Verðtrygging eða efnahagsstjórn?

Verðtrygging lána hefur verið við lýði hér á landi síðan 1978, eða í 32 ár, en ennþá er fjöldi manna sem telur hana vera vandamál í fjármálakerfinu, en virðast ekki gera sér grein fyrir því að verðbólgan er sjúklingurinn, en verðtryggingin aðeins hitamælir, sem mælir líðan sjúklingsins hverju sinni.

Alveg frá lýðveldisstofnun hefur Ísland nánast verið laust við efnahagsstjórn, nema í fáein ár í einu með löngum verðbólguköflum á milli.  Einstaka sinnum er gert átak til að slá verðbólguna niður, en alltaf er slakað á peningamálastjórninni aftur og allt fer í sama farið.  Ekki bregst þá heldur, að á slíkum tímum er ráðist með offorsi gegn verðtryggingunni, en ekki vandamálinu sem við er að glíma.

Viðskiptanefnd Alþingis er nú enn einu sinni að fjalla um verðtrygginguna og Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögu um að setja þak á verðtryggingu í stað þess að leggja til að efnahagsstjórn landsins verðir tekin föstum tökum og verðbólgan kveðin niður, helst í eitt skipti fyrir öll.

Gylfi Magnússon, hagfræðingur og lausamaður í Viðskiptaráðuneytinu, verður yfirheyrður af nefndinni, en hann er að sjálfsögðu á þeirri skoðun að verðtryggingin sé ekki skaðvaldurinn, heldur lausatök á efnahagsmálum þjóðarinnar.  Hann segir m.a. að:  "Óstöðugt verðlag væri sjúkdómurinn og óstöðugt gengi krónunnar. Það væri ástæðan fyrir því að Ísland væri eina landið í þessum heimshluta með verðtryggingu í þetta langan tíma." 

Gylfi segir einnig að fyrsta og mikilvægasta skrefið væri að taka betur á stjórn peningamála til að hafa hemil á verðlaginu og gengi krónunnar.  Með því telur hann að koma megi meira viti í umræðuna um verðtrygginguna.

Vonandi verður Gylfa að ósk sinni um að farið verði að ráðast að rót vandans í stað þess að ræða endalaust um afleiðingar hans.

 


mbl.is „Yfirheyrsla yfir verðtryggingunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

Ekki hægt að draga úr eða afnema verðtrygginguna af því að þá tapar auðmannahyskið og bankarnir og önnur sambærileg fjárglæpafyrirtæki. Það er mjög auðvelt að bregðast við því með því að VERÐTRYGGJA LAUN STRAX! Allur kostnaður heimilanna er verðtryggður og gengistryggður þannig að útgjöldin eru verðtryggð en tekjurnar ekki sem er hróplegt óréttlæti og hrein fjárplógsstarfsemi og eignaupptaka. Almenningur og handónýt verkalýðsforystan eiga að krefjast VERÐTRYGGINGAR LAUNA STRAX!

corvus corax, 10.5.2010 kl. 11:25

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Undanfarna áratugi hafa laun hækkað meira en neysluverðsvísitalan, sem notuð er til að verðtryggja lán, þannig að sá sem tók lán t.d. fyrir tuttugu árum er að greiða minna hlutfall af launum sínum núna í afborganir og vexti af því láni, heldur en hann gerði, þegar lánið var tekið.

Ekki er sanngjarnt að miða við stutt krepputímabil, þegar verðbólga er mikil, en laun hækka ekki.  Til lengri tíma litið hafa launin hækkað meira, eins og áður sagði og því eykst kaupmáttur fólks, en minnkar ekki, þrátt fyrir verðtrygginguna.  Menn verða að geta skoðað hlutina út frá lengra tímabili en einum klukkutíma aftur og fram í tímann.

Axel Jóhann Axelsson, 10.5.2010 kl. 11:31

3 identicon

Að fólk skuli ekki enn vera farið að sjá að stór hluti vandræðanna með gengissveiflur tengist verðtryggingunni beint - bankar og fjármálastofnanir taka enga áhættu með íslensk lán þegar þeir leika sér með gengi krónunnar, verðtryggingin er þeirra baktrygging. Þess vegna hafa bankarnir ekki haft minnstu hagsmuni af stöðugu gengi og þar af leiðandi engin ástæða til að halda því stöðugu.

Gulli (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 11:53

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er vissulega rétt að verðtrygging er afleiðing af verðbólgu. Samt er það svo að helsta vopn seðlabankans til að stýra verðbólgu og halda henni niðri eru stýrivextir. Þegar lán er verðtryggð hefur stýrivaxtaækkun mjög takmörkuð áhrif.

Gunnar Heiðarsson, 10.5.2010 kl. 12:24

5 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Sæll Axel ! alltaf gaman að kíkja hér hjá þér, þörf og góð mál á dagsskrá sem fyrr.

"Verðtrygging lána hefur verið við lýði hér á landi síðan 1978, eða í 32 ár, en ennþá er fjöldi manna sem telur hana vera vandamál í fjármálakerfinu, en virðast ekki gera sér grein fyrir því að verðbólgan er sjúklingurinn, en verðtryggingin aðeins hitamælir, sem mælir líðan sjúklingsins hverju sinni"

Skrifar þú Axel ! alltaf gaman af myndrænum "metaforum" og gera oft torskilið efni aðgengilegra, en held þú hafir flýtt þér pínu hér, því "sjúklingurinn" hlýtur að vera fjármálakerfið, verðbólgan er þá "sjúkdómurinn"  (sem þú nefndir aldrei, bara sjúklinginn) og þar með vantar okkur hitamælinn (vísitöluútreikningar hagstofu?)  hitamælirinn er allavega ekki verðtryggingin, því hún er lyfið sem átti að stemma stigu við verðbólgunni á sínum tíma,gerði það fyrir rest, en tók reyndar 10 til 12 ár áður en það skeði, og mikil óðaverðbólga í millitíðinni.

Svo útífrá þessu má reyndar deila um hvort verðtrygging sé rétta lyfið við verðbólgu, og hversvegna Ísland eitt landa á vesturhveli þarf einmitt þetta lyf, með öllu sínum aukaverkunum.

Því eins og "Gulli" og reyndar "Corvus Corax" benda á þá eru alltaf einhverjir sem "læra" á þetta kerfi með verðtrygginguna sér til ágóða, meðan "sjúklingnum" batnar ekkert."

Axel " þú lýsir eftir "fastari tökum" í fjármálastjórn landsins, og þar er ekki erfitt að taka heilshugar undir með þér, en getur það ekki alveg eins gilt fastari og ábyrgari stjórn á stýrisvöxtum, sem flestar aðrar þjóðir nota við stjórn á sveiflum í hagkerfi sínu, þeim er nefnilega "hægt" að stýra meðan verðtryggingin hefur tendensa til að lifa eigin lífi, og hleypa verðbólgunni í nýjar hæðir.

Kristján Hilmarsson, 10.5.2010 kl. 12:28

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Stýrivextir seðlabankans virkuðu ekki sem skyldi á "lánæristímanum" vegna þess að bankarnir ruddust með látum inn á íbúðalánamarkaðinn í október 2004 og fóru að lána allt upp í 100% af kaupverði íbúða, án nokkurs hámarks, sem leiddi til gífurlegra hækkana á íbúðarhúsnæði og þegar annað þraut, þá dældu þeir erlendum lánum inn í húsnæðiskerfið, að ekki talað um bílalánin, með lágum vöxtum og þannig var unnið markvisst gegn tilraunum seðlabankans til að hafa hemil á útlánavextinum með stýrivöxtunum.  Með harðari hagstjórn, hefði sjálfsagt verið hægt að takmarka erlendu íbúðalánin, t.d. með hámarksupphæð, en vitað er að fólk lét sig nánast engu skipta, hvað íbúðir kostuðu á þessum árum og bauð bara hærra og hærra, enda enginn vandi að fá lán á lágum vöxtum.  Enginn hafði áhyggjur af gengistryggingunni, enda er hún miklu meira vandamál núna, en nokkurn tíma verðtryggingin.

Á eftirfarandi töflu má sjá breytingar á vísitölu neysluverðs annarsvegar og launavísitölu hinsvegar frá Janúar 1991, fyrst fram að hruni og síðan eins og þær voru í mas s.l. 

Mánuður/VísitalaHækkun í %Launa-Hækkun í %Hækkun launa í %
Ár neysluverðsfrá Jan. 1989vísitalafrá Jan. 1989umfram verðlag
Janúar 1989112,60 100,00  
Sept. 2008315,50180,20352,20252,2039,96
Mars 2010362,90222,29369,00269,0021,01

Fram að hruni hafði vísitala launa hækkað 40% meira en vísitala neysluverðs, sem notuð er til að verðtryggja íbúðalánin og svo vísitölurnar eins og þær voru í mars s.l. og þá hefur bilið minnkað, enda orðið heilt kerfishrun í millitíðinni, en samt sem áður er bilið ennþá 21% launavísitölunni í vil.  Þannig sést að sá sem hefur tekið íbúðalán í janúar 1991 er ennþá, núna eftir hrun að nota 21% minna af ráðstöfunartekjum sínum til greiðslu af láninu, en hann gerði í upphafi.  Þetta er auðvitað miðað við að laun hans hafi fylgt eðlilegri launaþróun á tímabilinu, en auðvitað getur slíkt verið einstaklingsbundið. 

Á næstu árum hlýtur takmarkið að vera, að ná aftur sambærilegum kaupmætti og hann var fyrir hrun og þá mun launavísitalan hækka meira en neysluverðsvísitalan á ný og verðtrygging lánanna verður því ekki sérstakur höfuðverkur fyrir skuldara íbúðalána.  Ef söngurinn um hve verðtryggingin léki íbúðalánaskuldara illa, væri hver einasti maður, sem keypt hefur íbúð undanfarna áratugi gjaldþrota, en svo er auðvitað ekki, því til viðbótar kaupmáttaraukningunni hækkuðu íbúðir lengst af umfram verðlag, þannig að fólk var frekar að hagnast á íbúðakaupum, fekar en að tapa á þeim.

Menn virðast ekki muna hvernig ástandið var hérlendis áður en verðtryggingin var tekin upp, en þá voru breytilegir vextir á lánum og fólk í stökustu vandræðum með að borga af lánunum sínum.  Verðtryggingin var sett á til að hægt væri að bjóða upp á fasta vexti og síðan er verðbótunum bætt á höfuðstólinn og greiðslubyrðinni þannig dreift jafnt út allan lánstímann.

Það hafa alltaf verið háir vextir á Íslandi, þ.m.t. stýrivextir, en hafa Íslendingar nokkurn tíma látið það aftra sér frá því að taka lán, ekki bara húsnæðislán, heldur neyslulán með allt upp í 20% vexti óverðtryggða og 12-14% vexti af verðtryggðum lánum.  Hvernig voru allir jepparnir fjármagnaðir, sumarbústaðirnir, húsbílarnir, húsvagnarnir, mótorhjólin, snjósleðarnir o.s.frv. o.s.frv.  

Það hefur ekki þurft fjármálahrun til þess að menn hafi lent í skuldavanda á Íslandi.  Hér hefur aldrei verið hagstjórn og við aldrei kunnað með peninga að fara, hvorki ég eða flestir aðrir í þessu þjóðfélagi.  Það þarf algera hugarfarsbreytingu varðandi peningamál hérlendis og þar er verðtryggingin ekki helsta vandamálið.

Axel Jóhann Axelsson, 10.5.2010 kl. 14:20

7 identicon

Alveg sammála þér Alex. Það að maður geti bara afnumið verðtryggingu án annara vandkvæða eins og sumir stjórnmálamenn hafa haldið fram, er náttúrulega rugl. Þá þarf fólk jú bara að fara að borga mun hærri vexti í staðinn. Gott innlegg.

Bjarni (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 15:18

8 identicon

Ég átti auðvitað við Axel, ekki Alex.

Bjarni (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 15:18

9 Smámynd: Kristján Hilmarsson

 

Hér er ég kominn aftur Axel

Nei ég veit fullvel að afnám verðtryggingar eitt og sér gerir ekki gæfumuninn og "læknar" sjúklinginn, það þarf auðvitað góða stýringu á öllu kerfinu eins og þú svo réttilega bendir á, og líklega er þetta "útspil" sem fréttin byggir á  bara svona verið að slá sér á brjóst án þess að meina það, en ég læt mig ekki að verðtrygging er ekki gott lyf við við verðbólgu né gott stýritæki fyrir efnahagskerfið í heild sinni, það er of mikill spillingarmöguleiki innbyggður og einnig of mikið stjórnleysi (eigið líf) þó reynt sé að hamast með það hvar og hvernig hún á virka og hvar ekki. 

En þetta með hvernig hlutir voru FYRIR verðtryggingu er nú öðruvísi í mínu minni, en þú lýsir, því það var bara um að gera að reyna að ná í sem mest lán (til skynsamlegra kaupa eins og íbúð t.d.) og svo "vann verðbólgan með manni" þannig að t.d. lífeyrissjóðslán sem við tókum 1973 og dugði fyrir eldhúsinnréttingu með tækjum í blokkaríbúðina hjá okkur var 7 árum seinna (reyndar aðeins búið að greiða af því) ekki nóg fyrir eldhúsviftu einusinni þegar við gerðum það upp vegna sölu á íbúðinni, sama og/eða svipað stóð til með bankalánið á íbúðinni, sem kaupandi leysti út með nýju verðtryggðu (greyið) svo á þessum tíma var gott að vera skuldari en glatað að vera lausafjáreigandi,svo snerist það alveg á haus við verðtrygginguna láttu mig um það, missti næstum allt ofan af mér, það er einkennilegt hvernig alltaf hefur verið svona óréttlát stór eignafærsla frá einum hópi til annars í þessu þjóðfélagi.

Þetta gat auðvitað ekki gengið, svo þá datt einhverjum snillingum í hug að setja verðtryggingu á allt, en það leið ekki á löngu þar til var farið að fjarlægja hana af launum og stilla og hamast með hana eftir þörfum fjármagnseigenda án tillits til þjóðarhags, og þar er þetta núna.

Taflan sem þú setur upp á innleggi nr. 6 og textinn á eftir segir okkur margt og ekki síst ef við nennum að lesa "milli lína" nú vitum við báðir að vísitala neyslu er næstum "geðþótta" útreiknuð og hefur alltaf verið og er umdeild, svo taka verður hana með gagnrýnum augum, en það sem stendur á eftir töflunni er öllu athyglisverðara" fram að hruni hafði vísitala launa hækkað 40% meira en vísitala neysluverðs» sem auðvitað segir okkur að önnur hvor vísitalan hefur verið kolrangt reiknuð og allt heila klabbið falið og falsað í erlenda lánasukkinu, sem svo aftur sló tilbaka af fullum þunga við hrunið.

Þú segir svo í lokin:  "Það hefur ekki þurft fjármálahrun til þess að menn hafi lent í skuldavanda á Íslandi.  Hér hefur aldrei verið hagstjórn og við aldrei kunnað með peninga að fara, hvorki ég eða flestir aðrir í þessu þjóðfélagi.  Það þarf algera hugarfarsbreytingu varðandi peningamál hérlendis og þar er verðtryggingin ekki helsta vandamálið." Þó ég væri allur af vilja gerður get ég ekki annað en tekið undir þetta og skrifað undir það SJÁLFUR einnig eins og þú gerir, það var skrítið að koma hér út og hvernig tekið var á móti manni hjá lánastofnunum ,fjárfesting metin, tekjur teknar inn í dæmið og ráðleggingar á færibandi, kann við fyrstu sýn að virðast sem einskonar frelsisvifting en er akkúrat öndverðan, því það er alveg hægt að keyra sig um koll hér líka og skeður hvern dag, en með góðri eigin fjármálastýringu öðlast maður frelsi sem mann óraði ekki fyrir að fyndist.

Þú ert dómharður á okkur íslendinga Axel og ekki að ástæðulausu, í því sambandi er verðtrygginging kannski bara nokkuð sem landinn á skilið vegna vankunnáttu með peninga og fjármála yfirleitt sbr. þetta hér:

Indexation has been very important in high-inflation environments, and was known as monetary correction "correção monetária" in Brazil from 1964 to 1994. Some countries have cut back significantly in the use of indexation and cost-of-living escalation clauses, first by applying only partial protection for price increases and eventually eliminating such protection altogether when inflation is brought down to single digits. LINKUR

Semsagt mjög mikið notað á háverðbólgusvæðum, og svo stendur seinna að" sum lönd hafa minnkað verulega áhrif verðtryggingar fyrst að hluta  og seinna meir afnumið hana alveg þegar verðbólgan er komin niður á eins stafa tölur (undir 10%) en þetta var nú ekki gert á Íslandi, þurfa alltaf að vera aðeins kapólskari en páfinn.

Ég er með tvö lán á húsinu hér í Noregi, annað er svona veðdeildarlán ,með föstum vöxtum, sem er gott að því leyti að ég veit hvað ég greiði sama hverjir stýrisvextir eru, hitt "topplánið" frá bankanum er á "fljótandi" vöxtum sem fylgja stýrisvöxtum seðlabankans upp og/eða niður hefur hæst farið í 17% (eftir banka "hrunið" hér 1991) og lægst í 5% en engar verðbætur !! er núna um 6 % ég gæti valið að hafa allt eða hluta á föstum vöxtum, sem yrðu pr. í dag um 7 til 8% allt eftir gildistíma, en ég er smá "gamblari" af guðs náð svo ég hef þá fljótandi.

HVERSVEGNA EKKI HÆGT ER AÐ HAFA SVONA FYRIRKOMULAG Á GAMLA FRÓNI, skil ég ekki nema ef lýsing þín á landanum og skorti á efnahagskunnáttu  hans Axel !, er svo umfangsmikil að það sé vonlaust.

En hugarfarsbreytingu já !! kannski, núna er tækifærið, í gegn um áratugi "slumpaðist" þetta einhvernveginn, en nú kannski hafa menn lært, eða hvað??

MBKV að "Utan"

KH

Kristján Hilmarsson, 10.5.2010 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband