14.4.2010 | 10:33
Bankaeftirlit hvergi nógu mikið - allir sjá það núna
Eftir efnahagshrunið árið 2008 hefur komið í ljós að bankaeftirlit hefur alls staðar verið í lágmarki og tók frekar mið af hagsmunum bankanna sjálfra en viðskiptamanna þeirra. Mikil umræða hefur verið í Bandaríkjunum um allt of slakt bankaeftirlit, sem ekki hafði yfirsýn yfir það sem var að gerast þar í landi, t.d. vegna húsnæðislánanna, sem að lokum ollu lausafjárþurrð í fjármálakerfinu og ýtti gjaldþrotakeðju bankanna af stað.
Hér á landi hefur Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn legið undir miklum ásökunum um að hafa ekki fylgst nógu vel með innra starfi bankanna, sem þó blésu út, tuttugufalt á fáeinum árum, án þess að hið opinbera kerfi næði að fylgja þeim útblæstri eftir af sinni hálfu, enda treystu þessir aðilar meira og minna á upplýsingar frá bönkunum sjálfum og löggiltum endurskoðendum þeirra. Ábyrgð þessara löggiltu endurskoðenda er því mikil og viðbúið að fjöldi þeirra muni sæta ákærum fyrir óvönduð vinnubrögð og villandi áritanir á uppgjör bankanna.
Nú stígur Gordon Brown fram og biðst afsökunar á þeim mistökum, að hafa ekki í fjármálaráðherratíð sinni innleitt strangari löggjöf og eftirlit með breskum bönkum, enda hefur breski ríkissjóðurinn þurft að dæla ótrúlegum upphæðum til björgunar bankakerfisins, án þess þó að geta bjargað öllum bresku bönkunum.
Um þetta segir í fréttinni: "Sannleikurinn er sá að jafnt á heimsvísu sem og hér í Bretlandi hefðum við átt að auka eftirlitið með bönkunum, er haft eftir Brown í breskum fjölmiðlum. Hann segist nú sjá að hann hefði hátt að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi en ekki bankanna, en tekur fram að hann hafi lært af reynslunni."
Reynslan hefur verið dýrkeypt í Bretlandi, þeirri aldagömlu banka- og viðskiptamiðstöð, þó þeirra banka- og viðskiptlífi hafi líklega ekki verið stjórnað af eintómum skúrkum, eins og raunin var hérlendis.
Það geta allir lært af þessari reynslu eins og Brown, en fyrir almenning var þetta dýrt nám.
Gordon Brown viðurkennir mistök | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
VIð vissum þetta öll, en það voru ráðamenn sem ekki vildu viðurkenna klúðrið.
Ásdís Sigurðardóttir, 14.4.2010 kl. 11:57
Vandamálið er líka það að við vitum í raun ekki hversu mikið eftirlit er búið að vera síðan í hruninu. Mér fannst Jónas Fr. ekki vera að slá sig ýkja mikið til riddara með því að tala um að Fjármálaeftirlitinu undir hans stjórn hefði verið treyst til þess að taka yfir bankana og skipa skilanefndir. Við vitum hvernig til tókst og skilanefndirnar voru skipaðar í byrjun. Fyrst og fremst voru þar fyrrum háttsettir aðstoðarmenn "bankaræningjanna" sem sjálfsagt hafa fengið góða og öfluga pappírstætara í hendur. Það er full þörf á því að skoða tímabilið frá október 2008 og til dagsins í dag, því margt af því sem gert hefur verið innan bankanna og að hluta til hefur spurst út, þolir illa dagsbirtuna.
Jón Óskarsson, 14.4.2010 kl. 13:41
Það er alveg rétt Jón, að helst hefði þurft að framlengja umboð Rannsóknarnefndar Alþingis og láta hana fara ofan í saumana á því sem verið hefur að gerast í bankakerfinu eftir hrun. Fyrr eða síðar hljóta þau mál að verða tekin til rannsóknar.
Fjármálaeftirlitinu var eingöngu falið að skipa skilanefndirnar vegna þess að Samfylkingin treysti ekki Seðlabankanum undir stjórn Davíðs til þess, en það var upphaflega hugmyndin, að Seðlabankinn hefði umsjón með endurreisn bankanna.
Þess vegna er óþarfi af Jónasi Fr. að hælast um vegna traustsins sem honum var sýnt, því verkefnir var flutt til Fjármálaeftirlitsins burtséð frá nokkru trausti á honum persónulega. Þetta var pólitík, eins og flest annað.
Axel Jóhann Axelsson, 14.4.2010 kl. 14:29
Hef það á tilfinningunni að Gordon sé viðriðin þessu sukki hér, búin að finnast það allan tíman.
Sigurbjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.