9.5.2010 | 21:43
Bestaflokksbrandarinn bliknar hjá þessum
Litið hefur verið á framboð "Besta flokksins" sem fyndið framboð og því tekur fólk því ekki alvarlega og ekki líkur á að það fái mikið fylgi, þegar kemur að kosningum. Að vísu hafa frambjóðendur flokksins breytt nokkuð um stefnu undanfarið og farið að láta eins og framboðið sé alvöruframboð og aðstandendur þess langi í raun og veru til að setjast í borgarstjórnina.
Nú er komið nýtt framboð, sem kynnir sig sem alvöruframboð, en er miklu fyndnara en "Besti flokkurinn", en það er Reykjavíkurframboðið. Listinn er leiddur af varaþingmanni Hreyfingarinnar og þó ekki sé boðið fram í hennar nafni, hlýtur að mega reikna með því að tengin sé þar á milli.
Samkvæmt fréttinni er eftirfarandi hluti af stefnuskrá Reykjavíkurframboðsins: "Reykjavíkurframboðið vill ennfremur að hið minnsta sjö milljarðar króna verði nýttir til að efla atvinnustig og nýsköpun og eyða kreppuáhrifum á borgarbúa, svo hvorki þurfi að hækka útsvar og þjónustugjöld né að draga úr þjónustu við borgarbúa."´
Þar sem Reykjavíkurframboðið ætlast greinilega ekki til að það verði tekið alvarlega, þá kemur ekkert fram um það hvar þeir ætli að taka sjömilljarða, án þess að hækka útsvar eða þjónustugjöld, hvað þá að draga úr þjónustu við borgarbúa. Jafnvel þó taka ætti lán fyrir þessu, þá þyrfti væntanlega að endurgreiða það og varla yrði það gert nema með skattfé borgarbúa.
Það fyndnasta er náttúrlega loforðið um að eyða kreppuáhrifunum á borgarbúa, en þar býr rúmlega helmingur þjóðarinnar og þrátt fyrir fjórtán mánaða setu, hefur ríkisstjórninni ekki tekist að eyða kreppuáhrifunum á þjóðarbúið og enginn reiknar heldur með því að það takist, nema á mörgum árum.
Borgarstjórnarkosningarnar í vor verða greinilega mikil barátta á milli fyndinna uppistandara.
Fara gegn fjórflokknum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Axel, ég skil ekki hvernig þú getur agnúast út í ný framboð með þessum hætti? Bestaflokksaðdáendurnir jörðuðu þig fyrir að kalla þá langan og leiðinlegan brandara. Ég gat ekki beint séð að þú hefðir fengið jákvæðar viðtökur við þeim pistli frekar en Ólína Þorvarðardóttir.
Af hverju slakarðu ekki bara á og ert bara ánægður með að fá svona gott úrval á kjörseðilinn? Þú ert vonandi ekki gamalt íhald sem kýst með miðtaugakerfinu í stað heilans er það?
Haukur Nikulásson, 9.5.2010 kl. 23:15
Haukur, ég verð nú bara að segja, að allar fregnir af andláti mínu og útför eru stórlega ýktar. Þó athugasemdir grínaranna hafi verið margar, þá jörðuðu þeir engan og allra síst mig.
Ég er afskaplega ánægður með svona mikið úrval grínframboðum, því ég er gamansamur maður og hef sérstaka ánægju af öllu svona sprelli.
Ég greini líka á milli gamans og alvöru og er þar að auki gamalt íhald. Þar sem ég er hins vegar ekki læknislærður, geri ég mér ekki almennilega grein fyrir hvernig miðtaugakerfið virkar í svona kosningum.
Ég treysti þér til að útskýra það betur og ekki síður kosningagrínið um eyðingu kreppuáhrifanna á Reykjavík. Hvers á annars landsbyggðin að gjalda?
Axel Jóhann Axelsson, 9.5.2010 kl. 23:28
Axel, það að kjósa með miðtaugakerfinu er að framkvæma lærða ómeðvitaða hreyfingu á kjörseðilinn. Þú leitar að kennileitinu þínu og kýst. Og hugsar bara ekkert meira um það. Tókst ákvörðun fyrir nokkrum áratugum að gera þetta og hefur ekki breytt því síðan. Þetta gerði ég líka.
Ég reykti og hætti því fyrir 6 árum síðan. Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn lengur en ég kæri mig um að viðurkenna og hætti því fyrir rúmum 4 árum síðan. Mér finnst núna jafngott að vera laus við báða þessa lesti og þarf því ekki lengur að verja stjórnmálamenn sem voru bara að vinna fyrir sig, ekki aðra.
Haukur Nikulásson, 9.5.2010 kl. 23:56
Fyrirgefðu, landsbyggðin að gjalda í hverju? Að við færum flugvöllinn? Það verður áfram flugvöllur í Reykjavík, það er bara della að hann verði alltaf á besta og dýrasta stað borgarinnar. Sumir landsbyggðarþingmenn eru svo frekir á flugvöllinn að þeir vilja helst að flugbraut vallarins nái allt inn í matsal Alþingis svo þeir þurfi ekki að labba of lengi!
Vatnsmýrin er framtíðarsvæði í blandaðri byggð. Hún verður hins vegar ekki nothæf eða veðhæf sem eign fyrr en blandað byggðarskipulagið hefur verið samþykkt. Verðmætin þarna má að hluta nota strax til að fleyta borginni í gegnum erfiðasta hjalla kreppunnar. Hvert sveitarfélag fyrir sig verður að vernda eigin hagsmuni. Reykjavík mun þurfa á verulegum fjármunum til að halda Orkuveitu Reykjavíkur á floti næstu árin. Spákaupmennskan þar hefur gengið mjög nærri fyrirtækinu.
Haukur Nikulásson, 10.5.2010 kl. 00:03
Axel - Jón Gnarr veit sjálfur að hann á ekkert erindi í Borgarstjórn - fíflagangur hans á fundinum um daginn þar sem hann tilkynnti að hann drægi framboðið til baka en sagði svo - djók - lýsir framboði hans vel- djók -
Meinið er að fólk er orðið svo firrt að það gæti vel gerst að það kysi þennan mann.
Og jafnvel þetta nýja framboð. Svona einn og einn.
Haukur - ásakanir þína á borgarfulltrúana eru alvarlegar -
Ég veit ekki til þess að Dagur B hafi hagnast á því að vilja útrás OR upp á milljarðatugi - ég veit heldur ekki til þess að borgarfulltrúar sem stóðu á móti því hafi hagnast á því -
Hvaða verk eru það sem borgarfulltrúar ( hvar í flokki sem þeir standa ) hafa framkvæmt sem bera þess merki að þeir hafi "bara verið að vinna fyrir sig".
Þú talar reyndar þannig að þú virðist eiga eingöngu við borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ég fullyrði hinsvegar að enginn borgarfulltrúi - hvar í flokki sem hann stendur sé því marki brenndur sem þú setur á þetta fólk.
Komdu með sannanir fyrir þessu eða vertu maður til þess að biðja þetta fólk afsökunar á orðumþínum.
Ólafur Ingi Hrólfsson, 10.5.2010 kl. 05:53
Ólafur Ingi,
Það að vera aðgerðarlaus og þægur liðsmaður spillingarinnar þýðir í mínum huga samábyrgð. Þessu fólki á hiklaust að skipta út núna. Ef þú heldur að ég beri einhvern kinnroða fyrir því að krefjast breytinga og muni biðja fólk afsökunar sem situr í ónýtu kerfi sem það ýmist tók þátt í að koma á hvolf eða þáði mjög góð laun fyrir aðgerðarleysi sitt, þá máttu bíða endalaust. Ef einhver borgarfulltrúa telur að sér vegið af minni hálfu þá gerir viðkomandi bara eitthvað í því. Ég skelf ekki mikið.
Hvernig dettur þér í hug að fólk muni EKKI krefjast breytinga í kjölfar efnahagslegrar eyðileggingar og spillingar?
Haukur Nikulásson, 10.5.2010 kl. 06:47
Haukur, ég óska þér til hamingju með árangurinn í reykbindindinu, en ég hef nú orð læknis fyrir fyrir því að það getur lagst illa á taugakerfi manna að hætta reykingum og fólk geti verið afar lengi að komast í eðlilegt andlegt ástand eftir slík átök.
Þar sem þetta framboð ykkar er greinilega hreint brandaraframboð, tekur því ekki að vera að svara eins og um einhverja alvöru sé að ræða, en þó mætti benda þér á að brandarinn verður beinskeyttari og jafnvel fyndnari, ef gríninu er beint að einhverju ákveðnu máli, en ekki öllu grautað saman, þ.e. borgar- og landsmálum í sömu setningunni. Hins vegar er grínið gengið of langt, þegar heiðvirt fólk er sakað um að vera siðspillt, óheiðarlegt og liðsmenn spillingar.
Ólafur bað þig um sannanir fyrir máli þínu, en þú bætir bara í hortugheitin og ásakanirnar, án þess að finna þeim nokkurn stað. Fyrst þú sérð ekki ástæðu til að svara því sem til þín er beint, er engin ástæða til að svara þér frekar.
Þú þyrftir að greina betur á milli grínsins og alvörunnar, því annars er hætta á að fólk haldi að þú sért ekki að grínast.
Axel Jóhann Axelsson, 10.5.2010 kl. 08:31
Ég átti aldrei von á því að breyta þínum skoðunum Axel. Það var ekki heiðvirt fólk sem kom okkur á hausinn. Líklega finnst þér að þetta hafi bara verið mistök eða óheppni. Okkur finnst sumum að það sé ekkert að því að skipt sé út fólki í stjórn borgarinnar. Þú hefur greinilega mikið óþol fyrir því að kássast sé svona upp á Sjálfstæðisflokkinn og að hann eigi að vera áfram ósnertanlegur og sitja áfram. Það er tregða sem ég skil og var sekur um sjálfur allt of lengi.
Haukur Nikulásson, 10.5.2010 kl. 16:33
Þú kemst aldrei langt í pólitík með því að tönglast stöðugt á því að allir aðrir, sem á þeim vettvangi starfa, séu siðlausir glæpamenn og nautheimskir þar að auki. Enn síður ef þú ræðst með sama hætti að hugsanlegum kjósendum.
Annars skiptir það ekki máli, því enginn tekur þetta framboð alvarlega hvort sem er. Besti flokkurinn segir brandara og þið ætlið að beita töfrabrögðum til að láta kreppuna hverfa. Enginn getur kvartað yfir svona skemmtilegheitum í aðdraganda kosninga.
Axel Jóhann Axelsson, 10.5.2010 kl. 16:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.