29.1.2010 | 09:57
Ætli vinstri grænir skilji þetta?
Vöruskiptajöfnuður síðasta árs var um 87,2 milljarðar króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Þetta er líklega algert met, því vöruskiptajöfnuður hefur verið lítill, sem enginn, undanfarna áratugi og ekki hægt að reikna með svo miklum afgangi í framtíðinni, þegar efnahagslífið og kaupmáttur almennigs tekur við sér að nýju, nema ný og öflug útflutningsfyrirtæki bætist við hérlendis á næstunni.
Ekki er líklegt að hægt verði að auka verulega við fiskveiðar á næstu árum og því enn mikilvægara að flýta uppbyggingu annarra atvinngugreina, svo sem iðnaðar og þá sérstaklega stóriðju.
Fram kemur að: "Iðnaðarvörur voru 48,2% alls útflutnings og er þetta annað árið í röð, frá því að skráning á árlegum útflutningi hófst með reglubundnum hætti árið 1862, sem hlutdeild iðnaðarvara er hærri en sjávarafurða. Verðmæti iðnaðarvara var 26,5% minna á árinu 2009 en árið áður og vó ál þyngst í útflutningnum. Sjávarafurðir voru 42,0% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 9,2% minna en á sama tíma árið áður."
Álverð var tiltölulega lágt á heimsmarkaði á síðasta ári, en hefur farið mjög hækkandi undanfarnar vikur og því er tími til kominn að vinstri grænir fari að tala af virðingu um þessa aðalútflutningsgrein landsins og hætti skemmdarverkum sínum gegn frekari uppbyggingu í greininni.
Allur sá gjaldeyrir, sem fæst út úr þessum vöruskiptajöfnuði, dugar ekki til greiðslu vaxta og afborgana af Icesave einu saman á næstu árum og eru þá allar aðrar vaxtagreiðslur og afborganir þjóðarbúsins af erlendum skuldum eftir og enginn gjaldeyrir til fyrir þeim.
Vinstri grænir og aðrir verða að skilja það, að efling útflutningsatvinnuveganna er nauðsynlegasta efnahagsaðgerðin sem þarf að ráðast í og verður að hafa forgang á allt annað næstu árin.
Vöruskiptin hagstæð um 87,2 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.