pétri eru algerlega óboðlegir, bæði vegna þess hve stjórnendurnir eru oft illa inni í þeim málum sem um er fjallað og ekki síður þeim ótrúlega ómerkilega málflutningi sem þau viðhafa gegn ýmsum mönnum og málefnum.

Stuttir þættir ofstækismanns um fiskveiðimál og aðallega kvótann, eru hverri útvarpsstöð algerlega ósamboðnir og óskiljanlegt, að maðurinn skuli fá að ausa svívirðilegum hugarheimi sínum yfir hlustendur ár eftir ár.

Haukur Holm hefur verið ágætur fréttamaður í gegnum tíðina og vonandi mun hann ekki reka sína fréttastofu undir sömu formerkjum og eigendur stöðvarinnar kjósa að stjórna sínum þáttum, heldur leggja áherslu á að flytja hlutlausar og vandaðar fréttir, sem hægt verður að treysta.

Standi Haukur undir þeim væntingum, gæti það lagað orðspor stöðvarinnar talsvert.


mbl.is Haukur Holm til liðs við Útvarp Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver segir að Útvarp Saga hafi aukið hlustun á undanförnum mánuðum? Það er bara argasta þvæla. Ertu með gögn sem styðja þessa fullyrðingu?

Kalli (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 20:54

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Nei, reyndar ekki.  Tók þeirra eigin orð trúanleg um það.  Kannski er það ekki áreiðanlegra en margt annað sem þaðan kemur.

Axel Jóhann Axelsson, 2.6.2010 kl. 21:04

3 identicon

Ég er hræddur um það Axel. En Haukur Holm er vandaður maður og fagmaður fram í fingurgóma.

Kalli (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 21:47

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eini sjálfstæðismaðurinn sem þorir að gagnrýna fiskveiðstjórnunina og Hafró er fyrrum alþingismaðurinn Kristinn Pétursson.

Hann hefur reyndar margoft hrakið næstum hverja einustu vísindalegu ályktun stofnunarinnar með faglegum útreikningum, línuritum og ábendingum um lítilsverð mál eins og t.d. það að tekist hafi að margfalda aflann í Barentshafinu á sex eða sjö árum með því að þverbrjóta allar úthlutunarreglur.

Þennan ágæta dreng gátu þið sjálfstæðismenn auðvitað ekki notað inni á Alþingi.

Hræðsluáróður og beinar lygar LÍÚ um að innköllun kvótans stefni útgerð á Íslandi í voða eru settar fram til stuðnings auðugum útgerðarmönnum sem vilja auðvitað ekki láta af hendi möglunarlaust það sem þeir hafa fénýtt án endurgjalds.

Í vísindagögnum Hafró og þvættingi LÍÚ stendur ekki steinn yfir steini en það skiptir ykkur sjálfstæðsismenn auðvitað engu máli - eða hvað?

Og ef þú vilt reyna að reka eitthvað af þessum ályktunum mínum ofan í mig þá skal ég glaður mæta þér og þínum svarabræðrum á opnum fundi hvar og hvenær sem er.

Þú mátt taka þetta alvarlega því þetta er áskorun sem þú hlýtur að bregast við.

Ég áskil mér rétt til að fá til liðs við mig Jón Kristjánsson fiskifræðing og Kristin Pétursson.

Við skulum láta reyna á þetta mikla deilumál fyrir fullu húsi. 

Útvarp Saga er LÍÚ mjög skiljanlega fremur til ama en hitt.

Árni Gunnarsson, 2.6.2010 kl. 22:12

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, þetta er einkennileg áskorun, því ég hef hvergi varið núverandi kvótaúthlutun, heldur þvert á móti bloggað um hugmyndir að breytingu á kvótaúthlutuninni.

Það sem ég er ekki sáttur við í málflutningi Eiríks á Útvarpi Sögu er orðbragð hans og talsmáti um þá, sem eru ekki sammála honum.  Þessi ótrúlegi ofstopi mannsins er honum til mikillar skammar og útvarpsstöðinni sem leyfir þennan ósóma til vægast sagt lítils sóma.

Mér hefur alltaf fundist Kristinn Pétursson og Jón Kristjánsson hafa heilmikið til síns máls, en ef takmarka þarf afla á annað borð, verður að notast við einhverskonar úthlutunarkerfi, en þar með er ekki sagt að núverandi kerfi sé ásættanlegt, sérstaklega ekki framsalið og leigubraskið.  Fyrsta skrefið í breytingum væri að afnema kvótabraskið og finna leið til úthlutunar afla, sem almenningur getur sætt sig við og hámarkar einnig afraksturinn af auðlindinni.

Væntanlega erum við sammála um þessi atriði, svo engin ástæða er að skora mig á hólm vegna fiskveiðistjórnarkerfis, sem ég er ekki sáttur við.

Axel Jóhann Axelsson, 2.6.2010 kl. 22:26

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, bendi bloggfærslu mína frá því í janúar s.l., en hana má sjá hérna

Axel Jóhann Axelsson, 2.6.2010 kl. 22:32

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Og til frekari áréttingar þá er rétt að taka fram að skárra er að fást við talsmenn LÍÚ en þingmenn og ráðherra norrænu velferðarstjórnarinnar.

Þar er þingað um innköllun aflaheimilda og uppstokkanir í allar áttir. Síðan eru blásnar út landsfundarsamþykktir um nýja tíma og byltingarkennd áform sem eru tímasett uppá klukkutíma og sjö mínútur eða í mesta lagi níu.

Hvað efndirnar varðar í því efni sem öðrum á þeim bæ þá er líklegasta skýringin sú að þessar samþykktir allar séu á örfilmu og geymdar í gömlum eldspýtustokki í kústaskápnum hjá AGS ásamt öðrum álíka og mér er sagt að þetta sé merkt: Eldspýtustokkur málefnasamnings íslensku ríkisstjórnarinnar númer 27.

Árni Gunnarsson, 3.6.2010 kl. 00:08

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Las færsluna sem þú bentir á. Þar er margt ágætt og mjög í anda þess sem við þessir andófsmenn höfum haldið fram. Það sem þarna sker sig úr er sannfæringin fyrir því að taugaveiklunin varðandi takmarkanir á aflaheimildum sé vísindi.

Það er nú bara svo einfalt að óheftar handfæraveiðar á grunnslóð eru hættulausar öllum nytjastofnum okkar og gæsluvarðahald trillukarlanna bara mannréttindabrot.

Þegar afli tregðast að mun á handfæri þá einfaldlega hætta menn að nenna að fara á sjó enda borgar það sig þá ekki lengur. Þar að auki eru handfærin svo afkastalítil að tölfræðin segir frá einverju prósentubrotabroti af syndandi fiski sem tekur öngul. 

Aftur á móti myndi þetta afturhvarf frá geðbilunni auka heimikið í verðmæta- og atvinnusköpun. Einkum í fámennum sjávarþorpum með fábreytt atvinnutækifæri.

Árni Gunnarsson, 3.6.2010 kl. 00:28

9 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það er reyndar eitt sem að fær aldrei að koma fram í umræðunni um viðskipti með aflaheimildir, þetta sem í daglegu tali er kallað "kvótabrask", er það hversu mikið af þessum viðskiptum, eru vegna hagræðingar útgerðar og hversu mikið er vegna "brasks".  

 Útgerðar og fiskvinnslufyrirtæki sem að er t.d. búið að sérhæfa sig á markaði með karfaafurðir, þarf t.d. ekki mikið meira af öðrum tegundum, en það sem numið gæti, áætluðum meðafla, við karfaveiðar.  Það er því ósköp eðlilegt að það fyrirtæki reyni að komast yfir meiri heimildir í karfa, annað hvort með, skiptum á öðrum tegundum, fyrir karfa eða kaupum á karfa, fjármögnuðum með sölu á öðrum tegundum.

Kristinn Karl Brynjarsson, 3.6.2010 kl. 15:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband