Eyðilegging samkeppnismarkaðar

Á verktakamarkaði hefur alltaf ríkt mikil samkeppni og hart barist um hvert verkefni, sem boðið er út.  Svo hefur alltaf verið og meira að segja í góðærinu voru undirboð risanna á þessum markaði allsráðandi, því keppikeflið var að blása fyrirtækin út og þau tóku virkan þátt í gulldansinum, með því að ráðast sjálf í byggingar á alls kyns húsnæði, bæði íbúðum og atvinnuhúsnæði, rekin áfram af græðginni, sem gróðavonin af sölu eignanna magnaði.

Nú eru þessi stóru fyrirtæki flest komin að fótum fram vegna gífurlegra erlendra skulda, sem þau steyptu sér út í, á "lánæristímanum" og komin með neikvætt eigið fé upp á tugi milljarða króna, sem í öllum venjulegum skilningi þýðir einfaldlega gjaldþrot.

Nýlega bárust fréttir af því, að búið væri að "endurskipuleggja" Íslenska aðalverktaka og fólst sú "endurskipulagning" í því, að Arion banki situr uppi með tugmilljarða skuldir, en fyrri eigendur halda sínu í einhverskonar felubúningi.  Enn berast fréttir af slíkri "endurskipulagningu" byggingarverktaka, nú Eyktar hf., en sú samstæða var með neikvætt eigið fé upp á tæpa tuttugu milljarða króna og ætti því samkvæmt öllum eðlilegum viðskiptalögmálum að vera búið að lýsa sig gjaldþrota.  Það hefur samsteypan hins vegar ekki gert og tekur þátt í öllum útboðum sem bjóðast og býður oft svo lág verð, að önnur fyrirtæki á markaðinum geta alls ekki keppt við þau.

Ef til vill lýsir eftirfarandi málsgrein vel, þeim hugsunarhætti sem ríkir hjá mörgum þeim aðilum, sem bíða bara eftir tugmilljarða skuldaafskriftum hjá bönkunum, í þessu tilfelli Íslandsbanka: 

"Pétur Guðmundsson, eigandi Holtasels ehf., segir í Viðskiptablaðinu stöðu félagsins og dótturfélaga þess vera fína. Verið sé að vinna að þeim málum sem þurfi að vinna að með viðskiptabanka samsteypunnar. Hann hefur ekki áhyggjur af stöðunni."

Ef hægt er að meta þessa stöðu fína, þá er það væntanlega vegna þess, að bankinn mun afskrifa skuldirnar og eftir það mun Eyktin hafa betri stöðu en nokkru sinni fyrr, til að undirbjóða aðra verktaka á markaðinum, sem ekki hafa fengið slíka "endurskipulagningu" fjármála sinna, enda farið varlegar í sínum rekstri, heldur en Íslenskir aðalverktakar, Eyktin og fleiri.

Svona "hreingerningar" í skuldasukki einstakra fyrirtækja enda á þann veg, að þau fyrirtæki sem hafa verið rekin á varlegan hátt, fram að þessu, verða rekin í þrot vegna þess að þau munu ekki geta keppt við "hreinsuðu" fyrirtækin í framtíðinni.

Í nafni sanngjarnrar samkeppni ætti að leysa þessi skuldafyrirtæki upp og gefa betur reknu fyrirtækjunum kost á að kaupa rekstur þeirra, enda engin sanngirni í því fyrir þau, að þurfa að keppa á hörðum markaði við fyrirtæki, sem í raun eru í eigu bankanna.


mbl.is Eykt skuldar 44 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband