Er ríkisstjórnin að undirbúa Alþingiskosningar?

Undarlega skjót umskipti hafa orðið í málflutningi stjórnarliða varðandi afskriftir skulda til þess hluta almennings, sem tók há erlend lán í "lánærinu", sem nú eru orðin illviðráðanleg og urðu það strax við gengisfallið á hruntímabilinu á seinni hluta ársins 2008.

Þá strax lagði Framsóknarflokkurinn til 20% flata skuldalækkun til allra og Tryggvi Þór Herbertsson viðraði svipaðar tillögur og Lilja Mósesdóttir lagði til skuldaniðurfellingu með fastri krónutölu, til þess að þeir sem óvarlegast fóru í lántökum og tóku hæstu lánin og væru tekjuháir, fengju sömu krónutölu í niðurfellingu og þeir tekjulágu.

Þingmenn Samfylkingar og VG töldu þessar tillögur algerlega óframkvæmanlegar og að þær væru einungis lýðskrum, sem ekki stæðist neina skoðun.  Nú allt í einu, hringsnúast þessir sömu þingmenn, í einu hendingskasti, eins og góðglaður þingmaður orðaði það, og keppast um að krefjast niðurfellinga á skuldum einstaklinga og þá eingöngu þeirra sem keyptu bíla á erlendum lánum og því meiri niðurfellingu, sem meira var bruðlað í bílakaupunum og algerlega óháð tekjum viðkomandi skuldara.

Fremstur í flokki þeirra, sem hringdansinn stíga nú, er Árni Páll Árnason, sem alls ekki hefur mátt heyra minnst á svona hugmyndir fram að þessu, en er nú allt í einu orðinn harðasti talsmaður bílalánaafskriftanna.  Sumir halda að þessi harði tónn Árna Páls núna, sé fyrirboði framboðs hans til formennsku í Samfylkingunni, en aðrir halda því fram, að hann óttist einfaldlega niðurstöður skoðanakannana, sem hafa sýnt hrun í fylgi Samfylkingarinnar undanfarna mánuði.

Svo eru enn aðrir sem telja að stjórnin sé komin að fótum fram og segi af sér fljótlega.

það er ekki verri skýring, en hver önnur, á þessum almennu sinnaskiptum stjórnarliða.


mbl.is Bankarnir hafa svigrúm til afskrifta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan dag hér.

Sagði ekki þessi "góðglaði þingmaður" "á einu augabragði"?

Árni (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 15:58

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Jú, alveg rétt, þetta var misminni hjá mér, auðvitað talaði hann um að hringsnúast "á einu augabragði, á eeeinuu augabraaagði".

Axel Jóhann Axelsson, 16.3.2010 kl. 16:09

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Axel. Þarna ert þú að rugla og bulla. Stjórnarþingmenn hafa aldrei haldið öðru fram en að það sé hægt að afskrifa lán umfram greiðslugetu enda þau hvort eð er töpuð. Árni Páll er búinn að reyna að ná samkomulagi við lánafyrirtæki um aðferðafræði við það og náði vissum árangri síðasta haust en þó engan vegin fullnægjandi. Núna er hann einfaldlega búinn að gefast upp á því og ætlar að knýja fram afskriftir af lánum umfram 110% af veðum á bílalánum eins og sum lánafyrirtæki hafa boðið af húsnæðislánum. Þetta er því ekki neinn viðsnúningur.

Árni Páll og flestir aðrir stjórnarþingmenn hafa hins vegar haldið því fram að fullyrðing framsóknarmanna og Tryggva Þórs um að afskriftir á skuldasöfnum gömlu bankanna við sölu þeirra til nýju bankanna gæfi svigrúm til flatra afskrifta fyrir línuna án tillits til greiðslugetu. Sú fullyrðing stendur enn enda er sú fullyrðing framsóknarmanna enn sama bullið og hún var á síðasta ári.

Þetta stafar af því að við mat á þessum afskriftum samþykktu kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna aðeins að taka á sig afskriftir vegna lána, sem ekki er unnt að innheimta að fullu. Þeir samþykktu ekki að taka á sig neinar aðrar afskriftir og meðan lánin hafa ekki verið dæmd ólögleg af Hæstarétti þá er ekki hægt að þvinga þá til þess. Afskriftir lánasafnanna miðuðu því aðeins við óhjákvæmilegar afskriftir lána vegna skorts á greiðslugetu skuldara. Það er meira að segja í samningunum ákvæði um endurskoðun á kaupverði þessara lánasafna árið 1012 ef í ljós kemur að unnt verði að innheimta meira en gert var ráð fyrir þegar samið var um verð á lánasöfnunum, sem miðaði við verstu mögulegu útkomu. Í stuttu máli þá borguðu nýju bankarnir það fryrir lánasöfnin, sem telja má nær öruggt að hægt verði að innheimta og síðan verður mögulegt hlutfall innheimta endurmetið árið 2012 og þá greiða nýju bankarnir að öllum líkindum viðbótagreiðslur fryrir lánasöfnin nema hér fari allt á versta veg.

Það hefur því allt tíð verið ljóst að afskriftir skulda hjá þeim, sem eru borgunarmenn fyrir sínum skuldum bitnar beint á eigin fé bankanna og þar, sem þeir voru stofnsettir með lágmarks eigin fé þá kallar það á viðbótar eiginfjárframlag, sem því nemur. Það er engum öðrum til að dreifa til að greiða það en ríkissjóði og þar með skattgreiðendum. Þó lýðskrumarar á borð við Framsóknarflokkinn, Tryggva Þór og Hagsmunasamtök Heimilanna haldi öðru fram þá er þetta sú blákalda staðreynd, sem við búum við.

Sigurður M Grétarsson, 16.3.2010 kl. 16:54

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, það væri hægt að rifja upp fjölda ummæla stjórnarþingmanna og ráðherra um þetta efni síðast liðið ár, en nú hef ég hins vegar ekki tíma til að fletta því upp.

Þegar þú talar um yfirfærslu lánasafna úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju, þá eiga þær skýringar þínar, sem vel mega vera réttar. ekki við um bílalánafyrirtækin, því þau eru ekki farin á hausinn ennþá.  Í tilfelli húsnæðislánann mætti einnig vel rökstyðja það, að sanngjarnt væri að láta þá sem varlega fóru í sínum fjármálum njóta þeirrar fyrirhyggju, en ekki verðlauna eingöngu þá, sem ofgerðu sér í fjárfestingum, að ekki sé minnst á að hafa látið sér detta í hug að taka erlend lán fyrir öllu saman. 

Ef á að fara í afskriftir á annað borð ætti að gæta jafnréttissjónarmiða og dreifa afskriftagetu bankanna á alla skuldara, en ekki, eins og áður sagði, eingöngu á þá sem óvarlega fóru.  Í sambandi við þá kynningu, sem Árni Páll, átrúnaðargoð þitt, hefur kynnt varðandi bílalánin, verðu ekki annað séð, en að þeir fái mestu afskriftirnar, sem ofgerðu sér mest í bílakaupunum, en hinir eiga auðvitað einskis að njóta vegna fyrirhyggju sinnar.

 Þetta er væntanlega það jafnréttisþjóðfélag, sem fyrsta hreina vinstri sjórnin á Íslandi ætlar að koma hér á.

Axel Jóhann Axelsson, 16.3.2010 kl. 18:46

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Kosningar?

Maður spyr sig

Gunnar Heiðarsson, 16.3.2010 kl. 22:53

6 Smámynd: Jón Óskarsson

Sigurður:  Mikið eru menn fljótir að gleyma.  Árni Páll hefur undanfarið snúist og er loks farinn að tala um lækkanir á höfuðstól og niðurfellingar skulda en þú gætir spilað fjölmörg viðtöl við hann sem tekin hafa verið eftir ríkisstjórnafundi síðastliðið ár og þar hefur hann verið með stóryrtar yfirlýsingar um að ekki komi til greina að lækka höfuðstól lána og fleira í þeim dúr.  Reyndar oftar en ekki talað niður til hins almenna kjósanda í landinu.

Jón Óskarsson, 18.3.2010 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband