15.3.2010 | 13:25
Vextir þyrftu nú að lækka niður í 2%
Greining Íslandsbanka spáir, að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ekki lækka stýrivexti um nema 0,25-0,50% við vaxtaákvörðun sína, núna í vikunni.
Enn og aftur vekur það furðu, að í þeirri algeru stöðnun sem hér ríkir á öllum sviðum framkvæmda, skuli vöxtum ennþá vera haldið þeim hæstu í Evrópu, ef ekki í heiminum öllum og að Seðlabankinn skuli beita þveröfugum aðferðum við alla aðra Seðlabanka í vaxtamálum. Nánast alls staðar annarsstaðar eru stýrivextir seðlabanka frá 0-2% og er það auðvitað gert til þess að örva efnahagslífið og halda hjólum atvinnulífsins gangandi.
Hér er borið við, að verðbólga sé ennþá há, en það skýrist nær eingöngu af skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar, sem dregur úr allri eftirspurn í þjóðfélaginu, sem aftur eykur vanda fyrirtækjanna og eykur atvinnuleysið. Ef vel ætti að vera, ætti Seðlabankinn núna að snara stýrivöxtum sínum niður í 2% og innlánsvöxtum bankanna niður í 1%, sem yrði til þess að þeir færu að lána til arðbærra verkefna úti í þjóðfélaginu, en það gera þeir ekki á meðan Seðlabankinn greiðir þeim hærri vexti, en bankarnir geta fengið á almennum markaði.
Furðulegast af öllu er þó, að bera því við, að ekki sé hægt að lækka vexti hér innanlands vegna þess að ekki sé búið að leysa Icesave málið, því vandséð er hvernig sú fjárkúgunarkrafa getur haft áhrif á vexti í viðskiptum milli íslenskra aðila í íslenskum krónum, enda mun erlent fjármagn ekki flæða hér inn í landið, hvorki þó fjárkúguninni verði hrundið, eða undan henni látið.
Það eru ódýr rök, að halda vöxtum háum núna vegna verðbólgu, sem mun fara hratt niður, þegar áhrif skattahækkanabrjálæðisins verða að fullu komin fram, enda myndu lágir vextir við þessar aðstæður frekar leiða til enn hraðari lækkunar verðbólgunnar.
Spá vaxtalækkun í vikunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Axel.
Ríkissjóður er rekin með miklum halla, ríkið og almenningur eyðir meira en við spörum. Þjóðin treystir á aukin innlendan sparnað til að fjármagna hallann. Það er því mjög mikilvægt að auka sparnað. Þrátt fyrir háa vexti sem nemur um 9% ársávöxtum eru ekki nógu margir tilbúnir að spara. Er rétt í þeirri stöðu að lækka vexti sem eykur neyslu og dregur úr sparnaði?
Bragi Sigurður Guðmundsson, 15.3.2010 kl. 15:34
Sparnaður í landinu er mikill um þessar mundir og nýlega kom fram að innlán í nýju bönkunum næmu nú um 1.800 milljörðum króna, sem bankarnir eru aðallega að ávaxta í Seðlabankanum, sem væntanlega þarf að taka lán til að fjármagna vaxtagreiðslurnar til bankanna, eða prenta seðla, sem aftur eykur verðbólgu.
Það er nánast engin eftirspurn eftir nokkrum sköpuðum hlut í hagkerfinu og atvinnuleysi eykst stöðugt. Þar er alveg bráðnauðsynlegt, að bankarnir fari að lána til arðbærra framkvæmda, en auðvitað ekki í einkaneyslu og lúxus, eins og var gert á "lánæristímanum".
Eins og staðan er núna, þora bankarnir ekki að lána til eins eða neins, enda er þeim stjórnað af almenningsálitinu, sem vakir yfir hverri hreyfingu þeirra og kröfurnar um skuldaniðurfellingar hjálpa ekki upp á sakirnar, því lánastofnanirnar vita ekkert upp á hverju verður tekið í ríkisstjórninni, sem segir eitt í dag og annað á morgun, þannig að þær vita ekkert hver raunveruleg staða þeirra verður í næsta mánuði og enn minna geta þær spáð til lengri framtíðar.
Á meðan þetta ástand varir, gerist ekkert.
Axel Jóhann Axelsson, 15.3.2010 kl. 16:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.