5.1.2010 | 13:34
Merk tíðindi og nokkuð óvænt
Ólafur Ragnar hefur nú synjað staðfestingar á breytingnarlögunum um afnám flestra fyrirvaranna við ríkisábyrgðina á skuldum Landsbankans og kom sú ákvörðun forsetans mörgum á óvart, vegna tengsla hans við ríkisstjórnarnefnuna, en hann er í raun guðfaðir hennar.
Vilji þjóðarinnar varðandi þessa lagasetningu var algerlega skýr, en í öllum skoðanakönnunum hefur komið fram, að 70% landsmanna voru henni algerlega andvígir og tæpur fjórðungur kjósenda hafði undirritað áskorun á forsetann að skjóta þessari lagasetningu til þjóðarinnar til afgreiðslu.
Þrá Ólafs Ragnars eftir virðingu almennings og ekki síður að komast á spjöld sögunnar, sem dáður fulltrúi þjóðarsálarinnar, réði fyrst og fremst afstöðu hans, fremur en umhyggja fyrir ríkisstjórninni, sem hann hefur þó nokkuð örugglega verið búinn að tryggja, að myndi ekki segja af sér í framhaldinu.
Enginn hefur krafist afsaganar stjórnarinnar vegna þessa máls og nú er áríðandi að þjóðin standi saman í þjóðaratkvæðagreiðslunni og felli lögin úr gildi með yfirgnæfandi meirihluta. Það mun sýna Bretum og Hollendingum að þjóðin lætur ekki bjóða sér hvað sem er í þessu máli, en er samt tilbúinn til að taka á sig viðráðanlegar byrðar til þess að leysa hnútinn.
Eftir að þjóðin verður búin að fella lögin úr gildi, er áríðandi að ný samninganefnd, studd af öllum stjórnmálaflokkum, verði skipuð til þess að ljúka málinu endanlega í sátt við þjóðina, sem orðin er fullsödd á þeim yfirgangi, sem henni hefur verið sýnd af hálfu Breta, Hollendinga, Norðurlandanna, ESB og AGS.
Það sem sagt var í sjálfstæðisbaráttunni, er enn í fullu gildi: "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér."
Telur þetta leiða til sáttar meðal þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.