22.2.2010 | 11:09
Ekki gott útlit með evruna
Fjárfestirinn George Soros, sem mikið mark er tekið á í fjármálalífi alls heimsins, telur framtíð evrunnar vægast sagt óvissa. Helstu rök hans eru þau, að á bak við gjaldmiðil þurfi að standa ríkissjóður og seðlabanki, þ.e. ein ákveðin stefna í ríkisfjármálum.
Til þess að evran geti gengið sem gjaldmiðill í Evrópu, þarf að setja öll löndin undir eina efnahagsstjórn og einn seðlabanka. Til þess að svo verði, þarf ESB að breytast og verða að einu stórríki, með eina stjórn, einn fjármálaráðherra og einn seðlabanka. Soros er ekki sá fyrsti, sem heldur þessu fram, því undanfarið hefur hver sérfræðingurinn á fætur öðrum komið fram með þessi sömu rök, eigi að vera einhver framtíð fyrir evruna.
Ýmsir hafa haldið því fram, að kreppan hérlendis hefði ekki orðið eins mikil, ef hér hefði verið notast við evru í stað krónu, en þeir sömu hafa hins vegar ekki getað útskýrt hvers vegna Grikkland, Spánn, Portúgal og Írland eru þá í eins djúpri kreppu og raun ber vitni, þrátt fyrir evruna, að ekki sé talað um ríki, sem þegar hafa bundið gjaldmiðil sinn við evruna og bíða þess að taka hana upp.
Hér á þessu bloggi var því einhverntíma slegið fram, að krónan yrði að öllum líkindum langlífari gjaldmiðill en evran og virðist það vera að koma æ betur í ljós, að sú spá gæti komið fram fyrr en búast hefði mátt við.
Soros telur að jafnvel þó hægt verði að bjarga Grikklandi fyrir horn núna, þá séu Spánn, Portúgal og Írland of stór efnahagskerfi, til að hægt sé að bjarga þeim á sama hátt, enda engar líkur á að evran stæðist næstu fjármálakreppu, með óbreyttu skipulagi hennar.
Ef til vill verður ekki svo langt þangað til að aftur fari að sjást Drökmur, Pesetar, Mörk, Frankar o.frv.
Óvissar framtíðarhorfur evru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessi maður hefur lifibrauð sitt af því að leggja gjaldmiðla í rúst. Á þeirri forsendu tek ég hann ekki alvarlega.
Jón Frímann (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 11:44
Hann hefur grætt vel á slíku, rétt er það, en hann hefur hagnast á öllu mögulegu öðru, þannig að fullt mark er tekið á honum.
Axel Jóhann Axelsson, 22.2.2010 kl. 11:51
Er maðurinn ekki bara að segja sannleikann, er þetta ekki það sem verið er að vinna að, ljóst og leynt, gera evrópu að einu ríki.
Gunnar Heiðarsson, 22.2.2010 kl. 11:57
Sammála Gunnari, nú fer næsta stig stofnunar US€ í gang til að "bjarga" €vruni.
Eggert Sigurbergsson, 22.2.2010 kl. 12:54
Sælir félagar.
Það er gaman að fylgjast með því hvað þið gleypið við fréttaflutningi á mbl.is. og hafið áhyggjur af stöðu mála í Evrópu! Aumingja Evrópubúar. Þessi mynt sem þeir þurfa að glíma við er að éta alla út á gaddinn. Það er annað og betra hér á Íslandi. . . . . . . . Reyndar er lítil von á að íslendingar skiljið hvað hugtakið gjaldmiðill er í raun og veru, enda er engan slíkan þar að hafa!
Það væri nú gaman að eiga við ykkur málefnaleg rök um stöðu evrunar og hvort ekki væri skynsamlegt fyrir íslenska neytendur að komast undir verndarvæng Evrópska seðlabankans í staðin fyrir að hlusta á þetta klisjukennda smjaður ykkar við ritstjóra Moggans.
Axel. Ég sé á heimssíðu þinni að Andrés Mag er bloggvinur þinn númer tvo og er hann sérlegur aðdáandi Evrunar. Mig langar að vitna í orð hans en eins og íslenskum hægri mönnum sæmir, þá tjá þeir sig oftar en ekki út frá tillfinningu frekar en skynsemi. Hann básúnaði skömmu eftir tilkomu Evrunar að "útilokað væri að evran ætti nokkurn tímann eftir að verða jafnsterk og dollarinn 1 á móti 1. Það væri bara óskhyggja bjúrókratana í Brussel". Svo kláraði hann dæmið með að kalla evruna verðlitla pappírspeninga um leið og hann brosti út í annað, en þar mátti lesa í huga hans hversu klár og kúl hann væri.
Í dag er 1 evra ca. 250 ísl kr. á markaði ef hægt er að tala um markað og dollarinn er með ca. 75% af verðgildi evrunar!
P.S. Tek það fram að það sem sett er undir gæsalappir er ekki orðrétt haft eftir Andrési, en stálminni mitt klikkar ekki og ég lofa því að a.m. k. er ekki of djúpt í árinni tekið þegar ég vitna í ummæli Andrésar í þessum sjónvarpsþætti.
Hörður Hinrik Arnarson (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 15:34
Hörður, hefur þú ekkert fylgst með fréttum undanfarna mánuði? Hver spekingurinn eftir annan hefur verið að fjalla um evruna og hreint ekki allir spáð henni langlífi. Nú síðast hafa verið að berast fréttir af því að Þjóðverjar, Frakkar, Spánverjar o.fl. væru að verða andsnúnir evrunni og vildu gamla gjaldmiðilinn sinn aftur.
Hafi Andrés spáð illa fyrir evrunni, hefur hann líklega verið bara nokkuð sannspár, þó hún hafi farið upp fyrir dollar, sem reyndar er að styrkjast aftur núna, en evran að veikjast.
Sjálfur hef ég bloggað um evru og krónu frá því löngu áður en Davíð Oddson varð ritstjóri Moggans og aldrei einu sinni hugsað út í það, að slík skrif gætu flokkast undir smjaður við þann góða mann.
Ef þú og aðrir Íslendingar hættu að reyna að tala niður sinn eigin gjaldmiðil, væri kannski von til þess að hann öðlaðist það traust, sem hann á skilið. Það hefur aldrei þótt góð auglýsing, að lýsa því yfir að söluvaran sé ónýt og vara viðskiptavini við að kaupa hana.
Axel Jóhann Axelsson, 22.2.2010 kl. 15:44
Ef hugarheimur mbl.is væri allsráðandi á heimsmörkuðum væri evran dauður gjaldmiðill. Ég minni þig aftur á stöðu evrunar gagnvart dollara og ísl kr í DAG.
Ég hef aldrei talað illa um krónuna okkar heldur aðeins af miklu raunsæi. Ef þú virkilega heldur að hrun krónunar sé vegna þess að vondir íslendingar töluðu hana niður, sbr. svar þitt hér á blogginu fyrr í dag þá er lítil von til þess að hægt sé að eiga við þig málefnalegar umræður.
Hörður Hinrik Arnarson (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 16:13
Aldrei gaf ég í skyn að gengishrunið hefði verið af mannavöldum, eða af illu umtali. Bankakreppan átti auðvitað sök á því og ekki hafa öll evrulöndin farið vel út úr henni heldur.
Mörg evrulandanna verða að grípa til niðurskurðar og skattahækkana og þar að auki að lækka laun. Allt veldur þetta kjararýrnun í þeim löndum, þó ekki verði það jafnmikið og hérlendis, enda voru okkar banka- og útrásartaparar stórtækari, en flestir kollegar þeirra erlendis.
Vegna krónunnar munu Íslendingar verða fljótari en ella, að ná sér út úr kreppunni, svo framarlega sem stjórnvöld hætta að tefja fyrir atvinnuuppbyggingu og öðrum efnahagsumbótum.
Axel Jóhann Axelsson, 22.2.2010 kl. 16:38
Sæll Axel.
Ég verð að biðja þig afsökunar en ég var að rugla þér saman við skoðunarbróðir þinn Gunnar Hreiðarson. Hann var líka að svara annarri grein í gærmorgun þar sem kenndi utanríkisráðherra um stöðu krónunar. Í öllu þessu bölæði, þá styrkist evran gagnvart dollara í gær!!!!!!
Ertu til í að lesa greinina hérna að neðan sem fjallar um fjármál vinar míns á spáni. Getur verið að manni sárni og horfi öfundaraugum til neytenda á spáni en þetta er svar við annarri grein um stöðu krónurnar vs. Evru.
Það er gott að hafa hugsjónir en getur verið að neðangreind staðreynd um fjármál vinar míns á spáni hafi eitthvað að segja um það hvort við íslendingar ættum að reyna að ræða þessa hluti fordómalaust og kannski út frá sjónarhorni neytendana í þessu blessaða landi okkar.
Spænskur vinur minn Victor Saez keypti sér hús fyrir þremur árum síðan. Mánaðarlegar greiðslur í afborganir voru 1000 Evrur á mánuði en húsið kostaði 300.000 evrur. Við lækkun stýrivaxta Evrópska seðlabankans hafa afborganir af þessu húsi lækkað niður í 835 evrur á mánuði. Verðbólga á spáni hefur verið um 0% síðan haustið 2008. Laun hans eru hin sömu og áður þannig að kaupmáttur hans hefur aukist sem og annara spánverja sem haldið hafa vinnu og sömu launum. Reyndar hafa skattar hækkað á spáni til að halda atvinnuleysissjóðnum gangandi og auðvita þarf Victor að greiða hærri skatta en árið 2008.
Eigum við að gera raunverulegan samburð við íslenskt launafólk og hvað það hefur þurft að glíma við á undarförnum 23 mánuðum?
P.S. Ég gleymdi að koma því að en höfuðstóll lánsins hjá honum Victori hefur heldur ekkert hækkað.
Hörður Hinrik Arnarson (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 09:37
Hörður, Spánverjar eru einmitt ein þeirra þjóða, sem er í miklum vandræðum vegna evrunnar, þ.e. þeir geta ekki haft nein áhrif á gengi gjaldmiðilsins og einmitt vegna styrks evrunnar um þessar mundir, er hún að drepa lönd eins og Spán, Portúgal, Grikkland, Írland og t.d. Eystrasaltslöndin, sem eru búin að binda sína gjaldmiðla við evruna. Í sumum þessara landa hefur þegar verið gripið til mikils niðurskurðar opinberra útgjalda, skattahækkana og beinna launalækkana, þó vinur þinn hafi ekki orðið fyrir því ennþá.
Þetta lán, sem Victor Saez tók til húsakaupanna hlýtur að vera til ævintýralea langs tíma, ef afborganir og vextir af laninu eru ekki nema 1.000 evrur, en ekki kemur fram hvers konar lán þetta er, þ.e. er þetta annuitetslán eða með föstum afborgunum höfuðstóls, hvaða vextir voru á því upphaflega og hvað lækkuðu þeir mikið.
Þó maður reiknaði með að vextir væru ekki nema 3,5% og lánið ekki annuitetslán, þá væru mánaðarlegar vaxtagreiðslur einar saman 875 evrur, þannig að þessi mikla lækkun á afborgun og vöxtum, sem fram kemur er svolítið einkennileg. það er erfitt að bera þetta saman við íslensk húsnæðislán, nema hafa betri upplýsingar um spænska lánið.
Vandamálið á Íslandi hefur ekki verið krónan, sem slík, heldur nánast alger skortur á efnahagsstjórn alveg frá lýðveldisstofnun, með nokkrum árum inn á milli, sem þetta hefur verið nokkurn veginn í lagi, en svo hefur alltaf sótt í sama farið aftur.
Þótt við tækju upp evru, en efnahagsstjórnin yrði svipuð og áður, yrðum við ekki lengi að koma okkur í sömu vandræðin og Grikkir, Spánverjar, Portúgalir, Írar og Eystasaltslöndin eru í núna. Evran myndi ekki bjarga okkur, frekar en þeim.
Axel Jóhann Axelsson, 23.2.2010 kl. 12:30
Kreppin er ekki búin !
Wulf (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 18:59
Beint áfram með krónan !
Ekki ESB !
Wulf (IP-tala skráð) 23.2.2010 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.